Umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, opnaði í dag nýtt veftækt vákort af Norður-Atlantshafi á nasarm.is með upplýsingum um þá þætti sem eru í hættu við mengunarslys á hafsvæðinu. Við sama tækifæri undirrituðu Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Gunnlaug Einarsdóttir staðgengill forstjóra Umhverfisstofnunar samning um samvinnu stofnananna um eftirlit með mengun á sjó. Þá tók í gær gildi reglugerð um viðbrögð við bráðamengun.

Hlýnun hafs og andrúmslofts og minnkandi hafís á norðurhjara eykur aðgengi að náttúruauðlindum sem áður voru óaðgengilegar og jafnframt aukast siglingar um Norðurhöf. Norðurlöndin gegna lykilhlutverki í verndun og viðhaldi viðkvæmrar náttúru á láði og legi og verða að búa sig undir breyttar aðstæður.

Verði stórt mengunaróhapp á hafsvæðinu getur það ógnað lífríki stórs svæðis, hindrað veiðar og stofnað byggð í tvísýnu. Skipulögð viðbrögð, samstarf og samvinna eru grundvallaratriði í því skyni að lágmarka umhverfistjón eins og unnt er. Vákortið er þannig mikilvægt tæki til að auðvelda skipulögð viðbrögð við óhöppum en nýtist einnig við forvarnir og skipulag mengunarvarna.

Kortið er afrakstur formennskuverkefnis Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2009 en Umhverfisstofnun leiddi vinnuna við gerð þess. Auk Íslands komu Noregur, Færeyjar og Grænland að gerð kortsins sem má nálgast á vefslóðinni www.nasarm.is.

Samningur um samvinnu stofnananna um eftirlit með mengun á sjó

Í dag undirrituðu einnig Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og Gunnlaug Einarsdóttir staðgengill forstjóra Umhverfisstofnunar samning um samvinnu stofnananna um eftirlit með mengun á sjó. Auk eftirlits Landhelgisgæslunnar úr lofti og af sjó fjallar samningurinn um notkun gervitungla við mengunareftirlit. Með þeirri tækni aukast mjög möguleikar á eftirliti með ólöglegri losun á hafinu og gagnast einnig við skipulagningu viðbragða við mengunaróhöppum á sjó.

Hver höfn ábyrg fyrir eigin mengunarvörnum

Lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda var breytt fyrr á þessu ári. Í framhaldi af því var sett reglugerð nr. 1010/2012 um viðbrögð við bráðamengun og tók hún gildi í gær. Með breytingunum er hver höfn ábyrg fyrir eigin mengunarvörnum en reglugerðin kveður á um gerð viðbragðsáætlana, framkvæmd og stjórn aðgerða á vettvangi innan hafnarsvæða og sameiginlega aðgerðaáætlun varðandi hlutverk og verkefni Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og Siglingastofnunar.

Þá er með breyttum lögum settur á laggirnar samstarfsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna, með þátttöku Siglingastofnunar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, svokallað mengunarvarnaráð hafna.

Undirbúning þessara breytinga má rekja til frumkvæðis Hafnasambands Íslands sem benti á að bæta mætti skipulag vegna viðbragða við bráðamengun, gera það skýrara og skilvirkara.

Reglugerð nr. 1010/2012 um viðbrögð við bráðamengun er að finna hér.

Birt:
29. nóvember 2012
Tilvitnun:
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið „Vákort af Norður-Atlantshafi komið á vefinn“, Náttúran.is: 29. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/30/vakort-af-nordur-atlantshafi-komid-vefinn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. nóvember 2012

Skilaboð: