Á vef Skessuhorns birtist eftirfarandi frétt í gær:

Fyrsta heiðlóan sem sannanlega kemur til landsins á þessu voru vappar nú á heimtúninu við bæinn Ytri Hólm í Hvalfjarðarsveit, skammt sunnan við Akranes. Það var Erling Þór Pálsson, hafnsögumaður sem býr í Lindási sem var að viðra sig og hundinn á túninu skammt frá bænum þegar hann sá til lóunnar síðdegis í dag, 19. mars. Í ljósi efasemda sem menn höfðu um lóu sem heyrst hafði í á Suðurlandi í síðustu viku, vildi Elli hafa vaðið fyrir neðan sig og hringdi því á ljósmyndara frá Skessuhorni til að færa sönnur á mál sitt. Lóan var staðreynd og vappar hún nú á túnunum milli bæjanna og virtist nokkuð sæl með atlætið þrátt fyrir stífan vind og þræsing af suðri. Þetta mun vera með alfyrsta móti sem lóan kemur til landsins, en árin 1998 til 2005 sást fyrst til lóunnar hér við land frá 20. til 31. mars. Þessi sanni vorboði er boðinn hjartanlega velkominn.

Sjá umrædda ljósmynd af lóunni á vef Skessuhorns.

Teikning: Heiðlóa, Jón Reykdal.

Birt:
20. mars 2012
Uppruni:
Skessuhorn
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Lóan er komin“, Náttúran.is: 20. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/20/loan-er-komin/ [Skoðað:7. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. mars 2012

Skilaboð: