Hjóladagur, fjársjóðsleit í strætó, vistgötur, ný r vefur um öryggi barna á leið í skólann, bíllausir leikskólar og hjólalestar er meðal þess sem boðið er upp á í Samgönguviku Reykjavíkurborgar 2009. Markmið vikunnar er meðal annars að vekja borgarbúa til umhugsunar um eigin ferðavenjur.

Reykjavíkurborg tekur þátt í Evrópskri samgönguviku ásamt 2000 öðrum borgum og bæjum. Eitt af verkefnunum er að skapa meira og betra rými fyrir þá sem ferðast til og frá vinnu eða skóla með öðrum hætti en einkabíl. Nýlega samþykkti Reykjavíkurborg samgöngustefnu fyrir starfsemi sína í þessum anda.

Kaupmannahöfn er ágæt fyrirmynd í umhverfis- og samgöngumálum. „Við ákváðum að Kaupmannahöfn yrði borg þar sem fólk getur notið sín í borgarrýminu óháð fararskjóta,“ segir Klaus Bondam borgarstjóri tækni- og umhverfismála í Kaupmannahöfn sem hélt erindi fyrir nokkra borgarfulltrúa og embættismenn Reykjavíkurborgar í gær í tilefni af Samgönguviku.

Kaupmannahöfn hefur stigið metnaðarfull skref og sett sér langtímamarkmið um að skapa borgarrými fyrir alla: fá fleiri til að ganga og hjóla til og frá vinnu og skóla og að fá fólk til að vera oftar og lengur úti á torgum og í görðum. „Við gerum þetta meðal annars með því að fækka bílastæðum, loka götum fyrir bílaumferð og fá bílstjórana til að átta sig á að bíllinn er ekki settur í öndvegi í borginni,“ segir Klaus Bondam og að Kaupmannahöfn hafið slegið Amsterdam út sem mesta hjólaborg í heimi þar sem 36% fari nú hjólandi til og frá vinnu eða skóla.

Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs mun setja Samgönguvikuna í Reykjavík á morgun, miðvikudag. Athöfnin fer fram í Laugalækjarskóla kl. 14.00 þar sem borgarhverfið Laugardalur / Háaleiti verður samgönguhverfi ársins 2009-2010 og ný r vefur Reykjavíkurborgar um bættar gönguleiðir skólabarna tekinn í notkun.

Sjá dagskrá Samgönguviku 2009.
Sjá nánar um Evrópska Samgönguviku 2009
.
Sjá grænar áherslur Kaupmannahafnar
.
Kaupmannahöfn - Eco-Metropolis
.
Kaupmannahöfn - Metropol for mennesker
.
Grænt skref í samgöngum í Reykjavík

Birt:
Sept. 15, 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Samgönguvika styrkir grænar stoðir borgarinnar“, Náttúran.is: Sept. 15, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/15/samgonguvika-styrkir-graenar-stooir-borgarinnar/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: