Bréf Náttúruverndasamtaka Íslands til iðnaðar- og umhverfisráðherra
Umhverfisráðherra
Svandís Svavarsdóttir
Umhverifsráðuneyti
150 Reykjavík
Iðnaðarráðherra
Katrín Júlíusdóttir
Arnarhváli
150 Reykjavík
Reykjavík 2. júní 2011
Erindi: Orkustofnun hunsar lög um Rammáætlun
í 1. mgr. 3. gr. laga um Laga um verndar- og orkunýtingaráætlun segir:
3. gr. Verndar- og orkunýtingaráætlun.
Iðnaðarráðherra leggur í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.
Með útgáfu rannsóknarleyfis fyrir Sunnlenska orku í Grændal hunsar Orkustofnun ofangreint lagaákvæði. Leyfið er gefið út þann 11. maí s.l. - sama dag og lögin tóku gildi. Þessi leyfisveiting grefur undan Rammaáætlun sem ljúka á með þingsályktunartillögu í haust. Gangi þetta eftir er mun ólíklegra að náttúruverndarsamtök sætti sig við niðurstöðu Rammaáætlunar enda er verndargildi Grændals metið hátt í Rammaáætlun. Orkumálastjóri og iðnaðarráðherra staðfesta með þessu þann grun margra náttúruverndarsinna að Rammaáætlun hafi fyrst og fremst þjónað þeim tilgangi að slá ryki í augu almennings. Bent hefur verið á að frá því vinna við Rammaáætlun hófst fyrir rúmum áratug hafi orkuframleiðsla tvöfaldast á Íslandi.
Í athugsemd við 8. gr. frumvarpsins segir: „Gert er ráð fyrir að í verkefnisstjórninni eigi sæti fulltrúar þeirra stjórnvalda sem verndar- og nýtingaráætlunin helst varðar en undirbúningur hennar krefst mikillar samvinnu milli stjórnvalda og stofnana." Umrædd leyfisveiting bendir til að Orkustofnun hyggist fara sínu fram.
Náttúruverndarsamtök Íslands telja því brýnt að bæði iðnaðar- og umhverfisráðherra geri alvarlegar athugasemdir við þessa leyfisveitingu Orkustofnunar sem stenst hvorki lagaákvæði um samvinnu og samráð né fyrirheit stjórnvalda um útfærslu og framkvæmd Rammaáætlunar. Er þá einkum vísað til yfirlýsingar iðnaðarráðherra frá 13. júlí 2007, þar sem segir:
Iðnaðarráðherra hefur vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi á eftirtöldum svæðum: Brennisteinsfjöllum, Kerlingafjöllum, Torfajökulssvæðinu og Langasjó. Þá hefur iðnaðarráðherra einnig vísað frá umsóknum um rannsóknarleyfi í Grændal og á Fremrinámasvæðinu þar sem um óröskuð svæði er að ræða.
Iðnaðarráðherra rökstuddi ákvörðun sína með þeirri stefnumörkun að fyrr en niðurstöður Rammaáætlunar liggi fyrir verði engin rannsóknarleyfi veitt. Ekki er kunnugt um að sitjandi iðnaðarráðherra hafi dregið þessa ákvörðun fyrirrennara síns til baka. Ekki er heldur kunnugt um að nokkur þeirra fyrirtækja sem sóttu um rannsóknarleyfi hafi kært þessa ákvörðun iðnaðarráðherra.
Virðingarfyllst,
f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands,
Árni Finnsson.
(sign)
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Bréf Náttúruverndasamtaka Íslands til iðnaðar- og umhverfisráðherra“, Náttúran.is: 2. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/02/bref-natturuverndasamtaka-islands-til-idnadar-og-u/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. júní 2011