Orkuveita Reykjavíkur tekur þátt í Evrópskum orkudögum með kynningarfundi um nýstárleg verkefni sín þ. 12. apríl nk. kl 9:00 – 10:00 í fyrirlestrarsal Orkuveitunnar að Bæjarhálsi. Allir velkomnir.

Vefur viðskiptavina Orkuveitunnar, Orkan mín
Einar Örn Jónsson frá Sölu- og markaðsmálum OR.

Orkan mín – www.orkanmin.is –  er vefur fyrir viðskiptavini OR, sem geta nálgast þar ýmsar upplýsingar um orkunotkun og viðskiptasögu sína, fengið hollráð um betri orkunýtingu, gert samanburð við hliðstæða notendur og fylgst með notkunarsögu sinni.  Einar mun segja frá þróun vefjarins og viðtökum viðskiptavina.

Niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun
Ingvi Gunnarsson frá Jarðfræðirannsóknum OR.

Losun gastegunda út í andrúmsloft er óhjákvæmilegur fylgifiskur jarðhitanýtingar. Jarðhitagas í Henglinum er að mestu leyti koldíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) en einnig er talsvert magn af vetni (H2). Aðrar gastegundir svo sem nitur (N2), metan (CH4) og argon (Ar) eru einnig í gasblöndunni en þó í minna mæli. Hlutföll þessara gastegunda stjórnast af nálægð við hitagjafa í jarðskorpunni svo og efnaskiptum grunnvatns, kvikugasa og bergs í háhitakerfinu.  Árlega losna um 13.000 tonn H2S út í andrúmsloftið vegna orkuvinnslu í Hellisheiðarvirkjun. Í ákveðnum vindáttum getur hluti af gasinu leitað í þéttbýli og valdið óþægindum.  Ingvi greinir frá tilraunum sem hefjast síðar á árinu við að dæla brennisteinsvetninu niður í jarðhitageyminn, þar sem það á að hvarfast við bergrunninn og mynda  torleyst súlfíð.

Útfellingartilraunir á Hellisheiði
Bergur Sigfússon frá Jarðfræðirannsóknum OR

Mikilvægur þáttur í rekstri háhitavirkjana eru fyrirbyggjandi aðgerðir gegn útfellingu í lögnum. Á það við allt frá vinnsluholum, gegnum gufuveitu virkjunar, vélasamstæður og skiljuvatnsveitu að niðurdælingarholum. Nokkrar aðferðir koma til greina og lýsir Bergur því hvernig tilraunir leiddu í ljós  ákjósanlegustu leiðina til að koma í veg fyrir útfellingar í lögnum Hellisheiðarvirkjunar.  Þessar aðgerðir eru að hluta til komnar til framkvæmda.

Niðurdælingartilraunir á Húsmúlasvæðinu
Gunnar Gunnarsson frá Jarðfræðirannsóknum OR

Niðurdæling skiljuvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur reynst flóknara verkefni en ætlað var í fyrstu.  Upphaflega var áætlað að nota Gráuhnúkasvæðið sem niðurdælingarsvæði, en við boranir kom í ljós að Gráuhnúkar gætu reynst vænlegt vinnslusvæði.   Því var hafist handa við að finna nýju niðurdælingarsvæði stað og ákveðið að dæla niður í Húsmúlann sem er norðvestan við vinnslusvæðið á Hellisheiði.  Boraðar hafa verið 7 niðurdælingarholur á Húsmúlasvæðinu og þar af eru fjórar sem lofa mjög góðu. Hegðun niðurrennslisholanna kemur nokkuð á óvart, því eftir viðamiklar dælutilraunir hefur komið í ljós að viðtaka þeirra er mjög háð hitanum á niðurdælingarvatninu. Þessi hitatengda viðtaka holnanna er vegna áhrifa hitaþenslu á vídd sprungna í jarðhitageyminum. Það sem er áhugavert við þessa hegðun er að hún er afturkræf. Áhrif hitaþenslu koma einnig fram í því að nokkur smáskjálftavirkni hefur alltaf fylgt niðurdælingartilraunum á Húsmúlasvæðinu. Gunnar mun segja okkur nánar frá þessu.

Grafík: Hús á Orkanmín Orkuveitu Reykjavíkur.

Birt:
5. apríl 2011
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Orkuveitu Reykjavíkur á Evrópskum orkudögum“, Náttúran.is: 5. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/05/orkuveitu-reykjavikur-evropskum-orkudogum/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: