Blábjörg við Djúpavog friðlýst
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, staðfesti í gær friðlýsingu náttúruvættisins Blábjarga á Berufjarðarströnd í Djúpavogshreppi. Björgin, sem eru í landi Fagrahvamms, eru all sérstæð fyrir grænleitan blæ sem rekja má til klórítsteindar sem myndaðist við ummyndun bergsins.
Blábjörg eru hluti af sambræddu flikrubergi, sem hefur verið kallað Berufjarðartúff (Berufjörður acid tuff) og myndaðist í gjóskuflóði í líparítsprengigosi. Í jarðlagastaflanum er það rétt ofan við svokallað Hólmatindstúff, sem er með surtarbrandi, en nokkuð neðan við bleikt túfflag kennt við Skessu.
Markmiðið með friðlýsingu Blábjarga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa hátt fræðslu- og vísindagildi. Blábjörg eru aðgengilegur staður til að skoða flikruberg enda vinsæll viðkomustaður ferðamanna.
Hið friðlýsta svæði er 1,49 hektarar að stærð en með friðlýsingunni verður óheimilt að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir innan marka þess. Almenningi er áfram heimil för um náttúruvættið en umsjón og rekstur þess verður í höndum landeigenda.
Ljósmynd: Blábjörg á Berufjarðarströnd, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Blábjörg við Djúpavog friðlýst“, Náttúran.is: 30. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/30/blabjorg-vid-djupavog-fridlyst/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.