Vinna hefst við hættumat fyrir eldgos
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum á föstudag, að tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra, að hafin yrði vinna við hættumat fyrir eldgos á Íslandi. Um viðamikla vinnu er að ræða sem gróflega er áætlað að taki 15 – 20 ár í heildina en fyrsti áfanginn er verkefni til þriggja ára.
Eldgosin í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli hafa undirstrikað nauðsyn þess að vinna hættumat fyrir eldgos á Íslandi og hugsanlegar afleiðingar þeirra en margt bendir til að tímabil aukinnar eldvirkni sé hafið. Þannig má búast við eldgosi í Grímsvötnum annað til sjöunda hvert ár en þekkt er að goshrinur verða samhliða í eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Þá eru líkur á eldgosi í Heklu á komandi misserum og reikna verður með Kötlugosi á næstu árum.
Þetta kallar á viðbúnað af hálfu stjórnvalda en í slíku hættumati fyrir eldgos fælist m.a. uppsetning viðvaranakerfa og gerð viðbragðsáætlana; mótvægisaðgerðir sem tækju til landnýtingar, innviðavarna, trygginga og varnarvirkja; þekkingaruppbygging í gegn um kennslu, þjálfun, rannsóknir og miðlun upplýsinga og loks að farið yrði yfir lög og reglugerðir með tilliti til ólíkra hlutverka stofnana í þessu samhengi.
Hættumatið verður unnið samkvæmt hættumatsramma alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og Sameinuðu þjóðanna en góður árangur hefur náðst í hættumati vegna ofanflóða með þessari aðferðafræði.
Þegar hefur Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) veitt fjármagni til Veðurstofu Íslands til að gera úttekt á íslenskum eldstöðvum vegna alþjóðaflugsins sem nýtast mun mjög vel í heildarhættumati.
Ljósmynd: Heklugos 1991 ©Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Vinna hefst við hættumat fyrir eldgos“, Náttúran.is: 30. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/30/vinna-hefst-vid-haettumat-fyrir-eldgos/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.