Ísland er einstakt land bæði jarðfræðilega og líffræðilega. Íslendingar hafa friðlýst mörg markverð náttúrusvæði sem þjóðgarða, friðlönd eða náttúruvætti. Einnig eru ýmis önnur verndarsvæði í umsjón ríkisins, s.s. skógræktarsvæði, landgræðslusvæði og fornminjasvæði. Þjóðlendur eru undir stjórn ríkisins og fyrst og fremst á hálendi landsins.

Mörg þessara svæða eru vinsælir ferðamannastaðir en fjöldi ferðamanna á Íslandi eykst nú stöðugt. Á þeim blasa við sömu óleystu viðfangsefnin í mismiklum mæli þó. Mikill skortur er á innviðum, s.s. gestastofum, upplýsingaskiltum, góðum og vel lögðum göngustígum, og á þeim er veik landvarsla og lítil náttúrutúlkun. Fæst svæðanna hafa haldbærar verndar-, stjórnunar- eða skipulagsáætlanir. Engin samræmd stjórn er á þessum svæðum heldur er þeim stýrt af sjö ólíkum stofnunum sem eru undir þrem ráðuneytum. Þetta eru Umhverfisstofnun, Landgræðslan og Skógræktin undir umhverfisráðuneyti, fornminjasvæði heyra undir menntamálaráðuneyti og Þingvallaþjóðgarður og þjóðlendur falla undir forsætisráðuneyti.

Auk átroðslu ferðamanna á einstökum svæðum er helsta ógn íslenskra náttúruverndarsvæða ásókn í að virkja til orkuöflunar bæði vatnsföll og jarðhitasvæði. Rannsóknum og framkvæmdum á því sviði orkumála er stýrt af öflugum stofnunum sem starfa á landsvísu og hafa nægt fjármagn. Sundrung þeirra sem eiga að gæta verndar náttúrunnar verður til þess að mótrök á því sviði eru veik og jafnvel misvísandi.

Margir Íslendingar horfa til framtíðarstarfa í ferðaþjónustu. Ef fer sem horfir er hins vegar hætta á að illa fari. Víða er þéttleiki ferðamanna allt of mikill en á öðrum svæðum, sem eru ekki síður athyglisverð, sést ekki fólk. Mikilvægt er að skipuleggja móttöku ferðamanna, og nauðsynlegar ráðstafanir til náttúruverndar á landinu, á heildrænan hátt. Það er illmögulegt þegar vinsælustu ferðamannastaðirnir eru undir ólíkum stjórnum og stofnunum.

Núverandi ríkisstjórn hefur á stefnuskrá sinni að sameina friðlýst svæði undir einni stjórn. Þær hugmyndir ganga ekki nógu langt en engu að síður mun vera ágreiningur innan stjórnarflokkanna að framfylgja þeirri stefnu.

Tillögur

Brýnt er að samræma stjórn verndarsvæða á Íslandi. Setja þarf undir eina stofnun störf og hlutverk sem heyra saman en dreifast nú á margar stofnanir og ólík ráðuneyti. Meginhlutverk slíkrar stofnunar á að vera að standa vörð um þau gæði landsins sem hafa vísindalegt eða fagurfræðilegt gildi og veita fólki nauðsynlega útivist, upplifun og hughrif.

Undir nýja stofnun, sem hefði útibú í öllum landsfjórðungum, ættu að fara friðlýst svæði; þjóðgarðar, náttúruvætti, friðlönd og valinn hluti fólkvanga, þjóðskóga (Ásbyrgi, Þórsmörk), landgræðslusvæða (Dimmuborgir, Húsafell), þjóðlendna (fyrst og fremst á hálendinu) og einnig minjavernduð svæði (Núpsstaður). Á svæðunum væri lögð áhersla á að vernda náttúru, menningarminjar og landslag. Í flestum tilvikum væri líka gert ráð fyrir móttöku ferðamanna og þjónustu við þá. Hafin væri gjaldtaka af ferðamönnum, t.d. þegar þeir færu af landi brott, og rynni gjaldið óskipt til stofnunarinnar.

Hjá slíkri stofnun starfaði fagfólk sem hefði sérhæft sig í stýringu auðlinda og landnýtingu og gjörþekkti ólíka stýringu á landi/náttúru eftir því hvort markmiðið væri að friða svæði vegna merkrar náttúru eða vernda það vegna fornleifa, sögu, skóga o.fl. Einnig ynni þar fólk sem kynni til verka við móttöku ferðamanna og þjónustu við þá og að nota ýmiss konar miðlun sem stjórntæki verndunar. Horft yrði heildstætt á landið og unnar verndaráætlanir þar sem tekið yrði mið af þekkingu á ýmsum fræðasviðum.Ljósmynd: Þingvallavatn, ©Árni Tryggvason.


Birt:
3. desember 2012
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Þjóðvangar Íslands “, Náttúran.is: 3. desember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/12/03/thjodvangar-islands/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: