Þann 1. nóvember 2010 kom út nýr alþjóðlegur staðall um samfélagslega ábyrgð, ISO 26000 (Social responsibility), hjá Alþjóðlegu staðlasamtökunum, ISO. Staðalsins hefur verið beðið með meiri eftirvæntingu en venja er um nýja staðla.

Samfélagslega ábyrg frammistaða fyrirtækja og stofnana hefur m.a. áhrif á:

  • samkeppnisforskot og orðspor,
  • möguleika á að laða til sín og halda í starfsfólk eða meðlimi, viðskiptavini, skjólstæðinga og notendur,
  • starfsumhverfi og framleiðni,
  • afstöðu fjárfesta, eigenda, styrktaraðila og fjármálageirans,
  • samskipti og sambönd við önnur fyrirtæki, stjórnvöld, fjölmiðla, birgja, samstarfs- og samkeppnisaðila, viðskiptavini og samfélagið sem starfað er í.

Staðallinn er einstakur að því leyti að hann endurspeglar alþjóðlegt samkomulag um það hvað samfélagsleg ábyrgð er og hvaða þáttum fyrirtæki og stofnanir þurfa að taka á til að starfa á samfélagslega ábyrgan hátt. Þessir þættir eru eftirfarandi:

  • Stjórnunarhættir fyrirtækis/stofnunar.
  • Mannréttindi og minnihlutahópar.
  • Vinnumál og starfsumhverfi.
  • Umhverfismál.
  • Sanngjarnir viðskiptahættir.
  • Neytendamál.
  • Samfélagsþátttaka og þróun.

Vinna við að semja staðalinn hófst árið 2005 og að henni komu yfir 700 sérfræðingar frá 99 löndum og 42 alþjóðlegum samtökum, frá þróunarlöndum jafnt sem iðnríkjum, fulltrúar fyrirtækja, stjórnvalda, neytenda, verkalýðssamtaka, frjálsra félagasamtaka og fleiri.

Staðallinn á að gagnast alls konar fyrirtækjum og stofnunum, óháð stærð þeirra og staðsetningu, og veitir leiðbeiningar um eftirfarandi:

  1. Hugtök, heiti og skilgreiningar varðandi samfélagslega ábyrgð.
  2. Umhverfi, einkenni, stefnur og strauma varðandi samfélagslega ábyrgð.
  3. Grundvallaratriði og venjur varðandi samfélagslega ábyrgð.
  4. Kjarnaþætti og efnisatriði samfélagslegrar ábyrgðar.
  5. Hvernig á að koma á samfélagslega ábyrgum starfsháttum, hvetja til þeirra og samþætta þá allri starfsemi fyrirtækis og hafa þannig áhrif á starfsumhverfi þess.
  6. Hvernig á að efla samskipti við hagsmunaaðila.
  7. Hvernig á að kynna skuldbindingu fyrirftækisins, frammistöðu þess og annað er varðar samfélagslega ábyrgð.

Staðallinn ISO 26000 er leiðbeiningastaðall og ekki er ætlast til að fyrirtæki séu vottuð samkvæmt honum, ólíkt stöðlunum ISO 9001 (um gæðastjórnun) og ISO 14001 (um umhverfisstjórnun). Notkun hans er valfrjáls, eins og almennt gildir um staðla.

Staðlaráð selur íslenska og alþjóðlega staðla, þar á meðal ISO 26000. Ýmsar gagnlegar og fróðlegar upplýsingar um þennan merkilega staðal er að finna hjá Alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO. Sjá hér.

Birt:
15. júní 2011
Tilvitnun:
Guðrún Rögnvaldsdóttir „ISO 26000 - Staðall um samfélagslega ábyrgð“, Náttúran.is: 15. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/15/iso-26000-stadall-um-samfelagslega-abyrgd/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: