Berserkjasveppur (Almanita muscaria)

Berserkjasveppur (Almanita muscaria)

Berserkjasveppur er sveppur af ættkvísl reifasveppa. Hann hefur mjög einkennandi útlit með rauðan hatt sem hefur hvítar doppur og hvítan beinan stilk. Berserkjasveppur verður stór; hatturinn nær allt að 30 sm í þvermál. Hvítu flekkirnir á hattinum eru leifar af hvítri himnu sem þekur allan sveppinn þegar hann er mjög ungur.

Berserkjaveppur er eitraður og inniheldur nokkur geðvirk efni. Sjaldgæft er að fólk deyi af neyslu hans en jafnvel lítið magn veldur meltingartruflunum, sljóleika, skapsveiflum og ofskynjunum. Magn eiturefna í sveppnum er þó mjög mismunandi eftir stöðum og árstíma.

Íslenskt nafn sitt dregur af þeirri hugmynd að víkingar hafi étið sveppinn áður en þeir fóru í bardaga til að ganga berserksgang. Þessi sögn kemur fyrst fram í grein eftir sænska prestinn Samuel Ödmann árið 1784 þar sem hann reynir að útskýra berserki og berserksgang í anda upplýsingarinnar. Engar eldri heimildir geta hins vegar um slíka notkun meðal norrænna manna og verður að teljast afar ólíklegt miðað við þekkt áhrif af neyslu hans að menn hafi verið til stórræða í orrustu eftir að hafa innbyrt berserkjasvepp.

Ljósmynd: Berserkjasveppur, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
24. ágúst 2014
Höfundur:
Wikipedia
Uppruni:
Wikipedia
Tilvitnun:
Wikipedia „Eitraður sveppur - Berserkjasveppur “, Náttúran.is: 24. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2011/08/21/eitradur-sveppur-berserkjasveppur-almanita-muscari/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. ágúst 2011
breytt: 24. ágúst 2014

Skilaboð: