Daglega sækja um 100 gestir kynningar- og fræðsluskála Hellisheiðarvirkjunar heim og er fjöldi gesta frá áramótum kominn í tæp 15.000. Útlendingar eru í meirihluta á meðal skráðra gesta og eru þjóðerni þeirra 40 talsins. Kynningarskálinn er opinn frá 9:00 til 18:00 alla daga vikunnar. Þar er að finna upplýsinga- og fræðsluefni um jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og sögu jarðhitanýtingar hér á landi. Er það m.a. gert með gagnvirku margmiðlunarefni og er hluta þess einnig að finna á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Brunnurinn – Saga, lífríki og útivist á Hellisheiði
Á þessum lifandi vef er að finna margvíslegan fróðleik allt frá sögunni af draugnum við Draugatjörn sem „lengdist og styttist ámátlega“ til sjálfsævisögu Winston Churchill, sem taldi sig upphafsmann hitaveitu í Reykjavík. Þá er að finna í Brunninum ýtarlegar lýsingar á gróðurfari með myndum af algengum plöntum og dýralífi á heiðinni eru gerð góð skil á vefnum. Ekki má gleyma mannlífi á Heiðinni en tiltölulega stutt er síðan nautpeningi var haldið til beitar á Hengilssvæðinu og sjást þar enn mannvistarleifar íslensku kúrekanna. Í seinni tíð hefur meira farið fyrir skíðafólki, skátum og öðru útivistarfólki á svæðinu. 34 skálar hafa verið á Hengilssvæðinu um skemmri eða lengri tíma. Sjá Brunninn hér.

Vinnslurás Hellisheiðarvirkjunar
Enginn þarf að fara í grafgötur um það að nýting háhitasvæða á borð við Hengilssvæðið til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni er flókið ferli. Fjöldi íslenskra og erlendra vísindamanna hefur unnið að þróun þess undanfarin ár og þykja íslensku jarðgufuvirkjanirnar standa hvað fremst í heimi í tæknilegu tilliti. Í kynningarskála Hellisheiðarvirkjunar gefur að líta stóran gagnvirkan snertiskjá þar sem vinnsluferli virkjunarinnar er lýst með lifandi hætti. Sjá efni snertiskjásins einnig hér.

Birt:
15. júlí 2008
Tilvitnun:
Eiríkur Hjálmarsson „Kynningarskáli Orkuveitunnar á Hellisheiði vinsæll viðkomustaður ferðamanna“, Náttúran.is: 15. júlí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/07/15/kynningarskali-orkuveitunnar-hellisheioi-vinsaell-/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: