Staðfest 481 svínainflúensutilfelli í 11 löndum
Staðfestum tilvikum svínainflúensu í heiminum fjölgar áfram. Þau voru alls 481 í morgun, þar af 312 í Mexíkó. Alls hafa þrettán látist úr veikinni þar af tólf í Mexíkó og einn í Bandaríkjunum. Þetta eru nýjustu upplýsingar Sóttvarnastofnunar Evrópu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er áfram með viðbúnað sinn á fimmta hættustigi af sex.
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur ráðið fólki frá því að ferðast til Mexíkó að nauðsynjalausu en ekki hefur verið mælt með öðrum ferðatakmörkunum. Fólki, sem verður vart sjúkdómseinkenna í kjölfar ferðalaga erlendis, er ráðlagt að leita aðstoðar heilbrigðisyfirvalda heima fyrir. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir enn fremur í tilkynningu í morgun að því fylgi engin smithætta að borða svínakjöt eða svínaafurðir ef vel er steikt eða soðið.
Á samráðsfundi sóttvarnarlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun kom meðal annars fram eftirfarandi:
- Á Íslandi hefur enginn verið greindur með svínainflúensu og enginn verið lagður inn á Landspítala með grun um svínainflúensu.
- Viðbúnaður er óbreyttur hér á landi þ.e. enn á hættustigi. Haft hefur verið samband við viðbragðsaðila samkvæmt viðbragðsáætlun en ekki er ástæða til frekari aðgerða að sinni.
- Veirulyfjum hefur verið dreift til heilbrigðisstofnana en læknar ávísa lyfjum til sjúklinga sem taldir eru líklegir að vera með svínainflúensu.
- Hlífðarbúnaði hefur verið dreift á sóttvarnasvæði landsins og er til taks fyrir heilbrigðisstarfsmenn og aðrar öryggisstéttir, ef á þarf að halda.
- Skipaður hefur verið viðbragðshópur ráðuneyta og ákveðið að hvert ráðuneyti geri áætlun um hvernig brugðist skuli við inflúensufaraldri til að tryggja að starfsemin raskist ekki.
• Unnið er að því að koma á rafrænni skráningu inflúensutilfella hérlendis til að hraða upplýsingamiðlun í heilbrigðiskerfinu þannig að yfirsýn um stöðuna sé sem skýrust á hverjum tíma. - Prentaðar hafa verið upplýsingar og leiðbeiningar á íslensku og ensku sem flugrekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli afhenda komufarþegum. Þar eru farþegar hvattir til að leita til heilbrigðisþjónustunnar ef þeir finna fyrir inflúensueinkennum. Ætlunin er að dreifa hliðstæðum upplýsingum á öðrum flugvöllum, þar sem millilandafarþegar fara um, og við komu Norrænu til Seyðisfjarðar.
- Leiðbeiningar hafa sömuleiðis verið gerðar fyrir áhafnir flugvéla í millilandaflugi. Ekki er talin ástæða fyrir flugliða að bera andlitsgrímur nema þegar þeir annast veikt fólk með hita, hósta eða nefrennsli. Ef farþegi er með slík einkenni er mælt með því að hann beri grímu fyrir vitum.
Hvernig á að verjast svínainflúensu?
Að gefnu tilefni vill sóttvarnalæknir árétta að ekki hefur verið sýnt fram á að andlitsgrímur fyrir hinn almenna borgara geri gagn til að verjast svínainflúensu. Andlitsgrímur eru hins vegar gagnlegar heilbrigðisstarfsmönnum sem annast sjúklinga og geta minnkað smithættu ef sýktur einstaklingur ber slíka grímu.- Handývottur og notkun handspritts er áhrifarík aðgerð til að minnka hættu á smiti og á þessu stigi er ekki talin ástæða til að ráðleggja fólki að forðast umgang við annað fólk.
- Notkun veirulyfja er einungis ráðlögð sjúklingum sem læknar telja líklegt að séu með svínainflúensu og fá sjúklingar lyfin afhent á heilsugæslustöð og/eða sjúkrahúsi. Fyrirbyggjandi notkun lyfjanna er ekki ráðlögð að sinni og einstaklingum er ekki ráðlagt að birgja sig upp af lyfjum heima.
Staðfest eru 481 sjúkdómstilvik að morgni 1. maí 2009 :
- Bretland 8
- Kanada 28
- Holland 1
- Þýskaland 3
- Austurríki 1
- Spánn 13
- Ísrael 2
- Sviss 1
- Bandaríkin 109
- Mexíkó 312
- Nýja-Sjáland 3
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Staðfest 481 svínainflúensutilfelli í 11 löndum“, Náttúran.is: 1. maí 2009 URL: http://nature.is/d/2009/05/01/staofest-481-svinainfluensutilfelli-i-11-londum/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.