Bæjarstjórn Hveragerðis fagnar verndun Bitru og Grændals
Í gær samþykkti bæjarráð Hveragerðis eftirfarandi ályktun samhljóða:
Hvergerðingar og aðrir fylgjendur skilyrðislausrar verndunar Bitru, Reykjadals og Grænsdals fagna tillögu til þingsályktunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem gerir ráð fyrir verndun á umræddu svæði. Með því er sérstaða dalanna og svæðisins hér ofan byggðar í Hveragerði viðurkennd en fyrir þessu höfum við barist allt frá því fyrsta hugmynd um Bitruvirkjun kom fram. Órofa samstaða Hvergerðinga hefur án vafa átt stóran þátt í þessari niðurstöðu en við hlið okkar hafa staðið öll samtök sem láta sig náttúruvernd einhverju skipta á landinu. Slík samstaða er dýrmæt og fyrir það viljum við þakka.
Nú er mikilvægt að allir standi þétt að baki þessari niðurstöðu. Virkjunarkostir eru nægir hér í nágrenninu þrátt fyrir að þetta svæði verði verndað. Virkjunarkostir sem enginn ágreiningur er um. Hverahlíð, Gráuhnjúkar og Meitill eru þar efst á blaði. Nú er brýnt að orkuöflunarfyrirtæki horfi til þeirra staða þar sem samstaða er um að virkja en haldi ekki áfram að berjast við vindmyllur í vonlausri baráttu um virkjanir á stöðum sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill vernda. Slík umræða er einungis til þess fallin að hindra að sátt náist meðal þjóðarinnar um verndar- og nýtingaráætlun um fallvötn og jarðhita.
Ljósmynd: Innst í Reykjadal. ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Bæjarstjórn Hveragerðis fagnar verndun Bitru og Grændals“, Náttúran.is: 2. september 2011 URL: http://nature.is/d/2011/09/02/baejarstjorn-hveragerdis-fagnar-verndun-bitru-og-g/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.