Umfang framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiðinni verður greinilegra með degi hverjum. Nýuppgerður þjóðvegur 1 um heiðina liðast nú milli risavaxinna pípulagna veitunnar sem hlykkjast í fjörtíuogfimm og níutíu gráða hornum, eins og tölvuleikur, suðureftir. Maður spyr sig hvort að á dagskrá sé að fela rörin eitthvað eða hvort að við eigum að fara að venja okkur á að skoða þau sem „umhverfislistaverk“, líkt og þau eru trúlega í augum skapara þeirra. Líklegt er þó að form röranna stingi í augu flestra enda stinga þau í stúf við landslagið sem fyrir er. Því má segja að um sjónmengun sé að ræða sem að ekki hefur verið gagnrýnd eins og raunin er um aðra umfangsmikla virkjanaframkvæmd á landinu. Þó er ekki eins og að þetta sé svæði sem enginn þekkir eða sér hvort eð er.

Hefur Náttúruverndarfélag Suðurlands sofið á verðinum (því engar spurningar eða gagnrýni kemur þaðan), hefur Náttúruverndarfélag Íslands ekki áhuga á málinu né neinir aðrir sem eiga að gegna hlutverki gagnrýnanda þegar um inngrip og áhrif á náttúru landsins er að ræða?
-
Í drögum að tillögu Orkuveitu Reykjavíkur að matsáætlun VIRKJUN Á ÖLKELDUHÁLSSVÆÐI frá júlí 2006 (sjá skýrsluna og teikningar af framkvæmdum á svæðinu á vef OR) segir i grein 4.3 Vernd - Samkvæmt Aðalskipulagi Ölfuss er markmið hverfisverndar að stuðla að varðveislu náttúruminja, fornleifa og annarra söguminja, sem m.a. rennir styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á svæðinu (Landmótun, 2003). Ekkert hverfisverndarsvæði nær til áhrifasvæðis fyrirhugaðrar virkjunar. Samkvæmt Aðalskipulagi Ölfuss er stefnt er að því að settar verði verndar- og umgengnisreglur um Hengilssvæðið sem tryggi varðveislu þess sem náttúruverndar- og útivistarsvæðis. Einnig að leitað verði samstarfs við hagsmunaaðila um þetta verkefni.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði á Ölkelduhálssvæði nær inn á Hengilssvæðið sem er á náttúruminjaskrá. Í Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps eru skilgreind hverfisverndarsvæði á norðaustanverðu Hengilssvæðinu og syðst í landi Ölfusvatns, (Milli fjalls og fjöru, 2003). Lagt er til að settar verði ákveðnar umgengisreglur fyrir Hengilssvæðið og verndarsvæði.

Í nágrenni við fyrirhugað framkvæmdasvæði, syðst í landi Ölfusvatns, er annars vegar um að ræða svæðið Kþrgil, Ölkelduháls og Tjarnarhnúkur og hins vegar svæðið Laki, Álftatjörn og Efri-Kattartjörn. Í stefnu Grímsnes- og Grafningshrepps kemur fram að jarðrask á verndarsvæðum á Ölfusvatni er með öllu óheimilt og einvörðungu leyfð takmörkuð mannvirkjagerð sem tengist útivist á svæðunum. Tekið er fram að orkuvinnslusvæðið sé undanskilið. Einnig er tekið fram að ef til orkuvinnslu kemur á svæðinu verði unnið deiliskipulag fyrir svæðið þar sem lögð verði áhersla á vandaða mannvirkjagerð og tekið tillit til umhverfisins eins og framast er unnt. Í aðalskipulagi Ölfuss og Grímsnes- og Grafningshrepps eru skilgreind hverfisverndarsvæði við friðlýstar fornminjar. Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar nálægt þessum stöðum.
-
Hér á vefnum gefst landsmönnum kostur á að taka þátt í umræðunni og segja skoðun sína á málinu. Hægt er að „leggja orð í belg“ og senda inn greinar, myndir og annað sem kemur málinu við á einhvern hátt.

Birt:
20. ágúst 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Verður Hellisheiðarvirkjun stærri að framleiðslugetu en Kárahnjúkavirkjun þegar upp er staðið?“, Náttúran.is: 20. ágúst 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/hellis_staerri_karahnj/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 8. maí 2007

Skilaboð: