Verdun Þjórsárvera – barátta í hálfa öld
Í dag 17. mars 2012 eru 40 ár frá því að haldinn var almennur sveitarfundur í Árnesi í Gnúpverjahreppi um Þjórsárver. Á þessum fundi kom fram yfirlýsing sem sýndi víðtæka samstöðu um að vernda bæri Þjórsárver og koma í veg fyrir myndun uppistöðulóns í verunum.
Með yfirlýsingunni tóku Gnúpverjar sér varðstöðu um Þjórsárver sem þeir hafa haldið æ síðan. Yfirlýsingin markaði tímamót og hefur allar götur síðan verið einn af hornsteinum náttúruverndarbaráttu á Íslandi. Einnig á alþjóðavettvangi þar sem Íslendingar bera ábyrgð á einstökum náttúrusvæðum sem hvergi eiga sinn líka.
Fundurinn fagnar þeirri stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands frá ágúst 2009 um að hafin skuli vinna við stækkun núverandi friðlands í Þjórsárverum. Jafnframt lýsir fundurinn ánægju sinni með að í drögum að þingsályktunartillögu um Rammaáætlun skuli Þjórsárver sett í verndarflokk. Fundurinn leggur áherslu á að verndun þessa dýrmæta svæðis, sem er sameign þjóðarinnar, strandi ekki á þröngri túlkun skipulagslaga.
Fundurinn lýsir eindregnum stuðningi við framkomna hugmynd um þjóðgarð sem kenndur yrði við Hofsjökul og tæki einnig til Þjórsárvera, Kerlingafjalla, Guðlaugstungna, Hveravalla og Friðlands að Fjallabaki ásamt Jökulám Skagafjarðar.
Fundurinn bendir jafnframt á niðurstöður þekktra fræðimanna um að Þjórsárver eigi heima á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og hvetur umhverfisráðherra að taka þær hugmyndir til vandlegrar skoðunar.
Samþykkt á almennum fundi í Árnesi, laugardaginn 17. mars 2012.
Ljósmynd: Þjórsárver, af Náttúrukorti Famtíðarlandsins RAX.
Birt:
Tilvitnun:
Sigþrúður Jónsdóttir „Verdun Þjórsárvera – barátta í hálfa öld“, Náttúran.is: 20. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/20/verdun-thjorsarvera-baratta-i-halfa-old/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.