Máni Arnarson verkfræðingur flytur fyrirlesturinn Hrun íslenska efnahagskerfisins: Notkun kerfislíkana við að kanna samtengingu fjármála-, þjóðfélags- og heimskerfa í stofu 101 á Háskólatorgi Háskóla Íslands miðvikudaginn 1. júní kl. 12:00 en fyrirlestrinum lýkur um kl. 13:30.

Meðhöfundar skýrslu, sem ber sama titil og fyrirlesturinn, og kemur út 1. júní, sitja einnig fyrirlesturinn. Þeir eru Þorbjörn Kristjánsson (nemi í heimspeki), Atli Bjarnason (nemi í viðskiptafræði), Harald Sverdrup prófessor við háskólann í Lundi og Kristín Vala Ragnarsdóttir forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ.

Fyrirlestrinum og skýrslunni eru ætluð tvö hlutverk. Það fyrra er að varpa skýru ljósi á þá atburði er orsökuðu og leiddu til falls íslenska efnahagskerfisins haustið 2008. Það síðara er að leggja til breytingar til að bæta fjármálakerfið og samverkandi kerfi.

Skýrslan byggist á fyrri rannsóknum, að stórum hluta á skýrslu rannsóknarnefndar alþingis, viðtölum við aðila í Reykjavík, New York, London og Hamri (Noregi) og einnig fleiri rannsóknum sem fjalla um efnahagshrunið hér heima sem og efnahagsáföll sem áttu sér stað erlendis. Þessi vinna hefur sérstöðu því í henni eru atburðirnir athugaðir með aðferðafræði kerfishugsunar; þar eru atburðir og orsakasambönd milli þeirra skoðuð ofan í kjölinn og kortlögð með hjálp kvikra kerfislíkana (e. systems dynamics).

Aðferðafræðin einfaldar flókna atburðarás efnahagshrunsins og veitir yfirsýn á þann myndræna hátt sem kvik kerfislíkön leyfa. Sýnt er hvernig stjórnendur bankanna, samfélagið, stjórnmál, markaðsagi og þjóðhagsstærðir tengjast. Gerðar eru tillögur að endurbótum á stofnunum (fjársýsla, eftirlitskerfi, gjaldýrot, endurskoðun, skattlagning), mannauðsmálum (kynjahlutföll í stjórnum, bankastjórnun, hagsmunaárekstrar, lífeyrissjóðir, aukagreiðslur (bonus)) og þjóðfélagsháttum (þjóðfélagsleg ábyrgð, fjölmiðlar, menntun, hagsmunaárekstrar).

Skýrsluna sem fyrirlesturinn byggist á má nálgast hér Allir velkomnir.

Ljósmynd: Máni, Atli og Þorbjörn er þeir kynntu verkefnið á Balaton ráðstefnunni á sl. ári. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
30. maí 2011
Höfundur:
Háskóli Íslands
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Hrun íslenska efnahagskerfisins: Notkun kerfislíkana við að kanna samtengingu fjármála-, þjóðfélags- og heimskerfa “, Náttúran.is: 30. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/30/hrun-islenska-efnahagskerfisins-notkun-kerfislikan/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: