Ef þú ert ekki sátt við sjálfa þig ný tur þú ekki lífsins og ef þú ert ekki fær um að njóta lífsins leitarðu annars konar fullnægju.

Þótt þú sért sátt við sjálfa þig, bæði líkama og sál, er það engin trygging fyrir því að þú léttist. En þá ertu hins vegar fær um að léttast - ekki aðeins í enn eitt skiptið heldur í eitt skipti fyrir öll. Ef þú ert ekki sátt við sjálfa þig ný tur þú ekki lífsins og ef þú ert ekki fær um að njóta lífsins leitarðu annars konar fullnægju.

Það kann að vera að þú eigir erfitt með að sætta þig við sjálfa þig, ef þú ert of feit (eða heldur að þú sért það), vegna þess að fjöldamenningin, eins og hún birtist á prenti og í sjónvarpi, gefur til kynna að fita sé andstyggileg. Þetta hefur í för með sér sjálfshatur, meira át og minni hreyfingu: ("Ég get ekki látið sjá mig í leikfimisfötum. Ég fer í líkamsrækt þegar ég er búin að léttast um fimm kíló.")

Þú hugsar kannski ekki meðvitað: "Ég er algjörlega ómöguleg í dag en þegar ég hef lést um sextíu kíló verð ég fullkomin." Það er þó erfitt að hugsa ekki á þennan hátt ómeðvitað vegna þess að þau skilaboð dynja á okkur frá fjölmiðlum að aðeins þeir sem eru grannir (og fyrst við erum að þessu má alveg eins bæta við ungir) njóti viðurkenningar.

Á sérhverri öld og í öllum menningarheimum hefur verið til sérstök ímynd af hinum fullkomna líkama en nýlega er farið að lauma þeirri ímynd inná okkur mörg hundruð sinnum á dag í tímaritum, kvikmyndum og sjónvarpi. Gefið er í skyn að þeir séu ekki grannir sem eru í kjörþyngd. Sjálfsálitið líður fyrir það og margir eiga erfitt með að sætta sig við sjálfa sig eins og þeir eru, einkum konur. Það er jafnvel enn erfiðara fyrir þær sem eru of þungar.
Sú skírskotun, hvort heldur henni er laumað inn í undirvitund okkur eða hún er sögð berum orðum, að við eigum allar að líta út eins og ofurfyrirsætur, er álíka fáranleg og að ætlast til að við séum öll álíka gáfuð og Albert Einstein. Ef stærðfræðilegar fullyrðingar væru metnar jafnmikils í fjöldamenningunni og tískustraumar og nærmyndir af fræga fólkinu minnkuðumst við okkar fyrir vitsmunalega fátækt okkar en ekki skvapmikil læri.

Áttaðu þig á þessu: Það er ekki andstyggilegt að vera feitur. Misnotkun á börnum er andstyggileg. Það er andstyggilegt að láta hundinn standa bundinn úti allan sólarhringinn í alls kyns veðrum. Það er andstyggilegt að eiga hvergi heima og deyja úr hungri og gjöreyðingarvopn eru andstyggileg. Að vera of þungur er ástand. Ásigkomulag. Vissulega óheppilegt og í mörgum tilvikum hættulegt heilsunni. Ef til vill merki um undanlátssemi við sjálfan sig, skeytingarleysi eða tilfinningalegt álag. En ekki andstyggilegt.

Nauðsynlegt er að átta sig á þessu strax. Að öðrum kosti getur verið að í framtíðinni verðir þú í sæluvímu af því að þú notar stærð tíu og þá gerist eitthvað. Ef till vill safnast á þg bjúgur fyrir blæðingar eða einhver lyf valda því að þú þyngist. Eða þú kemst á breytingaaldurinn og vaknar einn morguninn og áttar þig á því að einhver ófyrirleitinn hormónaþjófur hljópst á brott um nóttiina með flata magann þinn og lét þér eftir annan ávalari. Ef þú sættir þig ekki sjálfa þig eins og þú ert hverju sinni geta svona breytingar orðið til þess að þú ferð aftur í "andstyggilega" haminn sem er kjörinn til að bæta aftur á sig kílóunum sem þú varst búin að missa. Viðurkenningin er hins vegar tvíþætt. Hún færir þér hugarró og breytingar í framtíðinni verða mögulegar.

Í viðurkenningunni felst ekki að þú eigir að réttlæta það að borða of mikið. Þú átt ekki að sætta þig við neitt sem veldur þér vanlíðan, hvort sem um er að ræða illskeyttan yfirmann, lasleika eða óviðráðanlega löngun í tertur og afganga. Þú getur afsakað matarvenjur þína með hverju sem er, veikleika, sjúkleika, eða einhverju öðru. Hver svo sem ástæðan er þá er það eitthvað sem þú hefur tileinkað þér en það lýsir þér ekki sem manneskju. Taktu á vandanum en vertu sátt við sjálfa þig.

Tekið úr bókinni 101 hollráð - Andleg uppbygging til að grennast í eitt skipti fyrir öll.
Bókin fæst hér á Náttúrumarkaðinum.

Birt:
10. júlí 2007
Höfundur:
VIctoria Moran
Tilvitnun:
VIctoria Moran „Sættu þig við sjálfa þig eins og þú ert núna“, Náttúran.is: 10. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/10/1-sttu-ig-vi-sjlfa-ig-eins-og-ert-nna/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: