Sveitarstjóri Mýrdalshrepps tekur undir sjónarmið ofbeldismanna

Innbrot og skemmdarverk á friðlandinu í Dyrhólaey og lífríki þess hafa haldið áfram. Á síðustu þremur sólarhringum hafa lokunarhlið og upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar fimm sinnum verið rofin og fjarlægð, nú síðast eftir hádegi mánudaginn 13. júní. Skömmu áður, þegar ábúendur vitjuðu æðarvarpsins í eynni, blasti við þeim hrikaleg sjón, þar sem fjölda hreiðra hafði verið rústað, egg brotin, dúnn tættur og hreiður afrækt. Þeir sem til þekkja segja augljóst af ummerkjum að þessar skemmdir séu af manna völdum og ekki af völdum rándýra.

Sveitarstjóri Mýrdalshrepps – sem Umhverfisstofnun áformar að afhenda umsjón friðlandsins – hefur, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, í öllum megin atriðum lýst sig sammála því ofbeldisliði sem farið hefur um friðlandið með þjófnaði og skemmdarverkum að undanförnu. Um leið og sveitarstjórinn lýsir í fjölmiðlum fullum stuðningi við markmið innbrotsmanna hafa lögreglan og Umhverfisstofnun horft aðgerðalaus á meðan afbrotin voru framin.

Boðaður samningur Umhverfisstofnunar við Mýrdalshrepp um rekstur og umsjón sveitarfélagsins á friðlandinu í Dyrhólaey, ásamt síðustu atburðum þar, sýna í hnotskurn hvernig ýtt er undir græðgisvæðingu í ferðaþjónustu, með því nánast að siga henni á viðkvæma náttúru landsins með fulltingi nokkurra ofbeldismanna, sem hvað eftir annað hafa rifið niður lokunarhlið og skilti Ust við friðlandið og nú síðast ráðist að æðarvarpi á friðlandinu og rústað því með skipulegum hætti.

Ofurálag á lífríki Dyrhólaeyjar af völdum gríðarlegrar umferðar fólks og ökutækja og síendurtekin opnun eynnar á miðjum varptíma hafa nú valdið því að Dyrhólaey er á válista Umhverfisstofnunar yfir eitt verst farna friðlýsta svæði landsins. Staðir á válista með svo laskað lífríki þurfa vernd en ekki aukið álag, eigi þeir til framtíðar að verða einhvers virði fyrir ferðaþjónustuna.

Við þessar aðstæður krefjast umræddir ofbeldismenn – með sveitarstjóra Mýrdalshrepps á bak við sig – meira aðgengis og meira álags á friðlandið. Því meir sem fuglinum fækkar af manna völdum því minni ástæður sjá þeir til að grípa til verndunaraðgerða. Því meir sem þeir beinlínis spilla hinu friðlýsta svæði þeim mun auðveldara telja þeir að rökstyðja megi takmarkalaust álag á svæðið.

Ljósmynd: Innrás á friðlýst svæði við Dyrhólaey.
Frekari upplýsingar veitir Þorsteinn Gunnarsson, ábúandi á Vatnsskarðshólum, info@dyrholaey.com, s. 487 1291 og 891 9881.

Birt:
13. júní 2011
Tilvitnun:
Þorsteinn Gunnarsson „Áframhald skemmdarverka og þjófnaðar í Dyrhólaey“, Náttúran.is: 13. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/13/aframhald-skemmdarverka-og-thjofnadar-i-dyrholaey/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. júní 2011

Skilaboð: