Fyrsta íslenska MSC vottunin í höfn
Þorsk- og ýsuveiðar á Íslandsmiðum standast alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra nýtingu
Sæmark sjávarafurðir ehf. hlýtur nú, fyrst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, vottun samkvæmt stöðlum Marine Stewardship Council (MSC) um sjálfbærar fiskveiðar. Að baki liggur langt og ítarlegt matsferli sérfræðinga Vottunarstofunnar Túns. Þessi fyrsta íslenska MSC vottun verður formlega staðfest með útgáfu vottorða sem Svavar Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sæmarks, veitir viðtöku fimmtudaginn 23. júní nk. kl. 17 í Turninum við Smáratorg.
Sæmark sjávarafurðir ehf. er fiskútflutningsfyrirtæki sem annast markaðssetningu sjávarafurða frá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um landið, en fjögur þeirra tóku þátt í þessu verkefni: Fiskvinnslan Íslandssaga hf. á Suðureyri, Hraðfrystihús Hellissands hf., Oddi hf. á Patreksfirði og Þórsberg ehf. á Tálknafirði.
Vottunin staðfestir að þorsk- og ýsuveiðar þessara útgerða með handfærum, línu og dragnót uppfylla kröfur MSC um sjálfbæra nýtingu fiskistofna, skynsamlega stjórnun fiskveiða og tillitsemi við vistkerfi sjávar.
Meðal viðstaddra við afhendinguna verða Jón Bjarnson sjávarútvegsráðherra, Rupert Howes forstjóri MSC og Ally Dingwall framkvæmdastjóri sjávarafurða hjá verslunarkeðjunni Sainsbury í Bretlandi. En Sainsbury dreifir drjúgum hluta þorsks- og ýsuafla sem veiðist hér við land á línu og handfæri.
MSC vottun Sæmarks færir heim sanninn um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur burði til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar. Vaxandi þrýstingur er á dreifingar- og söluaðila á alþjóðamörkuðum að útvega sjávarafurðir úr vottuðum sjálfbærum fiskistofnum. Með hliðsjón af þróun undanfarinna ára má heita ljóst að afurðir sem hafa hlotið slíka vottun eiga mun greiðari aðgang að erlendum neytendamörkuðum en óvottaðar vörur.
Íslenskt sjávarfang er eftirsótt og þekkt fyrir gæði víða um heim. Umhverfisvottun þriðja aðila er megin forsenda þess, að fiskafurðir héðan njóti fyrir það sannmælis á erlendum mörkuðum, bæði í eftirspurn og útflutningsverðmæti.
MSC umhverfisvottunin hefur sótt hratt fram síðustu ár og eru meira en 10.000 vörumerki vottuð í 74 löndum. Ekkert vottunarkerfi hefur náð viðlíka útbreiðslu enda eru útgerðir sem afla 9 milljóna tonna matfiskjar ýmist vottaðar eða í vottunarferli um þessar mundir. Nokkrir helstu nytjastofnar á fiskimiðum grannlanda okkar hafa þegar hlotið MSC vottun, m.a. þorskur og ýsa í Barentshafi, ufsi við Noreg, síldveiðar við Færeyjar og rækja við Kanada.
Staðlar MSC byggja á viðmiðunarreglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar. MSC umhverfisvottunin staðfestir að fiskveiðar séu byggðar á sjálfbærri nýtingu fiskistofna, skynsamlegri stjórnun fiskveiða og tillitsemi við vistkerfi sjávar. Markmið MSC er að stuðla að bættri umgengni um auðlindir sjávar og að auka eftirspurn eftir umhverfisvottuðum sjávarafurðum. Vottunin byggir á heildstæðu mati á ástandi fiskistofna, veiðiaðferðum og fiskveiðistjórnun. Vottuð neysluvara úr MSC vottuðum fiskveiðum getur borið vottunarmerki MSC. (Sjá nánar heimasíðu MSC, www.msc.org).
Vottunarstofan Tún hefur haft forgöngu um vottun lífrænna aðferða og sjálfbærra náttúrunytja hér á landi, í Færeyjum og á Grænlandi allt frá árinu 1994. Tún er faggild af Einkaleyfastofunni skv. staðli EN45011 og hlaut nýlega faggildingu þýsku faggildingarstofunnar Accreditation Services International GmbH (ASI) til þess að annast vottun samkvæmt stöðlum MSC um sjálfbærar fiskveiðar og rekjanleika afurða úr slíkum veiðum. Tún nýtur krafta reyndra íslenskra og erlendra sérfræðinga við vottun sjálfbærra sjávarnytja.
Ljósmynd: Frá afhendingu MSC vottunarinnar þ. 23.06.2011.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Fyrsta íslenska MSC vottunin í höfn“, Náttúran.is: 21. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/21/fyrsta-islenska-msc-vottunin-i-hofn/ [Skoðað:3. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 23. júní 2011