Undanbrögð og yfirhylmingar með blessun ráðherra
Saving Iceland hreyfingin hefur skoðað nýbirta skýrslu ríkislögreglustjóra og hefur í fyrstu atrennu fram að færa nokkurn fjölda athugasemda þar að lútandi. Það er mikilvægt að það komi strax fram að okkur þykir miklum undrum sæta ef Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ætlar að sætta sig við þá illa rökstuddu yfirhylmingu sem viðhöfð er með skýrslu Ríkislögreglustjóra. Það sætir einnig furðu hversu yfirborðsleg og hreinlega röng greining ráðherrans, og um leið sumra helstu fjölmiðla landsins, hefur verið á skýrslunni.
Alvarlegasti meinbugur skýrslunnar er auðvitað sú staðreynd að algjörlega er vikið undan þeirri ábyrgð sem henni er formlega ætlað að axla. Einu upplýsingarnar sem raunverulega snerta á umfjöllunarefni skýrslunnar eru á bls. 12 þar sem segir að „trúnaðarupplýsingar“ hafi borist lögreglu um fyrirhuguð mótmæli frá bæði innlendum og erlendum „upplýsingagjöfum“ sem nýttar hafi verið til að skipuleggja viðbrögð lögreglu.
Á bls. 18 undir 7. tl. segir að „við yfirferð gagna hjá embætti ríkislögreglustjóra haf[i] ekki komið fram upplýsingar sem gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005“. Er hér augljóslega verið að víkjast undan því að svara hreint út hvort lögreglan hafði vitneskju um veru hans á landinu, með því að vísa í tilvist „gagna“. Samkvæmt þessu gætu öll yfirvöld ávallt vikið sér undan allri upplýsingaskyldu með því að eyða gögnum eða búa ekki til gögn um það sem þar fer fram. Þetta er algerlega óásættanleg niðurstaða.
Áhugavert þykir okkur að hvorki innanríkisráðherra né ríkislögreglustjóri hafi svarað erindum sem lögfræðingur okkar hefur sent þeim þar sem formlega er meðal annars beðið um frekari upplýsingar um njósnir lögreglu um einstaklinga innan Saving Iceland og ekki síður um inntak fyrirspurnarinnar sem lögð var fyrir greiningardeild ríkislögreglustjóra. Á meðan ráðherra og ríkislögreglustjóra gefa ekki nákvæmlega upp hver fyrirspurn ráðherrans var er erfitt að leggja mat á hversu mikið skýrslan skorast undan svörum, þó ljóst sé af lestri skýrslunnar að vikist er fullkomnlega undan því að svara þeim spurningum sem liggja skýrslunni til grundvallar hvað varðar Saving Iceland og Mark Kennedy.
Einnig er ótrúlegt, út frá almennum rannsóknarreglum, að ekki hafi verið haft samband við einstaklinga sem starfað hafa með Saving Iceland heldur sé kaflinn um Mark Kennedy byggður á frásögnum í breska dagblaðinu The Guardian, sem fullar eru af rangfærslum sem Saving Iceland hefur margítrekað gert athugasemdir við.
Glæpavæðing andófs er tilræði við lýðræði
Skýrsla ríkislögreglustjóra er hrópandi dæmi um þá meinsemd sem viðgengst hjá íslenskum yfirvöldum sem er að beita sér gegn pólitísku andófi og hópum sem stunda borgaralega óhlýðni eins og um glæpasamtök sé að ræða. Þegar á fyrstu síðunum gerir ríkislögreglustjóri sig sekan um að glæpavæða hreyfingu okkar. Sem heild spyrðir skýrslan okkur náttúrverndarsinna saman við „glæpasamtökin Hells Angels“ sem hafa orðið að nokkurs konar skálkaskjóli fyrir hvers kyns inngripum sem takmarka stjórnarskrárvarin mannréttindi.
Í þessu samhengi er afar mikilvægt að fá að vita hver hin upphaflega beiðni var frá innanríkisráðherra (reyndar sætir furðu að hún skuli ekki tekin fram með skýrum orðum í skýrslunni) þar sem það er mjög óeðlilegt að biðja um rannsókn á tveimur svo óskyldum félögum í sömu skýrslu. Það gefur að sjálfsögðu ranga mynd af þeim atriðum sem upplýsa skal er varða Saving Iceland, sem hafa á engan hátt farið fram með slíkum hætti að fjalla eigi um þau samtök náttúruverndarsinna í sömu andrá og Hells Angels. Þetta þarfnast skýringa yfirvalda.
Ríkislögreglustjóri gerist svo seinheppinn að missa það út úr sér að embættið hafi sinnt skyldum „hvað varðar baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi og umsvifum aðgerðahópa á borð við samtökin Saving Iceland.“ Hér er beinlínis viðurkennt að embættið sem um ræðir álíti það skyldu sína að „berjast gegn“ umsvifum náttúruverndarhópa á borð við Saving Iceland.
Er mjög hæpið að sjá hvaðan þessar skyldur rísa út frá lögreglulögum sem vitnað er í, en í 5. gr. laganna er fjallað um samhæfingarskyldu embættisins en enga skyldu um að berjast gegn frjálsum félagasamtökum, frekar en vænta má. Einungis er þar að finna lýsingu á hinum ýmsu stjórnsýslulegu starfsskyldum embættisins þ.e.a.s. „að starfrækja lögreglurannsóknardeild og greiningardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi.“
Það er ekki í verkahring lögregluliðs, í ríki sem vill státa sig af því að viðhalda lýðræði, að „berjast gegn“ pólitísku andófi. Við finnum okkur knúin til að spyrja hvort ríkislögreglstjóri hafi algjörlega tapað sér í hasarnum og telji sig í raun gegna embættisskyldum í fasistaríki á borð við þau sem til að mynda íbúar Suður-Ameríku hafa oft þurft að búa við?
Á bls. 1 í skýrslunni, í sömu tilvísun og nefnd var að ofan, er tekið fram að deildin sem um ræðir „rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggur mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi“. Samkvæmt þessari skilgreiningu er mjög erfitt að sjá að deildin hafi haft nokkra heimild til afskipta af Saving Iceland, en ef svo var væri forvitnilegt að vita undir hvað af þessum efnisatriðum hún fellir starfsemi Saving Iceland.
Augljós undanbrögð
Sá hluti skýrslunnar sem snertir Saving Iceland er að öllu leiti í fullkomnu samræmi við skýrslu um afskipti lögreglu af Saving Iceland sem skólastjóri lögreglustjóraskólans gerði fyrir dómsmálaráðherra árið 2009. Verið er að endursegja lagagreinar og lýsa starfsaðferðum lögreglu líkt og lesandinn sé barn að aldri, en sú greining sem búist var við með skýrslunni er víðs fjarri. (Reyndar er skýrsla ríkislögreglustjóra með tvöföldu línubili og löngum tilvísunum í lagagreinar, hugsanlega til að hylja það hversu lítið kjöt er á beinunum hvað greiningu varðar. Það væri áhugavert að sjá hvað eftir stæði ef löngum lagagreinum væri kippt út og textinn settur upp í einföldu línubili.)
Á bls. 2 í skýrslunni er tekið fram hvaða sérstöku verkefni greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur á sinni könnu í langri upptalningu. Þrátt fyrir upptalningu í 12 liðum er ekki tekið fram undir hvað af þessum verkefnum þau atriði sem til skoðunar eru í skýrslunni heyra.
Á bls. 15 er sagt að viðbrögð lögreglunnar hafi verið „í samræmi við viðvaranir sem bárust erlendis frá og upplýsingar sem fengust hér á landi“. Hver sér um að viðvara lögregluna erlendis frá? Hvernig er hægt að fullyrða að viðbrögðin hafi verið í samræmi við þær viðvaranir ef ekki er flett ofan af því hverjar þær viðvaranir voru? Það að það „kynnu að verða fjölmenn“ mótmæli er ekki ástæða til aðgerða. Að líkur hafi verið á að skemmdarverk yrðu framin er fullyrðing án rökstuðnings. Lögreglu kann að hafa borist upplýsingar um að mjög einbeitta aðgerðarsinna yrði líklega að finna í hópnum, en andófsaðgerðir eru ekki sjálfgefið ólöglegar og tilvist „aðgerðarsinna“ réttlætir ekki beitingu lögregluvalds.
Við teljum að sú kostulega natni sem í skýrslunni er lögð til að reyna að sannfæra ráðherrann og aðra lesendur um að samkvæmt alþjóðlegum lögreglusamþykktum megi hvorki hann, né þeir sem lögreglan hefur brotið á, fá sannanir þar um, sé ekki vegna trúnaðar við erlenda lögreglusnjónara heldur af þeim einbeitta vilja að forðast að koma upp um brot ríkislögreglustjóraembættisins á mannréttindum einstaklinga sem starfað hafa innan Saving Iceland. Þar liggur hundurinn grafinn hvað varðar undanbrögð ríkislögreglustjóra varðandi sönnunargögn um lögbrot lögreglunnar á Saving Iceland, en ekki í neinu trúnaðartausti við erlenda njósnara.
Á bls. 3 er fjallað um svokallaða „þriðjaríkisreglu“ sem er þó teygð til að ná yfir trúnaðarskyldu gagnvart innaríkisráðherra sem biður um þessa skýrslu. Hann er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og því óskiljanlegt hvernig hann getur fengið þennan þriðjamanns-stympil í meðferðum skýrsluhöfunda.
Athugavert er að á bls. 15 er vísað í fyrrnefnda skýrslu skólastjóra lögregluskólans þegar sagt er: „Í skýrslunni kemur og fram að lögregla hafi ekki beitt hlerunum í tengslum við mótmælin“. Það má velta fyrir sér hvort þetta sé endursagt með tilvísun í skýrsluna til þess að skotra sér undan því að fletta ofan af því hvort hleranir áttu sér stað. Ef embættið taldi stafa mikil hryðjuverkaógn af Saving Iceland er afar sérkennilegt að ríkislögreglustjóri skuli láta undir höfuð leggjast að láta hlera samskipti okkar. Þá mætti segja, að ef sú er reyndin að ríkislögreglustjóri hafi talið hættu á hryðjuverkum af okkar hálfu, hafi hann brugðist skyldum sínum all verulega með því að hlera okkur ekki.
Í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um upplýsingarétt með eftirfarandi hætti: „Aðili máls á rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Fari aðili fram á að fá afrit eða ljósrit af málsskjölum skal orðið við þeirri beiðni nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé verulegum vandkvæðum bundið. Forsætisráðherra er heimilt að ákveða með sérstakri gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir afrit og ljósrit sem veitt eru samkvæmt þessari grein.“ Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein.
Það liggur í augum uppi að ríkislögreglustjóri viðurkennir að hafa verið í nánu samstarfi við bresk yfirvöld hvað varðar njósnir um Saving Iceland. Þar nægir að nefna að ríkislögreglustjóri viðurkennir að hafa ekki einungis veitt viðtöku upplýsinga erlendis frá heldur líka hérlendis. Upplýsinga sem aflað hefur verið með njósnum, með öðrum orðum: brotum á friðhelgi einkalífs okkar. Það eru einungis augljós undanbrögð að lýsa því yfir að um þetta samstarf við bresku lögregluna sé ekki að finna nein skjalfest gögn innan sjálfs ríkislögregluembættisins.
Óháð rannsókn
Innanríkisráðherra er mikið í mun að áherslan í þessu máli sé lögð á að fyrirbyggja að lögregla noti rýmkaðar heimildir til forvirkra rannsókna til að brjóta á réttindum andófshópa. Þó að ráðherran láti fylgja með skýrslunni innfjálga yfirlýsingu um að honum finnist „íhlutun yfirvalda með þessum hætti í mótmæli af pólitískum toga beinlínis vera tilræði við lýðræðið,“ virðist ekki vera neinn vilji að baki þessara orða hans til að taka á skjalfestum brotum íslensku og bresku lögreglunnar á réttindum okkar.
Við leyfum okkur því að spyrja: Er ráðherrann þá í reynd að leggja blessun sína yfir þau skýlausu brot lögreglunnar, sem staðfest eru svart á hvítu í skýrslunni, til dæmis á rétti okkar til friðhelgi einkalífs og með því að planta á okkur undiróðursmanni til margra ára sem reyndi allt sem í hans valdi stóð til þess að ginna okkur (nota bene árangursslaust!) til stórfeldra hryðjuverka? Hefur ráðherran, í hrifningarvímu sinni yfir forvirkum rannsóknum, komist að þeirri niðurstöðu að vægi og alvarleiki lögbrota, er þau hafa þegar verið framin, sé minna en þeirra sem eru í bígerð eða hafa aldrei verið framin?
Ef innanríkisráðherra telur þessa skýrslu fullnægjandi leyfum við okkur að efast um að sú reglugerða- og lagasmíði sem hann segist vilja stuðla að, og eigi að verja pólitískt andóf á landinu gegn mannréttindabrotum stóra bróður, sé í réttum höndum á meðan ráðuneytið heyrir undir hann.
Saving Iceland mælist til þess að Ögmundur Jónasson sendi skýrsluna aftur til sinna heimahúsa á þeim grundvelli að hún er einfaldlega ekki fullnægjandi. Að öðrum kosti teljum við brýnt að sett verði á laggirnar rannsókn sem stjórnað verður af óháðum aðilum en síst aðila sem greinilega hefur eins mikilla hagsmuna að gæta og Ríkislögreglustjóraembættið.
Birt:
Tilvitnun:
Saving Iceland „Undanbrögð og yfirhylmingar með blessun ráðherra“, Náttúran.is: 20. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/20/undanbrogd-og-yfirhylmimngar-med-blessun-radherra/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 21. maí 2011