Á Hugvísindaþingi á föstudag og laugardag verða nokkrar áhugaverðar málstofur um umhverfismál.

Umhverfismál á nýrri öld.
Í málstofunni verður fjallað um umhverfismál og umhverfispólitík á Íslandi frá sjónarhorni nokkurra ólíkra húmanískra fræðigreina. Megináhersla málstofunnar er á stöðu umhverfismála hérlendis í dag, svo og á þróun þeirra á allra næstu árum. Einnig verður fjallað sérstaklega um nokkra málaflokka, einkum þá hnattrænar loftslagsbreytingar, dýravernd, virkjanadeilur og landslagsvernd.

Samræður við landslag – Málstofa tengd útgáfu bókarinnar Conversations with Landscape.

Landslag er hugtak sem vísar í senn til menningar og náttúru. Lengst af hefur verið fjallað um það annaðhvort sem efnisleg form eða sem myndrænan menningarlegan tilbúning. En er hugsanlegt að líta á tengsl fólks og landslags á gagnvirkari hátt – sem samræður? Fyrir skömmu kom út bókin Conversations with Landscape, sem Karl Benediktsson og Katrín Anna Lund ritstýrðu, þar sem fjölþjóðlegur, þverfaglegur hópur fræðafólks vinnur með þessa hugmynd. Í bakgrunni er íslenskt landslag í öllum sínum margbreytileika.

Þar sem jökulinn ber við loft...“ Jöklar í bókmenntum
Jöklar hafa löngum sett sterkan svip á náttúru og ímynd Íslands. Landið er kennt við ís og á því er sá jökull sem stærstur er að rúmmáli í Evrópu. Mælingar raunvísindamanna sýna að jöklar hafa hopað og minnkað umtalsvert á undanförnum áratugum og útlit er fyrir að þeir hverfi að mestu á næstu öld. En hvaða ljósi geta bókmenntirnar varpað á ástand jökla fyrr á tíð og viðhorf manna til þeirra? Því mun jöklafræðingurinn Helgi Björnsson leitast við að svara í fyrirlestri sínum, en bókmenntafræðingarnir Helga Kress og Sveinn Yngvi Egilsson munu fjalla um ímynd og tákngildi jökla í bókmenntum að fornu og nýju.

Íslenska neysluþjóðfélagið frá góðæri til kreppu
Ofurneysla var ein helsta birtingarmynd „góðærisins“ sem ríkti hér á landi á árunum 1995 til 2008. Í málstofunni er leitast við að kortleggja einkaneysluna og rekja breytingar á neysluháttum Íslendinga frá góðæristímanum og fram í efnahagskreppu síðustu ára. Könnuð eru siðferðileg og pólitísk viðhorf fólks til neyslu og hvort merkja megi breytingar á viðhorfum þess í efnahagskreppunnni, t.d. til þess hvað telst til óþarfa og hvað til nauðsynja. Spurt er hvort aukið neysluaðhald í kreppunni muni leiða til varanlegra breytinga á lífsháttum og hvort með bættu siðferði opnist tækifæri til nýsköpunar.

Kristur og félagslegt réttlæti: Guðfræðiþrenning femínista les í krossinn
Á kristin guðfræði að helga sig eilífðarvist annars heims handan mannlegra stofnana? Tengist líf og dauði smiðssonarins frá Nasaret baráttu fyrir jafnrétti kynjanna, umhverfismálum, baráttu fyrir lýðræðislegum umbótum og fleiri mannréttindamálum með einhverjum hætti, eða er slík umræða á villigötum tískustrauma? Er kristsfræði pólitísk eða einkamál milli tilbiðjandans og hins krossfesta? Eiga Kristur og félagslegt réttlæti eitthvað sameiginlegt og þá hvað?

Birt:
24. mars 2011
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Málstofur um umhverfismál á Hugvísindaþingi“, Náttúran.is: 24. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/24/malstofur-um-umhverfismal-hugvisindathingi/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: