Endurnýjanlegir orkugjafar í öndvegi - 1. grein af 3
Orkunotkun Íslendinga mun taka gagngerum breytingum verði áætlun ríkisstjórnarinnar um orkuskipti að veruleika. Samkvæmt henni munu meira en tíu prósent af allri orku sem nýtt er í samgöngum koma úr endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2020, eftir níu ár. Í dag kemur eitt prósent úr slíkum orkugjöfum.
Til þess að þetta verði að veruleika er ljóst að umfangsmiklar breytingar þurfa að verða á samgönguflota landsins. Iðnaðarráðherra hefur hleypt af stað átaki í þessa veru, Grænu orkunni, og verkefnisstjórn hennar vinnur nú að tillögum um hvernig þetta getur orðið að veruleika. Með því á að leiða alla þá saman sem fást við orkuskipti í samgöngum.
„Græna orkan mun vinna aðgerðar- og framkvæmdaáætlun um verkefnið og tengja saman alla þá sem fást við málaflokkinn. Með henni skapast aðgengi að stjórnvöldum, en frumkvæðið mun koma frá atvinnulífinu,“ segir Katirín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Úr stjórnsýslu í atvinnulífið
Sverrir Viðar Hauksson er formaður verkefnastjórnar Grænu orkunnar. Hann segir að verkefnið sé nú á mikilvægum tímapunkti; hingað til hafi það fyrst og fremst verið á sviði stjórnsýslunnar, en nú sé það að færast út í atvinnulífið.
Fyrrverandi verkefnisstjórn skilaði af sér drögum að þingsályktunartillögu sem lögð var fyrir Alþingi í janúar (2011). Hún var samþykkt samhljóða í júní og í henni er að finna yfirlýsta stefnu stjórnvalda í málaflokknum.
„Upphaflega hugmyndin var að búa til stóran samstarfssamning og skapa aukið fjármagn til að setja effort í þetta. Síðan var ákveðið að bíða með það og klára grunnvinnuna fyrst,“ segir Sverrir Viðar. Sú vinna liggur nú fyrir í stefnumótun og fyrir verkefnisstjórninni liggur nú að mynda framíðargrundvöll fyrir græna orku. „Það er búið að skapa stefnuna, en við eigum að koma með tillögur og reka á eftir þeim breytingum sem þarf að gera í regluverkinu.
Við erum að skapa samstarfsvettvang opinberra aðila og atvinnugreinanna. Ég sé fyrir mér að ein af nauðsynlegum niðurstöðum úr starfi verkefnisstjórnarinnar verði að gera Grænu orkuna að verkefni til lengri tíma. Það þarf að tryggja þessu fjárhagslegan grunn og skapa aðila sem atvinnulífið getur leitað til,“ segir Sverrir.
Hann er ánægður með nálgun iðnaðarráðherra, að draga einkageirann að verkefninu. „Það er mjög klókt hvernig hún stendur að þessu. Hún treystir einkageiranum ekki jafnvel og ég, sem hefði viljað ganga lengra fram í þá átt, en lokatakmarkið er það sama; það á að reka þetta án þess að þetta verði miðlægt, ríkislægt lobbí.“
Miklir fjárfestingarmöguleikar
Sverrir segir orkuskiptin munu hafa í för með sér mikla fjárfestingarmöguleika fyrir marga. Ný atvinnugrein hafi myndast í bílabreytingum og miklir möguleikar séu í orkuframleiðslunni.
Tímabundnir hvatar
„Þetta getur haft í för með sér óheyrilega mikla fjárfestingu fyrir þessa aðila. Það er að myndast ný atvinnugrein með bílabreytingum, sem eru samt sem áður mjög frjálslegar í dag. Eitt af þeim viðfangsefnum sem við erum í er að reyna að reglubinda aðeins framkvæmdina og eftirlitið – að það sé verið að gera þetta vel.“
Iðnaðarráðherra leggur einnig áherslu á þennan þátt, atvinnusköpunina. Með verkefninu skapist fjölmörg störf í nyýsköpun, þegar fjölbreyttir orkugjafar verða nýttir til að knýja samgöngutækin.
Sverrir segir Ísland hafa tækifæri til að vera í forystuhlutverki hvað samgöngur varðar. „Það sem æpir á mann í orkumálum er það að við erum að keyra 70 prósent endurnýjanlega orku í samfélaginu í heild, en við erum með rosalega lágt hlutfall í samgöngum.
Tækifærin eru til staðar varðandi það að á einn eða annan hátt mun rafmagn verða stór hluti af þessum framtíðarorkugjöfum, hvort sem rafmagnið er notað til þess að búa til eitthvað annað eða með beinum hætti. Það verður notað þannig í svo og svo miklum mæli, en líka til að búa til aðra orkugjafa. Þar eigum við ofboðslega mikil tækifæri. Við getum kannski ekki verið í forystuhlutverki í orkuskiptum, það er eitthvað sem ekki er raunhæft, en forystuhlutverk í notkun á endurnýjanlegri orku, það er skynsamleg stefna.“
Hagrænir hvatar
Fjölmargir möguleikar eru uppi þegar kemur að vistvænum orkugjöfum. Metan, rafmagn, lífdísill, vetni og metanolía, svo eitthvað sé nefnt. Sverrir segir tækninýjungar örar í þessum geira og peningum og hugviti sé veitt til hans. „Við verðum að hlaupa hratt til að ná þessu öllu.“
Innan stjórnkerfisins er nú unnið að þeim breytingum sem nauðsynlegar eru í regluverkinu til að samræma vinnuna. Katrín segir að það sé víðfeðmt verkefni, því í raun sé fáttt óviðkomandi Grænu orkunni.
Meðal þess sem verkefnisstjórnin skoðar er hvernig hægt er að beita hagrænum hvötum til að stuðla að skiptum yfir í umhverfisvænni bíla. Sverrir tekur dæmi af bensínbíl og dísilbíl. „Dísilbílar skila sama krafti með 20 prósentum minna eldsneyti. Ef gjaldaumhverfið væri þannig að dísilolía væri ódýrari en bensín myndaðist hvati til að kaupa dísilbíla, þeir eru að öllu jöfnu aðeins dýrari, en af eldsneytið er orðið ódýrara ná menn að reikna sig upp í hver sparnaðurinn verður. Það auðveldar fólki valið og um leið þarf þá að flytja minna inn af eldsneyti.“
Ekki veðjað á einn hest
Katrín segir mikilvægt að stjórnvöld leggi ekki línurnar varðandi orkugjafa. Þeirra sé að styðja atvinnulífið í þeim leiðum sem það velur, hvaða orkugjafi sem verður fyrir valinu. Sverrir tekur undir það; markaðurinn verði að ráða hvaða leið verði farin. Þess vegna sé mikilvægt vægt að notast við mælikvarðann um innflutning jarðefnaeldsneyt is, hvaða orkugjafi komi svo í stað- inn fyrir það sé minna mál, sé hann endurnýjanlegur.
Við erum að keyra 70 prósent endurnýtanlegrar orku í samfélaginu í heild, en við erum með rosalega lágt hlutfall í samgöngum.“ Sverrir Viðar Hauksson formaður verkfisstjórnar Grænu orkunnar.
„Það sem er erfiðast gagnvart skattaumhverfinu er að tekjumódel íslenska ríkissjóðsins er með þeim hætti að samgöngum er ætlað að skila óheyrilega miklu í ríkiskassann og hefur alltaf verið. Innflutningsgjöld sem eru með því hæsta í heiminum, ofurtollar eru á bílum og við höfum gríðarlega há eldsneytisgjöld. Þá eru bifreiðagjöldin og vaskurinn af öllu sem í tengslum við þetta er ótalin. Samgöngur eru mjög þungt skattlagðar og er stór hluti af skatttekjum ríkissjóðs,“ segir Sverrir.
Hann segir að ef eigi að gefa verulega eftir hvað skatta varðar þurfi að draga úr ríkisútgjöldum, eða afla tekna annars staðar. Þá sé viðbúið að það sem nú er gefið eftir, varðandi umhverfisvænni orkugjafa, sé tímabundið. „Allt sem er gefið eftir núna, er tímabundið, einhvers staðar munu þeir alltaf sækja aftur tekjurnar, eða þá að þeir fara einhverjar aðrar leiðir sem mér finnst ólíklegt. Það er flækjustig í að nýta skattumhverfið sem hvata nema bara mjög tímabundið.
Metanið er ódýrara en jarðefnaeldsneytið, en hefur ekki sama skatthlutfall, en það mun verða skattlagt. Rafmagn í samgöngur er ekki skattlagt, ef allt væri orðið rafbílavætt hérna væri farið að skattleggja það, nema ríkissjóður taki sig til og finni aðra tekjustofna.
Það er eitt af þvií sem við erum líka að reyna að horfa til, er hægt að tímasetja það? Það er vont að geta ekki gert plön fram í tímann. Okkar hlutverk er að tímasetja, niðurfelling eða lægri gjöld að lágmarki ákveðinn tíma, eða eitthvað í þeim dúr. Eins er með rafmagnsbílana, það þarf að reikna út hvað það muni kosta að vaskurinn sé felldur niður á rafmagnsbílum og í hve langan tíma? Þá þarf að skoða hvort einhverjir aðrir hvatar séu til sem hægt er að nota.“
Markmið ríkistjórnarinnar varðandi orkuskipti
1. Markmið.
Að því skal stefnt að Ísland verði í forystu við notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi töluvert lægra en annars staðar eða minna en 1%. Markmiðið innan ESB er 10% fyrir árið 2020.
2. Mikilvægi.
Unnið verði markvisst og eins hratt og kostur er að því að draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti með því að hvetja til orkusparnaðar og skapa hagrænar forsendur fyrir notkun ökutækja sem nota endurnýjanlega orkugjafa. Stefnt skal að því að hefja framleiðslu og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum sem leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, gjaldeyrissparnaðar og meira orkuöryggis.
3. Skattaumhverfi.
Skattaumhverfi verði þróað áfram til að það hvetji bæði neytendur og fyrirtæki til orkuskipta í samgöngum og til framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum til samgangna. Jafnframt felist hvati til orkusparnaðar í skattkerfinu.
4. Orkusparnaður.
Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar í samgöngum, m.a. með miðlun upplýsinga til almennings, umhverfismiðuðu svæðaskipulagi, breyttu skattkerfi, eflingu almenningssamgangna og fleira í samvinnu við þá aðila sem nú þegar vinna að þessum málum, svo sem Orkusetur og sveitarstjórnir.
5. Samstarf.
Lykilaðgerðir sem grípa þarf til verði skipulagðar og samstaða sköpuð um þær, m.a. með klasasamstarfi með þátttöku atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis.
6. Rannsóknir og þróun.
Stuðla skal að rannsóknum, tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun tengdri endurnýjanlegum orkugjöfum. Menntun og fræðsla á þessu sviði skal einnig efld.
7. Ísland sem tilraunavettvangur.
Ísland er ákjósanlegur vettvangur til að reyna ýmsar nýjungar í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum í samgöngum. Efla skal þátttöku i´ erlendu samstarfi í því skyni að laða að þekkingu og fjármagn.
8. Stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun.
Efla skal stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun í tengslum við orkuskipti í samgöngum og stefnt skal að sérstakri fjármögnun verkefna á þessu sviði. Fé til verkefna sem tengjast orkuskiptum í samgöngum verði aukið.
9. Alþjóðasamstarf.
Ísland uppfylli allar þær skyldur og kröfur sem alþjóðasamþykktir gera til landsins varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkusparnað og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Jafnframt taki Ísland þátt í alþjóðlegum verkefnum á þessu sviði eftir því sem efni þykja til.
Birt:
Tilvitnun:
Kolbeinn Óttarsson Proppe „Endurnýjanlegir orkugjafar í öndvegi - 1. grein af 3“, Náttúran.is: 25. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/26/endurnyjanlegir-orkugjafar-i-ondvegi-1-grein-af-3/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 26. ágúst 2011
breytt: 27. ágúst 2011