Orkusetur og Norðurlandsskógar eru að skoða í sameiningu hagkvæmni viðarkyndingar á köldum svæðum. Markmiðið er að skoða ofan í kjölin hagkvæmni slíkrar kyndingar fyrir ríkið og einstaklinginn. Ef einstaklingurinn sparar rafmagn til húshitunar lækka niðurgreiðslur ríkisins að sama skapi og því er um sameiginlegt hagsmunamál að ræða.

Í framhaldi af því má velta fyrir sér hvort ríkið ætti að hvetja til fjárfestinga á viðarkötlum með því greiða hluta stofnkostnaðar fyrir einstaklinga sem vilja nýta sér þessa vistvænu orku sem felst í þurrum eldiviði.

Á meðfylgjandi mynd má sjá viðarketil / lurkabrennara sem hentar vel fyrir heimiliskyndingu.

Forsenda þess að svona kerfi virki er að geta geymt hitaorkuna sem ketillinn myndar í stórum einangruðum vatnstönkum og skammtað inná miðstöðvakerfið. Þannig verður nóg að kveikja upp einu sinni á sólarhring.

Nú fer að renna upp sá tími að upphitun með innlendum eldiviði sé að verða raunhæfur kostur á nýjan leik. Sérstaklega á þetta við þar sem rafmagn eða olía eru notuð til upphitunar. Árið 1990 höfðu allnokkrir bændur hafið skógrækt á sínum jörðum um land allt og eftir þann tíma hefur umfang bændaskóga vaxið jafnt og þétt.

Notkun eldiviðar er stórt hagsmunamál fyrir skógrækt framtíðarinnar.
Í fyrsta lagi er mikilvægt að nýta það timbur sem fellur til við fyrstu grisjun skógarins og ný tist ekki til iðnaðar vegna smæðar. Og í öðru lagi er grisjun, a.m.k. lerkiskóganna, nauðsynleg til að tryggja vöxt og viðgang skógarins til lengri tíma þannig að bestu trén fái notið sín.

Á Norður- og Austurlandi hafa verið gróðursettir allmiklir lerkiskógar sem hafa vaxið ótrúlega hratt á þurru og erfiðu landi. Við 20-25 ára aldur er tímabært að grisja þessa skóga til að gefa bestu timburtrjánum rými til vaxtar. Sá grisjunarviður sem fellur til við 25 ára aldurinn er afar breytilegur að gæðum enda er verið að fjarlægja tré sem eru kræklótt, brotin eða hafa orðið undir í samkeppni um ljós og næringu. Við grisjunina eru bolirnir afkvistaðir og greinarnar látnar rotna í skógarbotninum og verða að næringu fyrir eftirstandandi tré. Sumt af því sem fellur til má nota sem girðingastaura en allt annað efni mætti nýta sem eldivið enda skiptir vaxtarform og gildleiki litlu máli fyrir eldinn.

drumb

Bændaskógarnir eru dreifðir um land allt og í framtíðinni verður því á flestum stöðum stutt í næsta bændaskóg. Til að hagkvæmt sé að nota eldivið til upphitunar má fjarlægðin að skóginum ekki vera mjög mikil og er gjarnan miðað við um 30-50 km. Viður tekur mikið pláss og er dýr í flutningi. Hagkvæmast er auðvitað að nýta eigin skóg og tæki.

Miklar framfarir hafa orðið í þróun viðarkatla til húshitunar. Forsenda fyrir því að kerfið virki vel er að geta geymt orkuna sem losnar við brunann. Einfaldasta leiðin til þess er að nota ofninn til að hita vatn í einangraða tanka sem deila hitanum út á vatnsofnakerfi mörgum klukkustundum eftir að eldurinn í katlinum er slokknaður. Mjög mikilvægt er að eldiviðurinn sé þurr til að hámarka orkunýtinguna og lágmarka mengun við brunann. Viðarkatlar eru oft útbúnir þeim möguleika að nota aðra eldsneytisgjafa s.s. rafmagn eða olíu sem getur þá tekið við ef ekki er verið að kynda með eldiviði.
Upphitun með grisjunarviði er umhverfisvæn því fyrst og fremst er verið að nýta hráefni sem annars hefði rotnað í skógarbotninum vegna sjálfgrisjunar skógarins í innbyrðis samkeppni trjánna um pláss og næringu. Það kolefni sem losnar við brunann í katlinum hefði að öðrum kosti losnað út í andrúmsloftið á fáum árum vegna rotnunar ef viðurinn hefði verið skilin eftir í skóginum.
Framboð af hráefni á eftir að verða mjög mikið. Ef skoðaðir eru lerkiskógar Norður- og Austurlands eingöngu má ætla að árið 2010 verði 2000 ha af skógi, gróðursettir fyrir og uppúr 1990, komnir í mikla grisjunarþörf. Frá árinu 2010 verður hægt að hita upp um 400 sveitaheimili með grisjunarviði úr lerkiskógunum á þessu svæði og árið 2030 verður framboð af viði nánast ótakmarkað til húshitunar.
Það er ástæða til að hvetja alla sem eru að kynda sín hús með t.d. rafamagni eða olíu í dag að hugleiða möguleikann á að nota eldivið til að lækka kyndingarkostnað. Eldri hús sem einhvern tímann hafa haft olíukyndingu og eru með vatnsofnakerfi henta sérstaklega vel til að skipta yfir í eldiviðarkyndingu.

Forsendur:
• Við grisjun á 25 ára lerkiskógi fást að lámarki 25 m3/ha
• Grisjað frá 2500 trjám/ha niður í 1500 tré/ha við 25 ára aldur Meðaltré 25 lítrar
• Til heimilsnota þarf 25 m3 af viði árlega*

Þetta gerir að grisja þarf 1 ha árlega til húshitunar og um 20 ha skógur dugar til að jörðin sé sjálfbær með hitaorku til heimilisnota og eftir stendur vel hirtur skógur.

Myndir og greina frá Orkusetri.

Birt:
25. mars 2008
Uppruni:
Orkusetur
Tilvitnun:
Sigurður Ingi Friðleifsson „Viðarkynding“, Náttúran.is: 25. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/25/vioarkynding/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. ágúst 2011

Skilaboð: