Samfelldar mælingar á styrk CO2 (koltvísýrings) í lofthjúpnum hófust árið 1957 á Suðurskautslandinu (suðurpólnum) og árið 1958 á Mauna Loa á Hawaii. Þessar mælingar sýndu fljótlega að styrkur CO2 í lofti jókst ár frá ári og var aukningin sambærileg í hitabeltinu og á suðurpólnum.

Við upphaf mælinga var styrkurinn um 315 ppm en árið 2010 var hann orðinn um 390 ppm*. Mælingar á magni CO2 í loftbólum í ískjörnum sýna að fyrir daga iðnbyltingarinnar var styrkurinn í lofthjúpnum um 280 ppm; nokkur árstíðasveifla var í styrknum og útslag hennar meira en í hitabeltinu.

Á næstu áratugum bættust við fleiri stöðvar og árið 1992 hófust m.a. mælingar á Stórhöfða í Vestmannaeyjum en þær eru samvinnuverkefni Veðurstofu Íslands og bandarísku loftrannsókna-stofnunarinnar NOAA. Myndin hér undir sýnir mæliraðir frá þessum þremur stöðvum og augljóst er að ár frá ári er aukning í styrk CO2 á Stórhöfða sambærileg við hina staðina en árstíðasveiflan mun stærri:

Árstíðasveiflan stafar mestmegnis af því að þegar plöntur vaxa að sumarlagi draga þær CO2 úr loftinu en þegar þær falla á haustin og rotna skila þær CO2 til baka. Ástæða þess að árstíðasveifla CO2 er meiri eftir því sem norðar dregur er einfaldlega sú, að á norðurhveli eru stærri landsvæði með gróðurþekju. Styrkur CO2 á Stórhöfða nær því venjulega hámarki á vorin, áður en gróður fer að taka við sér, en er svo í lágmarki á haustin áður en rotnun hefst.

Fyrsta mæliárið á Stórhöfða var hámark CO2 rúmlega 362 ppm. Eins og myndin sýnir hefur styrkurinn aukist stöðugt síðan þá og vorið 2010 náði hámarkið 397 ppm. Myndin sýnir einungis yfirfarin gögn og enn sem komið er hafa mælingar frá árinu 2011 ekki verið gæðavottaðar. Óyfirfarin gögn fyrir árið 2011 má þó sjá í vöktunarkerfi NOAA. Myndin sem fylgir þessari frétt (í hægra horni efst) er úr vöktunarkerfinu og sýnir að styrkur CO2 fór yfir 400 ppm í andrúmslofti á Stórhöfða í vor.

Þetta heyrir til verulegra tíðinda því líklega hefur styrkur CO2 hér á landi ekki verið svona hár í a.m.k. hundruð þúsunda ára. Lesa má um sögu mengunarmælinga á Stórhöfða frá 1991 hér á vefnum.

* Styrkur CO2 er mældur í milljónustu hlutum og 390 ppm þýðir, að af hverjum milljón loftsameindum eru 390 sameindir CO2.

Birt:
18. ágúst 2011
Höfundur:
Veðurstofan
Tilvitnun:
Veðurstofan „Styrkur koltvísýrings á Stórhöfða yfir 400 ppm“, Náttúran.is: 18. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/18/styrkur-koltvisyrings-storhofda-yfir-400-ppm/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: