Laugardaginn 8. mars nk. efna Framtíðarlandið og Nýheimar, þekkingar- og nýsköpunarmiðstöð Hornfirðinga, til Austurþings á Höfn í Hornafirði. Þingið verður haldið í ráðstefnusal Nýheima í Höfn í Hornafirði. Þetta er þriðja þingið í röð landshlutaþinga sem Framtíðarlandið stendur fyrir í vetur. Vesturþing var haldið í nóvember í fyrra og Reykjanesþing var haldið nú í febrúar. Á þingunum er áherslan lögð á nýsköpun í atvinnumálum og umhverfisvæna framtíðarsýn.

Á Austurþingi verður stefnt saman hugmyndaríku og kraftmiklu fólki úr atvinnulífi, menningu og nýsköpun. Fyrirlesarar eru ýmist heimamenn eða utanaðkomandi en allir eiga þeir það sameiginlegt að láta sig framtíð landsbyggðarinnar varða, þ.m.t. atvinnumál, menntun og almenn lífsgæði. Í upphafi þingsins verður einkum lögð áhersla á sérstöðu svæðisins og tækifærin sem þar búa, svo og þann lærdóm sem draga má af uppbyggingu þekkingar- og nýsköpunarstarfs sl. 5-6 ár í kringum Nýheima. Einng verður rætt um þróun Nýheima í nánustu framtíð, um möguleika á útrás Nýheima-hugmyndarinnar til annarra sambærilegra samfélaga á landsbyggðinni og um þekkingarmiðstöðvar eins og Nýheima sem boðbera nýrrar hugsunar í byggðamálum.

Eftir hádegi flytja fjórir gestafyrirlesarar erindi og tengist hvert þeirra einni af fjórum meginstoðum Nýheima, þ.e. nýsköpun, menntun, menningu og rannsóknum. Að því loknu verður unnið áfram með viðfangsefni þingsins í vinnuhópum. Þinginu lýkur svo með hringborðsumræðum í lok dags þar sem álitsgjafar úr ólíkum áttum munu gera grein fyrir því sem þeim þótti markverðast á þinginu.

Vesturþing og Reykjanesþing Framtíðarlandsins tókust með eindæmum vel en þar voru flutt fjölbreytt framsöguerindi og voru umræður mjög upplýsandi og gagnlegar. Við erum viss um að hið sama mun gilda um Austurþing og að þar eiga eftir að koma fram margvíslegar hugmyndir sem munu skipta miklu fyrir nýsköpun í atvinnulífi, menningu og búsetu á Suðaustur- og Austurlandi.

Dagskrá:

Þingstjóri er Þorvarður Árnason

9.00–9.30 Skráning

9.30–9.45 Þingstjóri setur þingið, ávarp bæjarstjóra

9.45–11.15 Morguný ing: Nýheimar — Tákn nýrra tíma?

1) Kynning á Nýheimum — saga, hugmyndafræði, árangur
2) Framtíðarsýn og þróun
3) Möguleikar á útrás, innan og utan nærsamfélagsins

Ari Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður Frumkvöðlaseturs Austurlands
Björg Erlingsdóttir, forstöðukona Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar
Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari Framhaldsskólans í A-Skaftafellssýslu
Guðmundur H. Gunnarsson, verkefnisstjóri hjá Matís, Hornafirði
Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri
Ragnhildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, Höfn
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs HÍ á Hornafirði

11.15–11.30 Kaffihlé

11.30–12.00 Draumalandið — sýnishorn úr nýrri mynd Andra Snæs Magnasonar

Hádegisverður 12.00–13.00

13.00–14.20 Síðdegisþing: Hugsum heiminn! Nýr heimur, nýjar áskoranir
13.00 Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, Rannsóknarmiðstöð HR í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum: „Nýsköpun – ógnun eða tækifæri?“
13.20 Ása Richardsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins: „Að hugsa hnattrænt í heimahaganum ....“
13.40 Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum: „Gildi menntunar og þekkingar á landsbyggðinni“
14.00 Sigríður Ólafsdóttir, þróunarstjóri Actavis : „Rannsóknir, sjálfstæð atvinnugrein eða stoð við atvinnulífið?“

14.20–15.20 Þankahríð í vinnuhópum

15.20–15.30 Kaffihlé

15.30–16.30 Hringborðsumræður
Álitsgjafar:
Anna Karlsdóttir, landfræðingur
Gunnar Hersveinn, heimspekingur
Stefanía Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Þekkingarnets Austurlands
Kristín Gestsdóttir, stjórnarformaður Ríkis Vatnajökuls
Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar

Hvatt er til þess að allir gestir þingsins taki þátt í hringborðsumræðum ásamt álitsgjöfum.

16.30–17.00 Lokaorð Irmu Erlingsdóttur, formanns Framtíðarlandsins, og þingslit

Humarveisla með menningarlegu ívafi hefst kl. 18:00. Fyrirkomulag hennar verður kynnt nánar á þinginu.

Nánari upplýsingar fást hjá Þorvarði Árnasyni, forstöðumanni Háskólasetursins á Hornafirði (895-9003) og Gunnari Sigvaldasyni, framkvæmdastjóra Framtíðarlandsins (894-3044)

Grafík: Áhersla á Austurland, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.is.

Birt:
3. mars 2008
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Meira Austurland! - Austurþing“, Náttúran.is: 3. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/02/meira-austurland-austurthing/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. mars 2008
breytt: 3. mars 2008

Skilaboð: