Mikilvæg svæði á miðhálendi Íslands fá vernd - stofnaður verði Hofsjökulsþjóðgarður
Drög að þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúrusvæða fela í sér mikilvægan sigur í baráttunni fyrir verndun náttúru Íslands. Við stofnun Náttúruverndarsamtaka Íslands árið 1997 var stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands meginmarkmið í stefnu samtakanna. Þingsályktunartillagan er stórt skref í þá átt. Við blasir að stofnaður verði Hofsjökulsþjóðgarður* með Þjórsárver í suðri (Norðlingaölduveita hefur loks verið slegin af),** Kerlingafjöll í vestri. Guðlaugstungur norðan Hofsjökuls hafa þegar verið friðlýstar. Samkvæmt tillögunni verða öll þessi svæði vernduð. Næsta skref er að bæta við Jökulsám Skagafjarðar og Hveravallasvæði, sem sett voru í biðflokk.
Nýlega var Langisjór friðlýstur sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Önnur mikilvæg svæði í verndarflokki eru Torfajökulssvæði (þegar friðland), Jökulsá á Fjöllum (hluti af Vatnajökulsþjóðgarði), Vonarskarð, Ölkelduháls (Bitruvirkjun) og Gjástykki.
Sterk rök hníga að því að stofnaður verði eldfjallaþjóðgarður á Reykjanesskaga. Ekki ólíkt miðhálendi Íslands er Reykjanesskagi einstakt svæði á heimsvísu. Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna að svæði á borð við Sveifluháls og Stóra-Sandvík eru í tillögunni sett í nýtingarflokk.
Náttúruverndarsamtökin gagnrýna að virkjanir í Skjálfandafljóti skulu ekki hafa verið slegnar af og settar í verndarflokk.
Náttúruverndarsamtök Íslands lýsa andstöðu sinni við virkjanir í neðri Þjórsá.
*Upphaflega lagði Hjörleifur Guttormsson fram þingsályktunartillögu um stofnun þjóðgarða út frá helstu jöklum á miðhálendi Íslands.
** Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera hefur staðið í rúma fjóra áratugi með sigri náttúruverndarsinna
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Mikilvæg svæði á miðhálendi Íslands fá vernd - stofnaður verði Hofsjökulsþjóðgarður “, Náttúran.is: 20. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/20/mikilvaeg-svaedi-midhalendi-islands-fa-vernd-stofn/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. ágúst 2011