Lækka virðisaukaskatt á græna bíla
Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að lækka skatta á umhverfisvæna bíla.
Frumvarp þess efnis var kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna í gær, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.Samkvæmt frumvarpinu mun virðisaukaskattur á rafmagnsbíla, sem kosta allt að sex milljónir króna, lækka um allt að 1,5 milljónir króna. Virðisaukaskattur á tengiltvinnbíla, sem kosta allt að fjórar milljónir króna, mun lækka um allt að eina milljón króna. Að öllu óbreyttu ætti sá afsláttur að skila sér beint í útsöluverð bílanna.
Sami skattaafsláttur hefur verið veittur á vetnisbíla en þessar tegundir eru nefndar hreinorkubílar þar sem þeir losa ekkert af gróðurhúsalofttegundum. Tengiltvinnbílar eru rafmagnsbílar með lítilli bensínvél sem getur framleitt rafmagn þegar rafgeymirinn tæmist.
Aðgerðirnar eru hluti af Grænni orku, sem er verkefni um orkuskipti í samgöngum. Samkvæmt því á hlutdeild innlendrar vistvænnar orku í samgöngum að vera 10 prósent árið 2020. Jón Björn Skúlason, hjá Íslenskri nýorku sem er verkefnisstjóri Grænnar orku, segir að skattalækkunin sé skref í rétta átt.„
Þessi bolti er búinn að vera fastur lengi og ef þetta dugir til að hreyfa við markaðnum er það frábært," segir Jón Björn. Hann segir erfitt að meta nákvæmlega áhrif skattalækkunarinnar.„Norðmenn hafa haft svona kerfi lengi og salan á bílunum var lengi að fara af stað. Hún náði hámarki í fyrra þegar um 2.000 rafbílar seldust. Það er þó ekki nema um 1,5 prósent af nýseldum bílum í landinu og rafbílar í Noregi eru ekki nema 0,25 prósent af heildarbílaflotanum, sem þó er heimsmet."
Jón Björn segir þó ýmsum spurningum ósvarað og þrátt fyrir þetta skref hafi Íslendingar ekki gengið jafn langt og Norðmenn.„Í Ósló eru um 1.000 ókeypis bílastæði með innstungum, þeir mega aka á strætóakreinum og fá frítt í allar ferjur sem tilheyra almenna vegakerfinu.“
Grafík: 3 litlir bílar, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.
Birt:
Tilvitnun:
kóp „Lækka virðisaukaskatt á græna bíla“, Náttúran.is: 20. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/20/laekka-virdisaukaskatt-graena-bila/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.