Andstaðan við tilraunir á erfðabreyttum lífverum
Róstur hafa hér og hér fjallað um aðgerðir FLM (Field Liberation Movement) við tilraunum á erfðabreyttum kartöflum. En af hverju stafar andstaða belgískra bænda og aktívista við tilraunum með erfðabreyttar kartöflur?
Um er að ræða prófun á tveimur erfðabreyttum kartöfluafbrigðum sem eru til þess fallin að þola kartöflumyglu. Annað þeirra nefnist Fortuna og er í eigu BASF eiturefnaframleiðandans. Það afbrigði er einnig erfðabreytt til að þola illgresiseitur. Hitt afbrigðið nefnist DuRPh og var þróað af háskólanum í Weneningen til að vera selt hæstbjóðanda. Kartöflunum var plantað af Líftæknistofnun Flandurs (VIB) hin 4.maí 2011 í tilraunareit í eigu Landbúnaðar- og sjávarútvegsstofnun Flandurs (ILVO) og háskólans í Ghent.
Belgar hafa hingað til verið fremur mótfallnir plöntum sem eru erfðabreyttar í þeim tilgangi að þola skordýra og illgresiseitur en margir þeirra eru einnig mótfallnir erfðabreytingu Fortuna og DuRPh plantanna sem ætlað er að þola algengan sjúkdóm og minnka líkur á uppskerubresti. Í yfirlýsingu frá Field Liberation Movement (FLM) er þessi afstaða útskýrð á þann hátt að „framtíðarkartaflan“ sé falskt loforð:
„Kartafla framtíðarinnar mun ekki koma í veg fyrir uppskerubrest. Mygluþolnar erfðabreyttar kartöflur geta þess í stað ýtt undir alvarlega uppskerubresti. Það er nú orðið vel þekkt að fjölbreytileiki kemur jafnvægi á vistkerfi og að plöntur sem eru aðlagaðar að staðbundnum aðstæðum er síður hætt við sjúkdómum, plágum og loftslagsbreytingum. […]
Iðnaðarlandbúnaður hefur skipt út fornum plöntutegundum fyrir plöntur sem eru háðar notkun illgresiseiturs og tilbúins áburðar, og eru gerðar til að vera meðhöndlaðar með vélum. Einhæfri ræktun skortir fjölbreytileikann til að bregðast við hættum vegna breytinga í umhverfinu.
Sögulegt dæmi um þetta er hungursneyðin á Írlandi 1845 sem olli dauða yfir milljón manns. Sökum þess að það var einungis eitt kartöfluafbrigði ræktað á Írlandi á þeim tíma gat kartöflumyglan Plytophtora þurrkað út kartöfluuppskeruna. Þegar sama mygla kom upp í Perú hafði hún mun minni áhrif vegna þeirra fjölbreyttu kartöfluafbrigða sem ræktuð voru þar. […]
Verði erfðabreyttum kartöflum plantað er mikilvæg spurning hvernig þær muni víxlfrjóvgast við ættingja sína. Einhæf ræktun með erfðabreyttum plöntum sem hafa svipaða erfðauppbyggingu og forfeður þeirra eykur hættuna á víxlfrjóvgun. Ef einhæf ræktun erfðabreyttra plantna verður ágeng getur það haft eyðileggjandi áhrif. Þegar erfðabreyttar kartöflur og óerfðabreyttar kartöflur víxlfrjóvgast getur það þurrkað út óerfðabreyttu plöntuna og valdið útrýmingu hefðbundinna afbrigða. Þetta getur valdið því að ný afbrigði illgresis og plága þróist á meðan mikilvægar plöntur deyja út.“
FLM bendir á að önnur mygluþolin afbrigði hafi verið ræktuð sem stangast á við yfirlýsingar Líftæknistofnunar Flandurs (VIB) um að hefðbundin ræktun hafi ekki náð að framleiða afbrigði sem þoli myglu. Þetta segir FLM að sé í mótsögn við notkun VIB á villtum kartöflum sem uppsprettu fyrir hið mygluþolna gen. Hreyfingin tiltekur að tugir mygluþolinna, lífrænna kartöflutegunda hafi verið ræktuð til að aðlagast evrópsku loftslagi.
„VIB heldur því fram að ræktun með „hefðbundnum hætti“ kosti mikla vinnu og tíma. En þessar kartöflur eru nú þegar til staðar og vinnan við ræktun þeirra mun tapast ef þessar plöntur víxlræktast við erfðabreyttar plöntur.“
Meginþunginn í gagnrýni FLM snýr þó að eiturefnaframleiðandanum BASF sem er aðili að rannsókninni. Aðalstarfsemi BASF snýr að framleiðslu efna á borð við plast og tilbúinn áburð en fyrirtækið er einnig frægt að endemum fyrir að hafa framleitt klór og fosgen fyrir þýska herinn í fyrri heimsstyrjöld, og skordýraeitur úr blásýrusalti sem Nasistar notuðu til að drepa Gyðinga. FLM segir BASF nú þegar hafa valdið töluverðri mengun í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu og að ekki hafi verið ljóstrað upp um tengsl VIB við BASF. VIB var stofnuð af flæmsku stjórninni og er samstarfsverkefni fjögurra háskóla. Stofnunin var að hluta til rekin með opinberu fé en var einnig fjármögnuð af fjárfestingasjóð, hvers framkvæmdarstjóri var einnig innanríkisráðherra Flandurs. Fyrir þrettán árum stofnaði VIB undirfyrirtæki; CropDesign sem var yfirtekið af BASF árið 2006. Því virðist sem um náið samstarf sé að ræða milli líftæknistofnunarinnar, háskólanna og stórfyrirtækisins BASF.
„Hvernig getum við tryggt það að mygluþolnar, erfðabreyttar kartöflur skaði ekki umhverfið þegar athugunin á því er framkvæmd af BASF sem mun selja þessar erfðabreyttu plöntur og af iðnaði sem krefst slíkrar vöru?“ spyrja FLM og segja að annar mikilvægur þáttur í þessu sé hinn efnahagslegi þrýstingur á háskólana, sem selja einkaleyfi á erfðabreyttar lífverur til þess að standa undir kostnaði. Það veldur því að stórfyrirtæki fá algjört einkaleyfi yfir erfðabreytingum sem þróaðar eru af háskólum. Vegna þess að fyrirtækin hafa keypt einkaleyfi á notkun og sölu plöntuafbrigðanna er ólöglegt að safna fræjum af þeim til endurplöntunar. Þetta veldur því að einokun á plöntum verður til sem gerir bændurna háða því að kaupa fræ af fyrirtækjunum. Það hefur haft hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir bændur í fátækum löndum. Eins hefur það þekkst að fræ hafi smitast milli býla og bændur í kjölfarið verið ákærðir fyrir það að hafa „rænt“ fræi sem var einkaleyfi á.
Hreyfingin bendir einnig á að efnahagslegur ávinningur fyrir háskóla sé farinn að hafa mikil áhrif á framkvæmd rannsókna. Sem dæmi hafi líftæknifyrirtækið Novartis veitt 50 milljóna dollara rannsóknarstyrki til Berkeley háskóla, sem hefur valdið því að rannsóknir sem Novartis hagnast á eru settar í forgang. Að sögn Ignacio Chapela, prófessors við Berkeley hefur þetta gríðarleg áhrif á rannsóknarvinnu:
„Ég er lifandi dæmi um hvað gerist þegar líftækni kaupir upp háskóla. Það fyrsta sem fer eru sjálfstæðar rannsóknir. Háskólinn er viðkvæm lífvera. Þegar slakað er á tilgangi hans og stefnu deyr hann. Líftækniiðnaðurinn er að ganga af þessum háskóla dauðum.“
Birt:
Tilvitnun:
Róstur „Andstaðan við tilraunir á erfðabreyttum lífverum“, Náttúran.is: 16. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/16/andstadan-vid-tilraunir-erfdabreyttum-lifverum/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. júní 2011