Grænir hægri og vinstri
Það er ekkert nýtt að því sé haldið fram að „ekki sé hægt að vera grænn án þess að vera vinstri“. Það er kannski fyrst nú sem að hægri hugsandi mönnum finnst ástæða til að setja spurningarmerki við það og hafa áhuga á að velta úr sessi samtvinningunni „vinstri-grænt“. Það er mín skoðun að grænt sé ekki og eigi ekki að tengja beint við flokkapólitík, af þeirri einföldu ástæðu að með því móti er ekki hægt að koma því til leiðar sem felst í þátttöku allra í umhverfismeðvituðum viðskipta- og lifnaðarháttum. Umhverfismál eru eins og jafnréttið, þverpólitísk og varða alla. Sem minnir mig á það að í greininni sem minnst er á hér að ofan, voru fjórir menn spurðir álits, en engin kona.
--
Auðvitað hefur stjórnmálaflokkurinn Vinstri-Græn yfirlýsta umhverfisstefnu sem hefur leitt til margs góðs fyrir umhverfið, annað hefur miður gengið. Og sitjandi stjórn unnið mörg verk án umhverfishugsunar á liðnum kjörtímabilum og þannig skapað ósætti í þjóðfélaginu. En það er ekki þar með sagt að stjórnmálaflokkurinn VG eigi málaflokkinn. Að vilja eigna sér málefni felur í sér að „ekki“ sé óskað eftir að aðrir taki upp álíka stefnu eða jafnvel rótttækari á sviði umhverfismála. Auðvitað er það hrein pólitísk eiginhagsmunamennska að eigna sér græna stimpilinn. En þetta er að mínu mati hræðileg mistök og ekki til þess fallið að skapa sátt „um málefni sem skiptir heiminn mestu máli í dag“. Af hverju hvetja Vinstri-Græn ekki frekar hægrisinnaða kollega sína til dáða?
-
Hægri-vinstri þarf að taka til höndunum og finna samnefnara og vinna saman, annars er ekki neins árangur að vænta.
-
Græn „sveifla“, sem vinnur að því að finna leiðir til að fá sem flesta á band umhverfisvænrar hugsunar hvort er á stjórnmálasviði, í hönnun, nýsköpun, neyslu eða sjálfbærum markmiðasetningum vítt og breitt í atvinnulífinu er það sem að vefurinn Náttúran.is mun einbeita sér að til frambúðar.
Myndir: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Grænir hægri og vinstri“, Náttúran.is: 9. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/graenir_haegri_vinstri/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 8. maí 2007