Niðursuðuverksmiðjan Akraborg ehf. fær MSC vottun
Framleiðsla á matvörum úr vottuðum sjálfbærum þorskveiðum við Íslandsstrendur uppfyllir alþjóðlegar kröfur
Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækið Akraborg ehf. á Akranesi uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottunin var formlega staðfest með útgáfu vottorðs sem Rolf Hákon Arnarson framkvæmdastjóri Akraborgar ehf. hefur nú veitt viðtöku.
MSC-rekjanleikavottun (MSC Chain of Custody certification) staðfestir að hráefni og afurðir eru upprunnar úr sjálfbærum fiskistofnum. En slík vottun hefur breiðst hratt út á undanförnum árum samfara aukinni eftirspurn á alþjóðlegum mörkuðum eftir sjávarafurðum úr vottuðum nytjastofnum. MSC-vottunin greiðir íslenskum fyrirtækjum leið inn á gæðamarkaði sem skila hærra söluverði.
Með þessari vottun er staðfest að Akraborg ehf. viðhafi gæðastýringu sem tryggi aðgreiningu MSC-vottaðra fiskafurða frá öðrum hráefnum og afurðum á öllum stigum, þ.e. við móttöku hráefna, meðferð þeirra og flutning, auðkenningu í skráningarkerfum, merkingar á umbúðum og viðskiptaskjölum. Rekjanleikavottun samkvæmt staðli MSC gerir Akraborg ehf. kleift að afla sér hráefna og afurða úr MSC-vottuðum fiskveiðum og fiskistofnum, vinna frekar úr þeim og markaðssetja síðan með tilvísun til sjálfbærra sjávarnytja undir hinu þekkta vörumerki Marine Stewardship Council. Vottunin sem Akraborg hlýtur nú tekur til framleiðslu og sölu á niðursoðinni lifur auk afurða unnum úr hrognum og svilum úr vottuðum þorski sem veiddur er á Íslandsmiðum.
Akraborg ehf. er fiskvinnslufyrirtæki á Akranesi sem framleiðir ýmsar vörur úr íslensku sjávarfangi, einkum úr þorski, en einnig úr öðrum tegundum svo sem skötusel, loðnu og smásíld. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á niðursoðinni þorskalifur. Hráefna sinna aflar Akraborg ehf. ferskra hjá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um landið, meðal annars hjá fyrirtækjum sem veiða úr vottuðum sjálfbærum nytjastofnum. Hjá Akraborg starfa um 30 manns og eru vörur þess seldar víða um heim, m.a. í Evrópulöndum, Asíu og Norður Ameríku. Rolf Hákon Arnarson framkvæmdastjóri Akraborgar segir MSC vottun mikilvægan áfanga í sölumálum fyrirtækisins. „Eftirspurn eftir MSC vottuðum vörum hefur aukist jafnt og þétt undanfarið og svo komið að sumir kaupendur neita að kaupa nema MSC vottun sé til staðar. Vottunin er því stór áfangi fyrir Akraborg og mun verða okkur mikill styrkur til framtíðar.“
Gísli Gíslason ráðgjafi MSC á Íslandi segir að á undanförnum árum hafi orðið vitundarvakning um nauðsyn þess að vernda auðlindir sjávar og stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna: “Íslenskt sjávarfang er eftirsótt og þekkt fyrir gæði víða um heim en á mörkuðum er vaxandi krafa afurðir komi úr vottum sjálfbærum fiskveiðum. Nú hefur Akraborg fengið rekjanleikavottun samkvæmt kerfi MSC. Þetta þýðir að Akraborg getur framleitt MSC vottaða þorsklifur þegar fyrirtækið kaupir hráefni úr MSC vottuðum þorsk veiðum í sína vinnslu. Þannig er staðfest að hráefnið í þeirri afurð komi úr sjálfbærum veiðum sem hafa staðist staðla MSC, sem er útbreiddasta og þekktasta vottunarkerfi fyrir sjálfbærar fiskveiðar í heiminum í dag.”
Marine Stewardship Council hefur þróað staðla í samræmi við viðmiðunarreglur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar. Vottunarkerfi MSC nær annars vegar til úttekta á fiskistofnum og fiskveiðum og hinsvegar til rekjanleika á fiski og fiskafurðum úr vottuðum stofnum. Hátt á þriðja hundrað fiskveiðiútgerða eru ýmist vottaðar eða í vottunarferli MSC víða um heim, og skila þær árlega 9 m tonnum matfiskjar á land. Yfir 10.000 vörumerki í 74 löndum eru nú rekjanleg til þessara fiskveiða og bera því merki MSC á mörkuðum víða um heim. (Sjá nánar heimasíðu MSC, www.msc.org).
Vottunarstofan Tún hefur haft forgöngu um vottun lífrænna aðferða og sjálfbærra náttúrunytja hér á landi, í Færeyjum og á Grænlandi allt frá árinu 1994. Tún er faggild af Einkaleyfastofunni skv. staðli EN45011 og hlaut nýlega faggildingu þýsku faggildingarstofunnar Accreditation Services International GmbH (ASI) til þess að annast vottun samkvæmt stöðlum MSC um sjálfbærar fiskveiðar og rekjanleika afurða úr slíkum veiðum. Tún nýtur krafta reyndra íslenskra og erlendra sérfræðinga við vottun sjálfbærra sjávarnytja.
Ljósmynd: Rolf Hákon Arnarson framkvæmdastjóri (fyrir miðju) tekur við vottorði um MSC vottun Akraborgar ehf. úr hendi Gunnars Á. Gunnarssonar framkvæmdastjóra Vottunarstofunnar Túns ehf. (t.v.) að viðstöddum Gísla Gíslasyni ráðgjafa Marine Stewardship Council á Íslandi (t.h.).
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Niðursuðuverksmiðjan Akraborg ehf. fær MSC vottun“, Náttúran.is: 10. ágúst 2011 URL: http://nature.is/d/2011/08/10/nidursuduverksmidjan-akraborg-ehf-faer-msc-vottun/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.