800 hafa nú þegar skráð sig á undirskriftarlista til stuðnings verndarsvæðis fyrir hvítabirni í Reykjavík
Sú hugmynd að stofna verndarsvæði fyrir hvítabirni innan borgarmarka Reykjavíkurborgar er grunnur verkefnisins, Reykjavik Polar Bear Project.
Verkefnið er alþjóðlegt, en nýlega hófst söfnun á fjárframlögum meðal fyrirtækja og almennings um allan heim. Vefsíða verkefnsins birtist nú á þremur tungumálum; íslensku, ensku og þýsku.
Ísbirnir eru friðaðir á Íslandi, samkvæmt íslenskum dýraverndarlögum nema þar sem fólki eða búfénaði er talin staða hætta af þeim. Þetta er skrítin regla! Þeir koma hingað þreyttir og oft illa farnir á ísjökum sem losna frá íshellu Grænlands, reka til Íslands og bráðna á leiðinni. Flest dýr koma syndandi eftir að ísinn hefur bráðnað undan þeim, oft dögum saman. Við komuna hingað hafa þeir umsvifalaust verið skotnir um leið og til þeirra sést.
Á Íslandi er ekki til nein viðbragðsáætlun um það hvernig á að bregðast öðruvísi við, engin þekking eða reynsla eða útbúnaður til að fanga þessi dýr lifandi. Þessu viljum við breyta. Við viljum taka fallega á móti þessum glæsilegu dýrum, þjálfa upp starfsfólk og reisa aðstöðu og útbúnað til að fanga dýrin lifandi og flytja þau á sérstakt svæði þar sem þeir safna kröftum undir eftirliti dýralækna og vísindamanna. Fyrst og fremst fær dýrið að hvíla sig og safna kröftum. Þegar ísbjörninn hefur náð heilsu verður honum svo sleppt aftur í heimkynni sín. Hvert dýr þarf samt að meta sérstaklega. Sum dýr eru gömul eða það slösuð að þau geta ekki lifað af í náttúrunni og þá munum við veita þeim áhyggjulaust ævikvöld í Húsdýragarðinum í Reykjavík.
Dráp á þremur hvítabjörnum 2008 og 2010 vakti heimsathygli og hneykslan. Mörgum þykir vafasamt að Íslendingar drepi þessi flækingsdýr á sama tíma og mikið er rætt um verndun þeirra í heiminum og hugsanleg áhrif loftlagsbreytinga á búsvæði þeirra. Þar á undan varð vart við hvítabjörn norður af Vestfjörðum sumarið 1993, en drápið á honum var mjög umdeilt þar sem sjómenn sem komu að dýrinu, hífðu það í skip sitt og hengdu. Það dýr gekk aldrei á land en það gerðist árið 1988 norður í Fljótum í Skagafirði þegar eitt ungt dýr gekk á land.
Gögn um komur hvítabjarna til Íslands koma frá ýmsum áttum. Allt fram á 18. öld eru upplýsingar helst að finna í annálum og eftir það í blöðum og ævisögum. Komur hvítabjarna þóttu merkisfréttir enda um ógnarstórt rándýr að ræða. Því verður að teljast líklegt að flestir birnir sem stigu á land hafi komist í sögubækur af einhverjum toga nema auðvitað þeir sem ekki varð vart við. Alls er vitað um rúmlega 500 hvítabirni sem hafa komið til landsins í 250 komum frá landnámi og er elsta heimildin frá árinu 890.
Hvítabjarnargerði
Ekki verður um dæmigert dýragarðasvæði að ræða. Svæðið þarf að vera stórt og þar þarf að vera sjór og klaki til að líkja eftir náttúrulegu umhverfi bjarnanna. Þar kemur íslensk veðrátta loks að góðum notum. Sjóveita er þegar til staðar í garðinum. Ísbirnir eiga mjög erfitt með að vera í dýragörðum. Ísbirnir þurfa stórt svæði til að geta hreyft sig um. Svæðið þarf að vera svo stórt að ísbjörninn geti vafrað um og verði sem minnst var við hindrun. Þetta á alls ekki dæmigert dýragarðasvæði eins og þekkist í dýragörðum, þar sem börn geta lamið í gler, heldur útbúið þannig að fólk geti horft á ísbjörninn án þess að hann verði beint var við það. Það þarf að meðhöndla hann þannig að hann verði ekki háður manninum og bera virðingu fyrir því að hann er villidýri sem mun snúa aftur til heimkynna sinna. Dýrin eiga til dæmis ekki að tengja matargjafir við fólk. Dýrið þarf að finna til öryggis. Tíminn sem hver björn er á þessu svæði er metinn af sérfræðingum og vísindamönnum. Það getur verið frá nokkrum vikum uppí nokkra mánuði, allt eftir eðli og aðstæðum. Þegar dýrið hefur náð heilsu þá er það svæft, flutt og sleppt aftur í sín náttúrulega heimkynni nema sérstakar aðstæður krefjist annars.
Skráðu þig hér á bænaskjalið.
Upplýsingar um hvernig þú getur stutt verkefnið fjárhagslega hér.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „800 hafa nú þegar skráð sig á undirskriftarlista til stuðnings verndarsvæðis fyrir hvítabirni í Reykjavík “, Náttúran.is: 16. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/16/800-hafa-nu-thegar-skrad-sig-undirskriftarlista-ti/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.