Horblaðka (Menyathes trifoliata) er algeng í votlendi, síkjum og grunnum tjörnum, um allt land. Í plöntunni eru bitrir sykrungar, þ.á.m. lóganín og fólíamentín, einnig flavonar, sápungar, ilmolíur, inúlín, kólín, C-vítamín og joð. Nota má blöð horblöðkunnar til að örva meltingu og hægðir, auk þess sem inntaka virkar bólgueyðandi, þvagdrífandi og hitastillandi. Um notkun segir Arnbjörg Linda Jónhannsdóttir grasalæknir í bók sinni Íslenskar lækningajurtir: „Horblaðka er mjög góð við alls kyns gigt, bæði vöðvagigt, liðagigt og taugagigt. Einnig má nota horblöðku við annarri langvarandi bólgu. Jurtin örvar meltingu og fyrrum þótti hún góð við skyrbjúg. Útvortis er gott að leggja heita bakstra með blöðum við bólgna liði og vöðva.“

Í bókinni Íslensk flóra eftir Ágúst H. Bjarnason, segir um horblöðku í undirtexta sem vísar í þjóðlegar heimildir (án nánari skýringa um hvaðan þær séu upprunnar): „Auðþekkt planta og alkunn lækningajurt. Ber mörg nöfn, ýmis dregin af blöðum (remmublöð, mýrarkólfur, þríblað), jarðstöngli (álftakólfur, mýrarkólfur, keldulaukur og nautatág) eða notum, en hún var brúkuð í reiðing og kallast reiðingsgras, og til lækninga, svo sem nöfnin kveisugras og ólúagras bera vott um. Hún þykir einkar góð við skyrbjúgi, gulu, miltis- og lifrarveiki, vatnssótt, gikt og flestum meinum í lífinu. Bæði búið til seyði og te af rótum og blöðum. Þótti góð til hárþvotta og með njóla er te af henni gott við harðlífi.“

Sjá meira um horblöðku á Liber Herbarum II.

Myndin er af horblöðkum í tjörn á Snæfellsnesi. 19. 06. 2004.
Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
19. ágúst 2013
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Horblaðka - bólgueyðandi votlendisplanta“, Náttúran.is: 19. ágúst 2013 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/horbladka/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: