Eftir að drög að þingsályktunartillögu til Rammaáætlunar var kynnt nú á dögunum hefur fréttamaskínan haft í nógu að snúast við að segja sorgarsögur úr munni hinna og þessara sem telja sig hlunnfarna með drögum að þingsályktunartillögunni.

Þetta er sama maskínan og fór í gang til að hrópa húrra fyrir Kárahnjúkavirkjun og bankaútrásinni sálugu. PR maskína virkjanaiðnaðarins sparar ekkert til og hefur undirbúið mótleik sinn vel.

Aðrar raddir eru ekki eins áberandi en fylgjendahópur skynsamlegrar verndar dýrmætra náttúrusvæða er mun stærri en kemur fram í umfjöllunum fréttamiðla. Tökum dæmi um það sem skrifað er í bloggheimum þessa dagana:

Ómar Ragnarsson sagði í gær á bloggsíðu sinni;

Meira tjón, já griðarlegt tjón vegna friðana !
7,5 milljarðar í súginn vegna eins ritfangafyrirtækis er varla fréttnæmt þessa dagana.  Í gær voru tvær fréttir á Stöð 2 vegna þess tjóns sem friðanir á náttúrugersemum og tafir við sölu rafmagns veldur.

Talan 17,4 milljarðar á tíu árum kom fljótlega upp varðandi "tjónið" af völdum þess ef ekki verður af Norðlingaölduveitu.

Nú má búast við því að í fréttum og fréttaskýringum sé framundan margra mánaða tími þar sem birtir verða útreikningar á tjóni af völdum þess að ekki hefur þegar verið virkjað allt sundur og saman sem virkjanlegt er.

Þar munu væntanlega koma fyrst þeir nítján virkjanakostir, sem fara samkvæmt fyrstu drögum Rammaáætlunar í verndarflokk og verður þá fljótlegt að koma tjóninu upp í nokkur hundruð milljarða.

Síðan má ekki gleyma því gríðarlega tjóni sem það hefur valdið þjóðinni í meira en 80 ár að Gullfoss skuli ekki hafa verið virkjaður.  Þegar öll þessi 80 ár eru lögð saman hlýtur það tjón að vera svo mikið að furðu gegnir að þjóðin skuli enn skrimta í landinu.

Virkjun Geysis-svæðisins í Haukadal er einn af um 100 virkjanakostum, sem varpað hefur verið upp.

Það myndi topp tjón-umfjöllun af þessu tagi að reikna út, hve mörgum milljörðum þjóðin tapi á því að hafa ekki virkjað þetta svæði.

í stanslausum fréttaflutningi árum saman í þessa veru er það alger undantekning að nokkurn tíma sé leitað eftir gagnrökum, svo sem þeim hvaða fjármunir fáist fyrir það að lokka ferðamenn að þessum svæðum, en ítrekaðar rannsóknir sýna að þeir koma fyrst og fremst til landsins til að sjá hér ósnortna náttúru, sem búið er að útrýma að mestu í þeirra eigin löndum. “

Sjá framhaldið á bloggsíðu Ómars. Smella hér.

Tryggvi Felixson fv. framkvæmdastjóri Landverndar segir á bloggsíðu sinni í fyrradag:

Gagnlegt innlegg frá Rammaáætlun
Ég vonaði að sjálfsögðu að verndunarflokkurinn yrði stór. Það gleður að sjá Norðlingaöldu þar. En ég sakna Jökulsánna í Skagafirði. Þær fóru í biðflokk. En ef ég skil matið rétt eru þar mikil verðmæti í húfi og því hélt ég að þær myndu lenda í verndunarflokki. Virkjanir í Skjálfandaflokki fóru í biðflokk. Skýringi er víst að gögn um þær eru ekki nægjanlega góð.

Það kom á óvart að Hvalaá í Ófeigsfirði féll í virkjunarflokk. Hún fékk annars nokkuð háa náttúrufarseinkunn ef ég man rétt og skaðinn af virkjun þótti verulegur vegna línulagna hjá faghópi I. Í skýringum segir að orkuöryggi á Vestfjörðum sé helsta ástæðan fyrir að hún falli í virkjunarflokk.

Það gleður að sjá Breinnisteinsfjöll í friðurnarflokk sem og Grændal. Í þingsályktunartillögunni er minnst á þann möguleika að gera svæði frá Innstadal og austur í Grændal að griðlandi og útivistarsvæði, með Ölkelduháls með. Þetta er heillandi svæði, miðja Hellisheiðarinnar, þó búið sé að lúskra talsvert á því með framkvæmdum.  Mæli með því friða það sem hægt er þar.

Það er undarlegt að Uriðafoss skuli settur í virkjunarflokk þó þar sé verðmætur laxastofn í húfi. Lax og laxveiði skapar mikil efnisleg verðmæti. Svo ber okkur samkvæmd alþjóðlegum samþykktum að vernda líffræðilega fjölbreytni.  Svo eru það virkjanirnar þar fyrir ofan, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, sem leggja menningarlandslag í rúst og munu valda mikilum sárindum. Ég átti svo sem von á því að þær lentu í þessum flokki, en tel þó engu að síður að sálarheill okkar séu betur borgið ef Þjórsá fengi að vera í friði á þessu svæði.“

Sjá alla greinina á bloggsíðu Tryggva. Smella hér.

Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar sagði á bloggsíðu sinni í gær:

Tölurnar á bak við tár orkufyrirtækjanna
Samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu um rammaáætlun er gert ráð fyrir að virkjanir á svæðum sem falla í orkunýtingarflokk geti framleitt 13.234 gígawattstundir. Fulltrúar orkufyrirtækjanna koma nú fram hver á fætur öðrum og lýsa yfir óánægju með niðurstöðuna þar sem of fá svæði hafi verið sett í orkunýtingarflokk (Sjá t.d. hér, hér og hér). Þeir fá orkuþörf sinni ekki fullnægt. En lítum á tölurnar á bak við tárin.

Hvað eru 13.234 gígawattstundir? Kárahnjúkavirkjun, hæsta grjótstífla Evrópu og ein sú stærsta í heiminum, framleiðir 4.600 gígawattstundir á ári. Samkvæmt tillögum iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra verður því hægt að reisa virkjanir á næstu árum sem jafnast á við rétt tæpar þrjár Kárahnjúkavirkjanir!

Orkuframleiðsla hér á landi var 16.900 gígawattstundir árið 2009 og hafði þá tvöfaldast á einungis fimm árum. Verði tillaga að rammaáætlun samþykkt óbreytt geta orkufyrirtækin næstum tvöfaldað orkuframleiðslu aftur á nokkrum árum!

Almenn notkun raforku eykst um 50 gígawattstundir á ári. Þannig að sú aukning á raforkuframleiðslu sem tillagan gerir ráð fyrir dugar fyrir almennri aukningu næstu 265 árin! “.

Sjá framhaldið á bloggsíðu Guðmundar. Smella hér.

Athugið að samráðs- og kynningarferli um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða er opið til umsagnar frá 19. ágúst til 11. nóvember 2011. Öllum er heimilt að senda inn athugasemdir við drögin.

Ljósmynd: Dettifoss, ©Árni Tryggvason.

 

Birt:
24. ágúst 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tjón og missir er það sem helst er fjallað um“, Náttúran.is: 24. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/24/tjon-og-missir-er-thad-sem-helst-er-fjallad-um/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: