Gagnrýnið háskólasamfélag: Ábyrgð og hlutverk háskóla
Fyrirlestur Irmu Erlingsdóttur á hugvisindaþingi í Háskóla Íslands:
Í bók sinni Háskóli án skilyrða lýsir Jacques Derrida háskóla sem ekki er til, en byggist á skilyrðislausum rétti til andspyrnu, mótþróa og óhlýðni gagnvart valdi, hvort sem um er að ræða fullvalda ríki, efnahagsleg veldi, hugmyndafræði, menningu, fjölmiðla eða trúarbrögð. Slíkur háskóli á sjálfur ekki að vera í skjóli fyrir gagnrýnum spurningum, heldur beinlínis staður afbyggingar sem tekur til alls: lýðræðisins, fullveldisins, ábyrgðarinnar, gagnrýninnar sjálfrar. Þar er leyfilegt að segja allt, jafnvel þótt það sé hreinn skáldskapur eða tilraunakennd þekkingarviðleitni – og gera það opinbert.1*. Þetta tengir háskólann við aðra „stofnun“ ef svo má á að orði komast, bókmenntirnar, í evrópskum og nútímalegum skilningi hugtaksins; bókmenntir sem réttinn til að segja allt opinberlega, en einnig sem rétt til að eiga leyndarmál. Staða slíks háskóla er refhverfð – oxýmoronísk; hann er veikur fyrir en á sama tíma sterkur. Skilyrðisleysið, sem styrkur háskóla felst í, er jafnframt það sem veikir hann og gerir hann móttækilegan eða berskjaldaðan fyrir áhrifum valds — vegna þess einmitt að þetta skilyrðisleysi er ekki til, hefur aldrei verið og getur ekki orðið. Hið óvíga skilyrðisleysi háskóla er abstrakt – óthlutbundið og ofhverft (hýperbólískt).
Frelsi, sjálfræði eða ónæmiskerfi háskóla gerir hann ekki fullvalda. Skilyrðisleysið sem um ræðir er án valds og án varna (sans défense) og því andstætt hverskyns fullveldi sem táknmynd valds. Markmiðið er ekki að öðlast slíkt utanaðkomandi vald eða einangra sig i nafni skilyrðislauss frelsis. Þvert á móti ætti háskólinn að leiða samræðuna milli þessara tveggja ólíku þátta, vera á stöðugri hreyfingu, fram og til baka milli hins skilyrta og hins óskilyrta. Slíkur háskóli, sem þarf alls ekki að vera takmarkaður við háskólastofnun, ætti síðan að veita skilyrðislausa mótspyrnu í samvinnu við öfl utan fræðasamfélagsins gegn birtingarmyndum fullveldis. Afleiðing þessarar andspyrnu gæti verið sú að háskólinn veiti valdhöfum af ýmsu tagi andspyrnu, þjóðríkinu, – og draumórum þess um óskorað fullveldi – og öllu því valdi sem takmarkar opið lýðræði. Í slíkri andstöðu væri háskólinn á mörkum hins innra og ytra, alþjóðlegur og þverþjóðlegur.
Ég minnist á þessa staðleysu eða útópíu hér vegna þess hversu háskólasamfélagið á Íslandi er fjarlægt henni. Á sýndarárum uppsveiflunnar, og reyndar enn í dag, var hluti þess á framfæri stjórnmálaflokka eða þjónaði markmiðum viðskiptavaldsins í formi fyrirtækjamenningar, atvinnulífsdýrkunar og neytendaþjónustu og þeim gildum sem grófu undan háskólasamfélaginu og raunar samfélaginu öllu. Þetta gekk svo langt að háskólakennurum var beinlínist uppálagt „að tala ekki illa um fyrirtæki í kennslutímum.“2* Í öðrum tilvikum dró háskólasamfélagið sig inn í eigin skel, lét undan ofurvaldi hugmyndafræði sem tók yfir stjórnmálin og önnur samfélagssvið. Þótt háskólinn hafi ekki gefið frá sér sjálfræði eða sjálfstæði á öllum sviðum gaf hann að minnsta kosti frá sér tækifærið til að spyrna við fótum og reyna að setja fram önnur gildi, önnur viðmið.
Nú þegar spurt er um ábyrgð háskóla og menntamanna á því kerfishruni sem hér varð verður sýn Derrida á hlutverk háskóla enn brýnni. Eins og ég mun reyna að sýna hér fram á er háskóli samtímans í kreppu vegna þess að hann er rígbundinn tveimur öflum: stofnunum ríkisvaldsins og tæknilegum kröfum markaðarins. Derrida taldi að hin „nýja ábyrgð” háskóla ætti einmitt að felast í því að draga í efa þá tæknihyggju eða „atvinnumennsku” sem gengur út á háskólastarf á grundvelli framboðs og eftirspurnar og tæknilegar fyrirmyndir sem byggja á svonefndum „hæfniviðmiðum.“ Derrida er hér að glíma við tvær hefðir sem þróuðust í kjölfar gagnrýni Nietzsches á háskólastofnanir á 19. öld. Annars vegar bentu fræðimenn á borð við Weber, Heidegger, Jaspers, Lyotard og Bourdieu á hættuna sem háskólunum stafaði af efnahagslegum hagsmunum í krafti „tæknilegrar skynsemi“. Hins vegar vöruðu Frankfurtar- skólinn og Foucault – undir annars konar formerkjum – við áhrifum ríkisvaldsins í formi stofnanavæðingar og skrifræðis háskóla.
Það þarf einmitt að staldra við þessa þætti og endurmeta hvað háskólar og fræðin standa fyrir og tengsl þeirra við vald og valdablokkir. Engin vafi leikur á því að upphafning sérfræðingsins og sérfræðiveldis í háskólasamfélaginu3* átti stóran þátt í að draga úr gagnrýni á ríkjandi valdakerfi og veikja ónæmiskerfi háskólans innan frá. Í nafni fagmennsku hefur háskólastarf verið stofnanavætt og litið hefur verið á hugmyndir og menningu sem tæki til að ná fram markmiðum, oft án þess að skeyta um form eða innihald þeirra. Krafan um þekkingarhagkerfið hefur gert háskóla að miðlægu fyrirbæri í samfélaginu, en á forsendum þar sem litið er á þekkingu sem vöru og afsprengi tækniþróunar í stað andlegrar vinnu eða þess sem kalla mætti „yrki“ til aðgreiningar frá skilyrtri vinnu. Nafnorðið „yrki“ – sem vísar til þess að yrkja – nota ég hér til að skilgreina það sem unnið er á óháðum, frjálsum forsendum. Hins vegar hefur aukin eftirspurn markaðarins eftir hugmyndum sem afurðum gegnt lykilhlutverki í þróun „atvinnumennsku” háskólasamfélagsins. Það var einmitt þessi þróun sem François Lyotard varaði við þegar hann lýsti því yfir að „dauði prófessorsins” væri yfirvofandi. Þegar slík tæknileg viðmið væru orðin viðtekin væri prófessorinn ekkert betur til þess fallinn að miðla þekkingu en hver annar gagnabanki.
Með því að tengja andlega vinnu við atvinnumennsku er hún hlutgerð. Þótt slík vinna sé orðin sýnilegri en áður er hún í vaxandi mæli innt af hendi af stofnunum og sérfræðingum. Áhrifavald háskólasamfélagsins byggist því æ minna á yrki en þeim mun meira a sérfræðiþekkingu. Þessi þróun hefur dregið úr sjálfstæði háskóla og veikt stöðu menntamanna. Edward Said orðaði þetta vel: „Atvinnumennska felst í því að líta á sig sem atvinnu-menntamann sem vinnur milli kl. 9 og 5, með annað augað á klukkunni og hitt á því sem telst rétt og fagleg hegðun, ekki hrófla við neinu, ekki rugga bátnum og ekki fara út yfir viðurkennd landamæri eða mörk, gera þig söluvænan og frambærilegan og umfram allt óumdeildan og „hlutlægan”.”
Þannig hafa menntamenn fjarlægst sífellt meir hlutverk þjóðfélagsgagnrýnenda sem áður lá hinni hefðbundnu sjálfsmynd þeirra til grundvallar allt frá tímum upplýsingarinnar þegar Kant hvatti fræðimenn til að fara út úr fílabeinsturnum sínum og blanda sér í opinbera umræðu. Frá sjónarhóli valdsins var litið á þá sem uppreisnarmenn og óþjóðholla utangarðsmenn sem drógu í efa ráðandi gildi. Og þeim var oft kennt um það sem miður fór í samfélaginu. Franskir hægri menn gerðu Marcel Proust að blóraböggli fyrir „siðferðishnignun” þriðja lýðveldisins í Frakklandi. Joseph Schumpeter leit á menntamenn sem ógn við kapítalisma. Og Arthur Koestler og fleiri sökuðu menntamenn um að ganga erinda alræðisafla á kaldastríðstímanum. Úr vinstri átt var ekki síður gert mikið úr menntamönnum eins og hugmyndir Avners Goulders um menntamenn sem hina „nýju stétt“ bera vitni um. Þeir væru hið nýja frelsisafl sem hefði leyst öreiganna af hólmi í tilraunum til að koma á betra og réttlátara þjóðfélagi. Það sem vinstri og hægri gátu sammælst um var að menntamenn hefðu mikil áhrif á samfélagið og almenningsálitið.
Sú staðreynd að fáir líta nú á menntamenn sem ógn sem stofnar siðferði eða hefðbundnum gildum í hættu má að hluta til rekja til sérfræðivæðingarinnar. Þeir hreyfa ekki lengur við samfélaginu. Hlutverk sérfræðinga er bundið starfinu og stofnuninni sem þeir heyra til og þekkingarframleiðslan tekur mið af atvinnumennskunni. Þegar taka þarf á samfélagsvandamálum er leitað til þeirra um „fagleg” úrræði. Eitt dæmi þess er Rannsóknarnefnd Alþingis, en hún er skipuð þremur sérfræðingum sem eiga að „leita sannleikans” eins og það er orðað í lögunum, um „aðdraganda og orsök falls bankanna 2008” og leggja mat á mistök og ábyrgð. Nefndin leggur áherslu á að „varpa sem skýrustu ljósi á” bankahrunið, „safna saman upplýsingum um staðreyndir málsins” og „draga upp heildarmynd” af því, eins og hún lýsir sjálf hlutverki sínu. Þau orð sem notuð eru til að skilgreina verkefnið eru líkt og grunnstef upplýsingarinnar og hefðbundin einkunnarorð fjölmargra háskóla: „sannleikur„ og „ljós”.
Það er hins vegar engin hugmyndafræði eða gagnrýnin greining sem liggur starfi nefndarinnar til grundvallar, þótt verið sé að gera upp „fortíðarvanda” heillar þjóðar. Hér er ekki um sannleiksnefnd að ræða eins og þá sem starfaði í Suður-Afríku og hafði það hlutverk að greina arfleifð aðskilnaðarstefnunar, auk þess að gegna samfélagslegu sáttahlutverki. Hér er heldur ekki að finna skírskotun til annarra sannleiksnefnda sem glímt hafa við samfélagsáföll á borð við borgarastyrjaldir, eins og t.d. í Mið-Ameríku. Hér erum við aftur komin að atvinnumennskunni: að nálgast söguleg þáttaskil, atvik, á forsendum stofnanavalds. Sjónarhornið er ofurþröngt og bundið við ákveðið tímabil fyrir hrunið og áður en neyðarlögin voru sett. Með öðrum orðum sá valdastéttin ekkert athugavert við að sleppa nefndinni við það rof sem felst í beitingu neyðarréttar – þar sem verið er að breyta neyðarástandi í almenna reglu, að gera undantekninguna að eðlilegu ástandi, eins og Giorgio Agamben mundi orða það.
Og í nafni fagmennskunnar eða „hæfnis- eða hæfisviðmiða” var reynt að bola einu háskólakonunni úr nefndinni fyrir það eitt að hafa látið út úr sér opinberlega hið augljósa: að rekja mætti bankahrunið til græðgi og „gáleysis af hálfu stofnana sem höfðu með höndum eftirlit með kerfinu”. Með slíkum þöggunartilraunum var ekki aðeins verið að viðhalda þeirri blekkingu sem viðgekkst allt árið 2008 – að það mætti ekki tala opinberlega um spillinguna í viðskiptalífinu vegna þess að það skaðaði hagsmuni heildarinnar – heldur einnig að vega að samfélagsábyrgð háskóla. Þetta mál snerist um réttinn til að tjá sig um samfélagsástand.4* Önnur birtingarmynd slíkrar þöggunar kom fram í síðustu viku þegar formaður stjórnmálaflokks taldi best að reka útlenda háskólakonu úr peningastefnunefnd Seðlabankans fyrir óþjóðhollustu. Og þess er skemmst að minnast þegar sterk hagsmunaöfl reyndu að svipta Evu Joly áhrifum sínum og hlutverki í rannsókn bankahrunsins. Allt er þegar þrennt er – þegar kemur að konum og valdakerfum.
Það sem gerir þöggunarmál Rannsóknanefndarinnar enn fjarstæðukenndara er þegar lögin um nefndina eru skoðuð virðist einmitt helsta markmiðið vera að stimpla það sem viðkomandi kona vann sér til saka og sem allir vita: að hér hafi átt sér stað eftirlitslítil útþensla viðskiptavalds í samvinnu við stjórnmála- og embættismannavaldið. Rofið táknar hins vegar mun meira og það ristir mun dýpra samfélagslega. Ábyrgðin liggur svo miklu víðar, þar á meðal í háskólasamfélaginu, að það getur ekki verið á valdi örfárra sérfræðinga – tveggja embættismanna og eins háskólakennara – að setjast í dómarasæti eða setja fram opinbera skýringu – eða sannleika — á rofinu. Hér áttu sér ekki stað neinar opinberar vitnaleiðslur, engar tilraunir voru gerðar til að fá almenning til þátttöku í svonefndu uppgjöri og það var ekki efnt til samfélagslegrar samræðu í víðum skilningi. Þessi þrönga nálgun – þar sem fulltrúar stofnanavaldsins eru ráðandi – býður heim hættunni á að lokað verði á mikilvæga þætti, að þessi þáttaskil verði afgreidd í eitt skipti fyrir öll svo stjórnmálastéttin geti snúið sér að tuggunni um nauðsyn þess að hefja aftur – og enn á ný – endurreisnina í stað þess að fram fari róttæk gagnrýni í formi afbyggingar.
Háskólasamfélagið verður að skilgreina sig út frá hegðun sinni, sjálfsmyndum og gildum. Eins og Bourdieu benti á er hlutverk menntamanna ekki aðeins að beita sérfræðiþekkingu sinni heldur að taka afstöðu óháð sérfræðisviði sínu. Þannig er sjálfsmyndin byggð á afskiptum af samtímanum, hvort sem það á við um pólitík, gildi, siðferði eða eitthvað annað. Ég á vitaskuld ekki við hirð-menntamenn, þá sem Chomsky og Debray nefndu mandarína eða menningarpáfa, sem þjóna ráðandi valdi og tala máli þess. Slíkir menntamenn breytast fljótt í hugmyndafræðinga og verjendur valdkerfis og missa áhrifavald sitt. Ég er ekki að tala um fjölmiðla-menntamenn sem verða að akademískum dægurhetjum. Ég er heldur ekki að upphefja hetjulegar staðalmyndir 20. aldar menntamannsins sem samdi sig ekki að ráðandi siðum og taldi sig geta talað í nafni alls samfélagsins eða eins stórs sannleika. Og ég á enn síður við nýlegar hugmyndir um að endurvekja þennan sama menntamann á 21. öldinni í krafti stofnunarlegrar játningar eða viðurkenningar – með því að láta háskólastofnanir „votta“ hann og gefa honum gæðastimpil. Slíkar hugmyndir eru aðeins endurómur atvinnumennskunnar.
En það þarf að endurskapa hlutverk háskólasamfélagsins á þann hátt að það samrýmist skilyrðislausum vettvangi og gangist við ábyrgð með því að svara kalli samfélagsins. Spurningin um ábyrgð kemur upp á tímum þegar þess er krafist að glímt sé við hana. Sífellt þarf að meta og endurmeta í hverju ábyrgðin felst. Það á ekki að upphefja sögulegt ábyrgðarhlutverk háskóla og láta þar við sitja. Það þarf að svara kallinu þegar það kemur. Því þarf sífellt að endurhugsa spurninguna gagnvart hverjum og á hvaða sviðum háskólar bera ábyrgð. En ábyrgðin birtist þegar sérfræðiþekkingunni sleppir – þegar háskólamenn leggja sjálfa sig að veði með því að taka samfélagslega afstöðu. Og hið æðsta form ábyrgðar felst kannski einmitt í því að sýna óábyrgð gagnvart valdi: að neita að svara fyrir hugsun sína eða skrif frammi fyrir ríkjandi öflum á sama hátt og skáld hefur rétt til að segja hvað sem er í skjóli fyrir hvers konar ritskoðun.
Ég minntist á það í upphafi að hinn skilyrðislausi háskóli væri veikur fyrri smiti. Ofnæmiskerfi hans getur brostið, ekki aðeins vegna þess að það hýsir oft árásaraðilann, heldur einnig vegna þess að það getur orðið sjálfsofnæmi að bráð. Í stað þess að verjast öðrum fer ónæmiskerfið að grafa undan háskólanum á sama hátt og lýðræðisstjórnir telja sig þurfa að verja lýðræðið með því að þola and-lýðræðisleg öfl, eins og fasista sem vilja það feigt, eða með því að grípa til andlýðræðislegra aðgerða, eins og með því að svipta fanga í Guantanamo- fangabúðunum réttarstöðu sinni. Hinn skilyrðislausi háskóli byggir nefnilega á refhverfðum – í þessu tilviki “veikum mætti,” eins og ég kom að áður. Það sama á við um verðandi lýðræði og háskóla án skilyrða í kenningu Derrida. Styrkur þess er tilkominn vegna veikleika; slíkt lýðræði er aldrei endanlegt, kemst aldrei undan óvissunni og hinu óákvarðanlega. Um er að ræða styrk eða mátt sem er laus við vald og valdbeitingu.
En þótt valdleysið geti verið máttur stendur háskólasamfélagið – og það á ekki síst við um hugvísindin – mjög berskjaldað gagnvart utanaðkomandi valdi og þeim öflum sem vilja eigna sér það og skilgreina það. Stjórnmálastéttin hér afsalaði sér fyrst valdinu til viðskiptablokka og gekk síðan erinda þeirra með því að gera viðskiptagildi þeirra að mikilvægum þætti í háskólastefnu. Háskólasamfélagið var mótækilegt fyrir þessu smiti og það var ófært um að spyrna við fótum. Það skiptir því máli að það vinni gegn stofnanavæðingu þess og innleiðingu tæknigilda. Háskólinn verður að gegna þar hlutverki andspyrnuafls á þeim mörkum sem ég hef gert hér að umtalsefni.
Í fyrirlestri sem franski rithöfundurinn Hélène Cixous hélt við Stanford-háskóla og bar nafnið „Óhlýðni í háskóla” (Pas sage à l ́université)5* gagnrýndi hún skort á skáldskap hjá þeim sem störfuðu í akademíunni. Háskólinn ætti að vera hugsaður eins og leikhús þar sem nemendur kynnast mismunandi hlutverkum, sjónarmiðum og afstöðu – og þar sem eitthvað ófyrirsjáanlegt getur gerst hér og nú. Forsenda fyrir slíkum háskóla er sjálfræði til að geta varið sig gagnvart hagsmunum stjórnmálavalds og efnahagslífinu sem og öðrum þjóðfélagsstofnunum. Ekki er unnt að slíta hugtakið akademískt sjálfræði (autonomy) frá fullveldinu vegna þess að það afmarkar. En slíkt rými er nauðsynlegt til að geta varist valdinu. Í því felast einnig ákveðin forréttindi, en til að geta sinnt ábyrgðarhlutverki sínu gagnvart samfélaginu þarf háskólinn að geta starfað án þess að vera ofurseldur utanaðkomandi öflum. Það er liður í því að tala frjálst, milliliðalaust og skilyrðislaust til samfélagsins.
Þrátt fyrir kröfuna um akademískt frelsi eru háskólar auðvitað ekki sjálfráðar stofnanir. Á milli ríkisvalds og ríkisháskóla er ávallt togstreita þar sem háskólinn er fjárhagslega háður ríkisvaldinu. Ríkisvaldið getur markað háskólastefnu í nafni hugmyndafræði eins og gert var hér með markvissum hætti með stofnun „ríkisrekinna einkaháskóla.” Að sama skapi getur ríkisvaldið, eins og Bourdieu benti á, tryggt háskólafólki ákveðið svigrúm í nafni hlutleysiskröfu með því að hlutast ekki með beinum hætti til um rannsóknir og rannsóknaniðurstöður. Þannig getur skapast vettvangur fyrir gagnrýna samfélagsrýni og andspyrnu. Háskólinn verður þannig vettvangur afbyggingar, jafnvel borgaralegrar óhlýðni. Þessi togstreita afhjúpar því aðra mótsögn: Hún er hamlandi fyrir rannsakendur og skapar þeim á sama tíma rými fyrir gagnrýna samfélagssýn.
Það á ekki nota að sjálfræðið til að gera háskóla að fílabeinsturni því að þekkingarsköpun án samfélagstengsla þjónar ekki tilgangi sínum. Við það missir sjálfræðið gildi sitt. En það skiptir öllu máli að mynda fjarlægð við valdastofnanir og láta þær ekki skilgreina yrkið. Ef vinnan er metin af stofnunum utan háskólasamfélagsins leiðir það til frekari stofnanavæðingar þess og gagnrýnislauss fylgis við ríkjandi aðstæður. Menntamenn geta starfað við háskóla, en ef ímyndunarafl þeirra og vinna takmakast við slíkar stofnanir verða þeir aðeins sérfræðingar og tæknikrata-atvinnumenn. Og þeim mun meira sem andlegri vinnu er stjórnað af utanaðkomandi öflum, þeim mun meir sem hún er látin lúta reglum, viðmiðunum og agavaldi yfirmanna, því veikari verða gildi, sjálfmyndir og áhrifamáttur háskólasamfélagsins.Í raun kemur á óvart hve lítil gagnrýni hefur komið fram á markaðs- og stofnanavæðingu háskóla. Þessi þróun hefur leitt til „þægilegrar samvinnu við fyrirtæki” sem skilyrða oft styrki við eigin hagsmuni og til ofuráherslu á að þjálfa námsmenn fyrir vinnumarkaðinn. Þetta ýtir undir stutt „hagnýt námskeið” sem síðan eru vottuð af háskóla. Og innan háskóla birtist þessi sama viðskiptahugsun í að fjármögnun háskóla gengur fyrir akademísku starfi og hamlar samstarfi á mörkum greina og fræða.
Í upphafi ræddi ég um að háskólar væru í kreppu. Það má vel vera að það sé varanlegt eðli háskóla að vera í kreppu frekar en að það sé stundarfyrirbæri. Kannski duga ekki þau hugtök, aðferðir og önnur fræðileg tæki sem við höfum á sviði sagnfræði, heimspeki og bókmennta til að greina þessa stöðu. Zygmunt Bauman skilgreindi hlutverk menntamanna þannig að þeir greiddu fyrir samræðu ólíkra þjóðfélagshópa sem byggja á ólíkum þekkingarhefðum. Hinn skilyrðislausi háskóli byggir á svipaðri hugmynd – í skilningi Derrida á mótum háskóla sem stofnunar og orðræðu-valds og háskóla sem hugmyndar, verðanda, möguleika. Þar á hann að semja um og skipuleggja andspyrnu. Á þessum stað þarf hann að hreyfa við, trufla, láta eitthvað gerast. Vettvangurinn verður að vera hreyfanlegur, ekki bundinn stofnanaveggjum og þar verður að birtast loforð um ófyrirsjáanlega framtíð. Og háskólinn má ekki verða hlekkjaður innan þjóðríkisins eða fullveldisins heldur þróast á þverþjóðlegum og lýðræðislegum forsendum.
Eins og ég sagði áður á yrkið að eiga sér stað á mörkum hin skilyrta og óskilyrta. Sem vettvangur hugsunar og andspyrnu gegn valdastofnunum og valdasviðum samfélagsins (sem Althusser nefndi „ríkiskerfi”) þarf háskólinn að setja fram skapandi gagnrýni. Skilyrðisleysi er ekki bundið við akademískt frelsi því að það er hægt að nota það til að einangra sig innan stofnanaveggja og sniðganga samfélagslega ábyrgð. Háskólastarfið á að ganga út á játningu, það að lýsa yfir, staðfesta, gangast við einhverju. Slík trúarjátning tengist skáldskap sem birtingarformi. Þannig gerir skilyrðislausi háskólinn meiri kröfur en felast í trúarjátningu eða skriftum sem bundnar eru við einkasviðið. Og að því leyti á hann mikið skylt við skáldskap og bókmenntir. Hann þarf sérstaklega að spyrna við ofurvaldi sérfræðisýnar á þekkingu. „Atvinnumönnum” nægir að sækjast eftir viðurkenningu frá öðrum sérfræðingum og með því firra þeir sig samfélagslegri ábyrgð. Því þarf hinn verðandi háskóli að mynda rými á mörkum stofnana og hugmynda til að berjast gegn valdi – hvort sem það er ríkisvald eða viðskiptavald sem reynir sífellt að sniðganga háskólasamfélagið eða tæla það í þeim tilgangi að móta það að eigin fyrirmynd. Ef slíkur vísir að vettvangi myndast, myndast samfara honum vísir að skilyrðislausum háskóla á mörkum hins ómögulega.
*1 Þetta er það sem aðgreinir háskólann frá öðrum stofnunum þar sem hægt er að segja allt – til dæmis kirkjunni (skriftir/játning/syndajátningar - confession religieuse) og sálgreiningu (la libre association en situation psychanalytique).
*2 Sbr. ummæli Lilju Mósesdóttur í útvarpsþætti.
*3 Þessi atvinnumennskalangt frá því að vera bundin við Ísland.
*4 Ummælin beindust ekki að einstaklingum og höfðu engin áhrif á réttarstöðu. Þeir einstaklingar sem nefndin kallaði fyrir gátu neitað að svara spurningum sem hugsanlega gátu tengt þá við ólöglegt athæfi auk þess ekki má nota vitnisburð þeirra gegn þeim í sakamálum.
Birt:
Tilvitnun:
Irma Erlingsdóttir „Gagnrýnið háskólasamfélag: Ábyrgð og hlutverk háskóla“, Náttúran.is: 8. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/08/gagnrynid-haskolasamfelag-byrgd-og-hlutverk-haskol/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. apríl 2010