Skógakortið „Rjóður í kynnum“ er komið út en kortið er leiðarvísir um skóga landsins.

Í tilefni af alþjóðlegu ári skóga árið 2011 hafa Skógræktarfélag Íslands og Arion banki gefið út kortið ,,Rjóður í kynnum“ en í því er að finna upplýsingar um 50 áhugaverða útivistarskóga um land allt. Skógarnir eru af öllum stærðum og gerðum, langflestir í alfaraleið og margir í næsta nágrenni við helstu þéttbýlisstaði. Þeir eru því upplagðir áningarstaðir fólks sem á leið um landið. Eins og nafn kortsins gefur til kynna er megintilgangur þess að vekja athygli landsmanna á skógunum og hvetja þá til að staldra þar við og eiga ánægjulegar stundir í skjóli trjáa. ,,Rjóður í kynnum“ er kjörinn ferðafélagi hvort sem fólk hefur brennandi áhuga á útivist og náttúruskoðun eða er aðeins að leita að fallegum stað til að teygja úr stirðum leggjum eftir langa ökuferð.

Á kortinu má sjá staðsetningu reitanna og einnig er stutt lýsing á hverjum og einum reit ásamt upplýsingum um aðstöðu/þjónustu á staðnum og GPS-hnit sem auðveldar fólki að finna þá.

Kortinu verður dreift endurgjaldslaust í útibúum Arion banka, upplýsingamiðstöðvum ferðamála, garðplöntusölum og víðar.

Víða um land standa stórir sem smáir skógar sem eru opnir almenningi allan ársins hring. Þar er gott að á eftir langt ferðalag, teygja úr stirðum leggjum og njóta þess að vera í náttúrunni um stund. Óviðjafnanlegur skógarilmur  fyllir vitin og ómþýður fuglasöngur lætur í eyrum. Sumir kjósa að bregða sér í göngu milli trjáa á meðan aðrir gæða sér á nesti í grænni lautu. Börnin láta heillast af þessum dulmagnaða ævintýraheimi. Víst er að allir í fjölskyldunni snúa endurnærðir á sál og líkama úr skóginum. Verið velkomin.
(texti af forsíðu kortsins)

 

Birt:
15. júní 2011
Höfundur:
Einar Örn Jónsson
Tilvitnun:
Einar Örn Jónsson „Rjóður í kynnum - leiðarvísir um skóga“, Náttúran.is: 15. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/15/rjodur-i-kynnum-leidarvisir-um-skoga/ [Skoðað:22. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: