Táknrænt gildi Gullfoss í íslenskri náttúrusýn er umfjöllunarefni Upplits, menningarklasa uppsveita Árnessýslu, sunnudagskvöldið 29. maí kl. 20.00. Segja má að staðarvalið sé táknrænt – en viðburðurinn fer fram á Hótel Gullfossi í Brattholti og það er Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur sem flytur fyrirlestur.

Hvernig blandaðist Gullfoss inn í fossamálin í byrjun 20. aldar? Um hvað snerist „fossmálið“ og af hverju lifir það í sögunni? Hvers vegna skrifaði Sigríður í Brattholti forseta Íslands bréf? Hver er saga hugmynda um nýtingu eða verndun Gullfoss? Hvaða sess skipar Gullfoss í íslenskri náttúrusýn í dag? Um þessi atriði og fleiri verður fjallað í fyrirlestri Unnar Birnu um Gullfoss í umræðu um virkjanir frá því upp úr aldamótunum 1900 og fram til þessa dags. Sjónum verður beint að táknrænu gildi fossins og þætti Sigríðar í Brattholti í að móta þá sögu. Erindið byggist á nýlegri doktorsritgerð Unnar Birnu í sagnfræði sem út kom hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 2010 með titlinum, „Þar sem fossarnir falla“.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Ljósmynd af Gullfossi af pictures.traveladventures.org.

Birt:
27. maí 2011
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Á slóðum Sigríðar í Brattholti“, Náttúran.is: 27. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/27/slodum-sigridar-i-brattholti/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. maí 2012

Skilaboð: