Frá og með morgundeginum, 1. september, mun Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs taka gildi hér á landi.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur skrifaði eftirfarandi færslu á bloggsíðu sína í dag:

Morgundagurinn verður gleðidagur í lífi mínu sem neytanda, því að frá og með morgundeginum á ég rétt á því að vita hvort maturinn minn innihaldi erfðabreyttar lífverur eða efni unnið úr þeim. Á morgun tekur nefnilega gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.

Erfðabreytt matvæli???
Hingað til hef ég ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei, en með erfðabreyttum matvælum er átt við matvæli sem „innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innihalda innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum“, svo vitnað sé beint í reglugerðina. Ég hef bara vitað að meirihluti af öllum soja og maís sem kemur frá Bandaríkjunum er erfðabreyttur, og einhver lítill hluti af evrópskum maís líka. Og ég hef líka vitað að efni sem unnin eru úr maís finnast í ólíklegustu matvörum.

Hvernig verður þetta merkt?
Frá og með morgundeginum á það að sjást á umbúðum matvæla hvort þau innihaldi erfðabreytt efni, annað hvort með því að orðið „erfðabreytt“, komi fram innan sviga strax á eftir vöruheiti, þ.e.a.s. ef viðkomandi matvæli eru erfðabreyttar lífverur, eða þá með því að orðin „erfðabreytt“, eða „framleitt úr erfðabreyttu (nafn innihaldsefnisins)“ komi fram innan sviga strax á eftir viðkomandi innihaldsefni í innihaldslýsingu. Þessar upplýsingar mega reyndar líka koma fram í neðanmálsgrein við innihaldslýsingu, enda séu þær þá prentaðar með letri sem er að minnsta kosti jafnstórt og letrið á innihaldslýsingunni. Nú, og ef umbúðirnar eru engar eða svo litlar að upplýsingarnar komist ekki fyrir á þeim, þá eiga upplýsingarnar ávallt að vera sýnilegar þar sem matvælunum er stillt upp.

Hvernig verður þessu framfylgt?
Ef upp kemur rökstuddur grunur um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, þá ber framleiðendum eða seljendum að að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna. Nú, og svo eiga heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Gaman hjá mér á morgun!
Á morgun ætla ég í búðir að skoða kornflexpakka, kexpakka, örbylgjupopp og alls konar aðrar matvörur til að fræðast um útbreiðslu erfðabreyttra matvæla. Og í framhaldinu ætla ég að taka upplýstar ákvarðanir um það hvað ég borða og hvað ekki. Þetta verður gaman!

Pínulítil leiðrétting
Já, ég sagði víst framarlega í þessum pistli að ég hefði hingað til ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei. Þetta er reyndar ekki alveg rétt. Ég kaupi nefnilega oft lífrænt vottuð matvæli. Í þeim er aldrei neitt erfðabreytt efni.

Birt:
31. ágúst 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Stefán Gíslason „Reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs tekur gildi á morgun “, Náttúran.is: 31. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/31/reglugerd-um-merkingu-og-rekjanleika-erfdabreyttra/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. september 2011

Skilaboð: