Um næstu mánaðarmót verða niðurstöður Rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða kynntar opinberlega. Því miður helgast tímasetningin fremur af kröfum aðila á vinnumarkaði um að hraða framkvæmdum en vilja stjórnvalda til að ná sátt um niðurstöðuna.

Í þeirri nefnd sem skipuð hefur verið til að flokka svæði verndar- og/eða virkjanakosti í verndar-, bið- eða nýtingarflokk eiga náttúruverndarsamtök engan fulltrúa. Á hinn bóginn eru í nefndinni fulltrúar orkuiðnaðar, ferðaþjónustu, umhverfisráðuneytisins og tveir fulltrúar iðnaðarráðuneytisins, auk tveggja sérfræðinga. Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna harðlega að náttúruverndarsamtökum sé haldið utan við þessa vinnu því þar með hafi náttúruverndarsjónarmið engan talsmann í þessu vinnuferli sem þingsályktunartillaga um Rammaáætlun á að byggjast á.

Frá því að vinna við Rammaáætlun hófst fyrir rúmum áratug hefur orkurframleiðsla í landinu tvöfaldast. Á sama tíma hefur stjórnmálamönnum verið mjög tíðrætt um nauðsyn þess að ná sátt um orkunýtingu og verndun náttúruverðmæta. Enn er stefnt að tvöföldun orkuframleiðslu á næstu 10 árum og þá eru ótalin virkjanaáform orkufyrirtækja í eigu sveitarfélaga eða einkaaðila. Hafa stjórnvöld ekkert lært af deilum undanfarinna áratuga?

Náttúruverndarsamtök Íslands vilja benda á eftirfarandi:

  1. Við kynningu á niðurstöðum faghóps I, Náttúra og menningarminjar, kom fram, að „Það var mat hópsins að nokkur svæði, einkum vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Torfajökulssvæðið/Friðland að fjallabaki, Þjórsárver, syðri hluti gosbeltisins við Skaftá/Langasjó/Tungnaá, Vonarskarð og Markarfljót væru gríðarlega verðmæt. Vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði er líka verðmætt á hálendi en einnig eru miklir lífríkishagsmunir á láglendi og merkar menningarminjar.” Þessi svæði ber umsvifalaust að setja í verndarflokk.
  2. Ennfremur er það niðurstaða faghóps I „að Torfajökulssvæðið og Kerlingarfjöll eru lítt raskaðar og einstæðar landslagsheildir sem hópurinn taldi að meta ætti í heild.”[2] Þessi svæði bera að vernda í heild sinni.
  3. Á sama tíma og Rammaáætlun er sögð samin í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra[3]  hafa forsætisráðherra og hagsmunaaðilar í orkuiðnaði ítrekað haldið því fram að lúkning þessa verkefnis verði startskot fyrir framkvæmdir við nýjar virkjanir.
  4. Þá er ótalinn sá veikleiki Rammaáætlunar að ekki er metið verðgildi þeirra svæða sem almenningur lætur sér annt um, t.d. dýrmæt jarðhitasvæði við Bitru eða Gjástykki sem nú stendur til að friðlýsa en erfitt er að slá máli á með aðferðum Rammaáætlunar. Loks eru svæði eins og við Þjórsá þar sem byggð er ógnað vegna virkjanaframkvæmda.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar[4]  segir, að

Náttúruvernd verði hafin til vegs og staða hennar innan stjórnarráðsins styrkt til muna. Náttúruverndarlög verði endurskoðuð, verndarákvæði treyst og almannaréttur tryggður. …
Friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og friðun þess lokið hið fyrsta[5].  Ný náttúruverndaráætlun til 2013 verði afgreidd á vorþingi[6]. 

Ríkisstjórnin hefur starfað í rúm tvö ár. Enn erum við þó litlu nær um hver sú sátt er sem stjórnvöld hyggjast bjóða í samræmi við niðurstöður Rammaáætlunar. Talsmenn orkuiðnaðarins leggja enn gríðarmikla áherslu á að koma í veg fyrir stækkun Friðlandsins í Þjórsárverum svo þeim takist að byggja Norðlingaölduveitu. Sömu aðilar leggja allt kapp á að hluti Torfajökulssvæðisins og Kerlingafjalla standi þeim til boða; að þessi svæði verði ekki sett í verndarflokk í heild sinni. Þessu verður umhverfisráðuneytið að standa gegn.

[1] http://www.rammaaaetlun.is/media/reykjavik-9-mars/FAGHOP~1.pdf
[2] Ibid.
[3] Sjá 1. mgr. 3. gr. Laga um Verndar og orkunýtingaráætlun „Iðnaðarráðherra leggur í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.” http://www.althingi.is/altext/139/s/pdf/1411.pdf . Sjá: http://www.stjornarrad.is/Stefnuyfirlysing/
[5 ]Undirbúningur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hófst í ágúst 2009, samkvæmt tillögu Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar þann dag. Sjá: http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/1476
[6] Náttúruverndaráætlun var samþykkt á Alþingi þann 2. febrúar 2010. Í Náttúruverndaráætluninni er lagt til að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og í greinargerð Náttúrufræðistofnunar, sem fylgir þingsályktunartillögunni, kemur fram hvernig það skuli gert. Sjá: http://www.althingi.is/altext/138/s/pdf/0654.pdf Sjá kort á bls. 29.

Birt:
23. júní 2011
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Átök um Rammaáætlun?“, Náttúran.is: 23. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/23/atok-um-rammaaaetlun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: