Á fimm árum fór Umhverfisstofnun fjórum sinnum í óundirbúið eftirlit í fyrirtæki með mengandi starfsemi. Það var aldrei að eigin frumkvæði stofnunarinnar enda gerir regluverkið ekki ráð fyrir slíku.

Umhverfisstofnun hefur á undanförnum árum farið fjórum sinnum í óundirbúið eftirlit í fyrirtæki sem stofnunin hefur eftirlitsskyldu með. Í öll skiptin var það vegna utanaðkomandi ábendinga en ekki að frumkvæði stofnunarinnar.

Þessar upplýsingar komu fram í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins.

Eygló segir að tilefni fyrirspurnarinnar séu rakin til umræðu um mengun frá sorpbrennslum og frá aflþynnuverksmiðju Becromal við Eyjafjörð. "Ég mun tvímælalaust fylgja þessu svari eftir með því að inna umhverfisráðherra eftir því hvort hún telji þetta vera ásættanlegt."

Umhverfisstofnun hafði eftirlitsskyldu með 121 fyrirtæki árið 2010 en að jafnaði er farið til eftirlits í um 85 fyrirtæki á ári. Í öllum tilvikum var það eftirlit tilkynnt fyrirfram frá 2005, nema í eitt skipti árið 2008 og þrjú skipti árið 2010. Í þessum tilvikum var um að ræða aukaeftirlit vegna kvartana eða ábendinga um hugsanleg brot á ákvæðum starfsleyfa.

Í reglugerð um mengunareftirlit er tilgreind tíðni og umfang eftirlits, sem er ólíkt milli fyrirtækja. Þá kemur fram í svari ráðherra að tilgangur þess að tilkynna um eftirlit fyrirfram sé að tryggja að

búið sé að taka saman upplýsingar og að tengiliður sé til staðar til að svara spurningum. Mengunarmælingar krefjast oftast mikils undirbúnings og ekki er unnt að koma slíkum búnaði upp eða láta framkvæma mælingarnar með örskömmum fyrirvara, eins og segir í svari ráðherra.

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS ehf. Environice, sagði í viðtali við Fréttablaðið í janúar vegna mengunar frá sorpbrennslunni Funa á Ísafirði að fyrirtækjum sé treystandi, ef þau eiga yfir höfði sér viðeigandi refsingu ef þau bregðast traustinu. "Þar held ég að gallinn í kerfinu liggi. Eftirlitsstofnanir eiga að mínu mati að vera mun ákveðnari en þær eru varðandi kröfur um framkvæmd mælinga, duglegri við að koma í óundirbúið eftirlit til að geta staðið menn að verki ef rangt er mælt - og síðast en ekki síst miklu harðari í horn að taka ef skilyrðum er ekki fullnægt."

Ljósmynd: Sorpbrennslan Funi, Fréttablaðið.

Birt:
May 9, 2011
Höfundur:
Svavar
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Svavar „Eftirlt með mengun sjaldan án fyrirvara“, Náttúran.is: May 9, 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/09/eftirlt-med-mengun-sjaldan-fyrirvara/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: