Þann 29.nóvember frá kl. 15:00 -16:00 stendur Vistbyggðarráð fyrir opnum fundi sem ber yfirskriftina, Græn leiga og samkeppni um vistvæna endurhönnun. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Eflu að Höfðabakka 9

Á fundinum verða svokallaðir grænir leigusamningar skoðaðir og hvaða áhrif þeir geti haft á  íslenskan leigumarkað.
Einnig verður samkeppni Nordic Built um vistvæna endurhönnun kynnt og farið yfir helstu áhersluatriði og framkvæmd samkeppninnar.

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt  í nágrannalöndum okkar að gerðir séu svokallaðir ,,grænir leigusamningar“ um bæði íbúðar-og atvinnhúsnæði. En hvað felst í grænum leigusamningi? Eru  þeir fyrst og fremst hugsaðir fyrir skrifstofubyggingar eða íbúðarhúsnæði og hvaða hagur er að því að gera grænan leigusamning.  Er þetta e.t.v. eitthvað sem við getum tekið upp á Íslandi?

Markið með grænum leigusamningum er að bæði leigusalar og leigjendur vinni saman að því að auka sjálfbærni og draga með þeim hætti úr neikvæðum umhverfisáhrifum bygginga. Grænir leigusamningar geta verið mismunandi allt eftir aðstæðum hverju sinni. Í flestum tilvikum er um að ræða hefðbundna leigusaminga en inn í þá er bætt ákvæðum um m.a.

  • Skyldur leigusala til að viðhalds húsnæðis til að tryggja hámarks skilvirkni kerfa og þar með að lágmarka orkunotkun.
  • Skyldur  leigjanda til að uppfylla ákveðnar kröfur um orkunýtni í notkun húsnæðis. (rétt notkun loftræstikerfa o.s.frv.)

Einnig geta samningarnir kveðið á um vistvænar áherslur varðandi ýmislegt annað tengt rekstri húsnæðisins s.s. almennt viðhald byggingar, förgun úrgangs, flutning, og aðra tengda þjónustu.

Leigusali og leigjandi gera með sér samkomulag eða e.k. sáttmála um að fylgja umhverfisstefnu t.d. viðkomandi fasteignafélags og þá fylgja oft hvatakerfi (t.d. lækkun leigu) fyrir þá leigjendur sem standa sig vel í þeim efnum, enda hagur fyrir fasteignafélög að lækka almennan rekstrarkostnað og að geta boðið upp á gæða húsnæði og góða þjónustu sem um leið getur aukið markaðsvirði þess bæði á leigu- og fasteignamarkaði.

Dagskrá:

15:00-15:20 Guðmundur Tryggvi Sigurðsson, forstöðumaður eignaumsýslu hjá Reitum fasteignafélagi - Grænir  leigusamningar á Íslandi.
15:20-15:40 Kynning á Nordic  Built, norrænni samkeppni um vistvæna endurhönnun.
15:4o-15:50 Umræður/fyrirspurnir.
15:50-16:00 Veitingar.

Birt:
28. nóvember 2012
Tilvitnun:
Sigríður Björk Jónsdóttir „Opinn fundur um græna leigu og samkeppni um vistvæna endurhönnun“, Náttúran.is: 28. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/28/opinn-fundur-um-graena-leigu-og-samkeppni-um-vistv/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: