Umhverfisráðherra fundar með Vandana Shiva
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fundar með hugsuðinum og baráttukonunni Vandana Shiva á mánudag í tilefni af komu hennar hingað til lands. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra taka einnig þátt í fundinum.
Vandana Shiva hefur barist fyrir sjálfbærri þróun með áherslu á umhverfis- og mannréttindamál um áratuga skeið. M.a. er hún þekkt um allan heim fyrir baráttu sína fyrir hag indverskra bænda og starf sitt í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og bættrar umgengni við umhverfið. Í því sambandi hefur hún opnað augu fyrir mikilvægi þess að varðveita staðbundna þekkingu sem er að glatast vegna hnattrænna áhrifa og sóunar á náttúruauðlindum.
Þá hefur hún beitt sér gegn því að fjölþjóðleg iðnaðarfyrirtæki nái yfirráðum yfir matvælaframleiðslu og gegn einkavæðingu vatns. Hún er jafnframt einn af þekktustu talsmönnum umhverfisfemínisma í heiminum og lítur svo á að baráttan fyrir jafnrétti og baráttan gegn eyðingu náttúrunnar séu tvær hliðar á sama peningnum. Þess má geta að jafnrétti kynjanna er meðal áhersluatriða Íslands í loftslagsmálum en Ísland hefur sett jafnréttismál á oddinn í yfirstandandi viðræðum innan vébanda Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.
Vandana Shiva hefur birt yfir 500 vísindagreinar, skrifað 20 bækur og haldið fyrirlestra víða um heim. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. hin svokölluðu „Alternative Nobel Prize“ eða Right Livelihood Award.
Á fundi Vandana Shiva með ráðherrunum verða m.a. umhverfismál á alþjóðavísu til umræðu en einnig hvaða áhrif loftslagsbreytingar og aðrar umhverfisvár hafa á Ísland og íslenskt samfélag.
Síðar um daginn mun baráttukonan halda fyrirlestur í Háskólabíói. Hefst hann kl. 17 og er opinn öllum án endurgjalds.
Sjá nánar hér.
Umhverfisráðuneytið hefur stutt sérstaklega heimsókn Vandana Shiva hingað til lands en það eru Háskóli Íslands, EDDA – öndvegissetur, Slow Food Reykjavík og Framtíðarlandið sem standa að komu hennar.
Ljósmynd: Vandana Shiva.
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Umhverfisráðherra fundar með Vandana Shiva “, Náttúran.is: 26. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/26/umhverfisradherra-fundar-med-vandana-shiva/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.