Jarðskjálftar á Hellisheiði 15. okt. 2011

Orkuveitan stígur þungt til jarðar á Hellisheiði þessa dagana. Í morgun skalf jörð enn og aftur í Hveragerði. Og nú var einn skjálftinn nánast við bæjardyrnar. Einmitt á sama tíma og undirritaður var að lesa grein á visir.is um að nú væri þetta allt nánast yfirstaðið og skjálftavirkni vegna niðurdælingar að baki. Skjálftarnir í morgun voru það öflugir að þeir hafa árhif á undirstöður húsa, geta hnikað gömlum lögnum eða hnykkt þeim sundur. Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar skrifar blogg á DV þar sem hann vekur upp spurningar um fjáhagslega ábyrgð ef tjón verður af völdum þessara skjálfta. OR svarar því þannig:

Án nánari athugunar á því, treystir OR sér ekki til að kveða upp úr um bótaskyldu vegna hugsanlegs tjóns af skjálftunum. Rétt er að benda á að OR er ekki kunnugt um að neinn skjálfti, sem rekja má til niðurdælingarinnar, hafi verið af þeim styrk í byggð að fasteignir, sem uppfylla kröfur byggingareglugerðar, ættu að verða fyrir tjóni.

Skálftar uppá ein 4 stig í næsta nágrenni við byggingar geta örugglega valdið tjóni. Og skjálftinn í morgun var innan við einn kílómetra frá næsu íbúðarhúsum þar sem hann fannst mjög greinilega og hlutir hristust til.

Í ljósi yfirlýsinga um að nú sé þetta búið, og þá skelfur sem aldrei fyrr, leyfi ég mér að efast um að sérfræðingar OR hafi fullkomna hugmynd um hvað þeir eru að fást við. Auðvitað hafa þeir einhverja hugmynd en greinilega ekki nógu góða. Ég held að enginn hafi gert ráð fyrir þetta mikillli virkni. Kannski staðbundnum skjálftum uppá 1 til 2 stig en ekki þessum áhrifum. Skjálfti uppá tæplega 4, um 2 km vestur af Hveragerði á sama tíma og annar álíka á sér stað á Kolviðarhóli. Það er ekki tilviljun. En bendir til þessa að gríðarlegt afl sé að verki.

Nú er að vænta úttektar Orkuveitunnar og OR um þessa skjálftavirkni af mannavöldum. Tilkynningin um að þetta væri yfirstaðið er augljóslega ótímabær. Það hlýtur að vera krafa íbúa á áhrifasvæðinu að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og sérfræðingar dragi einhvern lærdóm af þessum tilraunum. Og geti þá þannig fundið leiðir til að framkvæma þessa niðurdælingu með minni umhverfisáhrifum og áhrifum á mannvirki og fólk.

Hér í Hveragerði er fólk ekki búið að jafna sig fyllilega á stóru skjálftunum 2008 og hver kippur vekur upp á ógn sem þá var. Stórskjálftar byrja nefninlega mjög svipað og minni. Fólk veit ekki hvort það er bara þetta eina högg eða hvort allt muni hristast og skjálfa, húsmunir færast og detta úr hillum. Þannig eru tilfinningaleg áhrif þessara tilrauna ekki síðri en þau á jörð og mannvirki.

Ég minnist þess ekki að OR hafi beðið fólk velvirðingar á þessum óþægindum heldur bara komið með þóttafullar yfirlýsingar um að þetta sé allt saman eðlilegt og undir þeirra skeleggu stjórn. Sem það er augljóslega ekki eins mikið og menn vilja vera láta.

Þótt fyrirtækið sé á hausnum gæti það vel sent út bækling til fólks á áhrifasvæðinu þar sem þessar tilraunir eru útskýrðar og við hverju megi búast. Í raun hefði það átt að gerast áður en tilraunirnar hófust. En nú er of seint í rassinn gripið með það og þá kannski hægt að senda fólki einhversskonar afsökun á þessu raski og biðjast velvirðingar á þeim ótta og óþægindum sem OR hefur valdið.

Birt:
Oct. 15, 2011
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Jarðskjálftar af mannavöldum“, Náttúran.is: Oct. 15, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/10/15/jardskjalftar-af-mannavoldum/ [Skoðað:June 14, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: