• Jafn margir birnir á 3 árum og á 70 árum þar á undan
  • Sérfræðiúttekt taldi björgunartilraunir ekki réttlætanlegar vegna óvissu um árangur
  • Óskað eftir greinargerð frá Náttúrufræðistofnun Íslands
  • Erindi sent til Grænlands vegna austur-grænlenska ísbjarnarkvótans

Umhverfisráðherra hefur óskað eftir greinargerð frá Náttúrufræðistofnun Íslands í samvinnu við Umhverfisstofnun, Veðurstofuna og aðra hlutaðeigandi aðila um hugsanlegar orsakir aukinnar tíðni komu hvítabjarna hingað til lands. Fjórir birnir hafa gengið á land á sl. 3 árum, sem er mjög óvenjulegt þegar litið er til síðustu áratuga. Hafís hefur einnig verið langt frá landi á undanförnum árum, en sögulega hefur verið skýrt samband á milli heimsókna hvítabjarna og að hafís liggi við landið eða skammt undan landi. Óskað verður eftir því að NÍ hafi samband við vísindamenn bæði hérlendis og erlendis til að reyna að meta hvort tíðar komur hvítabjarna séu tilviljun, eða endurspegli á einhvern hátt breytingar á náttúrufari, sem kalli á aukinn viðbúnað út frá öryggis- og verndarsjónarmiðum.

Björninn sem felldur var á Hornströndum í gær er sá fjórði sem gengur á land á þremur árum. Í júní 2008 gengu tveir birnir á land á Skaga og í janúar 2010 tók björn land í Þistilfirði. Þegar birnirnir á Skaga fundust voru 20 ár liðin frá því björn gekk síðast á land á Íslandi. Alls munu hafa sést um 50 til 60 hvítabirnir á Íslandi á 20. öldinni, en langflestir á fyrri hluta aldarinnar, þegar hafís lá við landið eða nærri landi. Eftir 1932 voru einungis fjórir lifandi birnir felldir á landi á 20. öld: í Hornvík 1963, Grímsey 1969, Fljótavík á Hornströndum 1974 og í Fljótum í Skagafirði 1988. Nú hafa fjórir birnir gengið á land og verið felldir sl. 3 ár, eða jafn margir og á rúmlega 70 ára tímabili þar á undan. Þetta vekur upp spurningar um hvort búast megi við reglulegum heimsóknum bjarndýra á komandi árum og hvort efla þurfi vöktun á hvítabjörnum og endurskoða stefnu stjórnvalda um viðbúnað vegna landtöku þeirra.

Stefna stjórnvalda vegna landtöku hvítabjarna á Íslandi
Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að stjórnvöld hafi ekki látið gera björgunaráætlun, sem grípa megi til ef hvítabjörn gengur á land í því skyni að ná honum lifandi og skila honum til náttúrulegra heimkynna. Þetta er ekki rétt. Fyrir liggur ítarleg úttekt á viðbúnaði sem þarf til að reyna að bjarga hvítabjörnum lifandi, en það var hins vegar niðurstaða að of mikil óvissa væri um árangur slíkra björgunartilrauna til að réttlæta kostnaðarsaman viðbúnað, auk þess sem engin rök sem lytu að vernd tegundarinnar eða dýravernd kölluðu á slíkar aðgerðir.

Eftir komu Skagabjarnanna bað umhverfisráðuneytið Umhverfisstofnun um skýrslu og tillögur um viðbrögð í framtíðinni, þar á meðal mat á því hvaða viðbúnað þyrfti til að ná bjarndýrum lifandi og flytja þau burt. Mat Umhverfisstofnunar í ljósi reynslunnar og ráðlegginga sérfræðinga var að óráðlegt væri að koma upp viðbúnaði á Íslandi til að bjarga hvítabjörnum lifandi sem tækju land, þar sem mjög óvíst væri um árangur af slíkum aðgerðum. Engin rök sem lytu að verndun tegundarinnar mæltu með því að bjarga dýrum lifandi og flytja þau aftur á sín náttúrulegu heimkynni á hafísnum. Í því sambandi má nefna að Grænlendingar heimila veiðar á um 50 dýrum af austur-grænlenska hvítabjarnarstofninum árlega, þannig að fjögur felld dýr á Íslandi á þessari öld eru innan við 1% af felldum dýrum af þeim stofni á þeim tíma.

Dýraverndarrök fyrir því að flytja birni lifandi til náttúrulegra heimkynna sinna eru einnig rýr, þar sem dýr sem hingað koma eru líkleg til þess að vera veik fyrir og hafa hrakist út á jaðar útbreiðslusvæðis síns, auk þess sem þau geta verið þrekuð og særð eftir langt sund hingað. Ítarlegar rannsóknir fara fram á bjarndýrum sem felld eru á Íslandi, sem er deilt með vísindamönnum á Grænlandi og annars staðar, til að auka þekkingu á hvítabjarnarstofninum.

Umhverfisstofnun taldi í skýrslu sinni að stofnkostnaður við kaup á útbúnaði og upphafsþjálfun viðbragðshóps væri um 6,5 m.kr. og að kostnaður við björgun hvers dýrs væri um 11,5 m.kr. Kostnaður gæti þó breyst mikið eftir aðstæðum hverju sinni. Árlegur rekstrarkostnaður vegna þjálfunar og búnaðar var áætlaður um 2 m.kr. Gert var ráð fyrir að notuð væri stærsta þyrla Landhelgisgæslunnar við björgun og flutning á dýrinu til lokastaðsetningar, t.d. á Grænlandi. Ekki var metinn hugsanlegur kostnaður vegna aðgerða á áfangastað dýrsins.

Öflugur viðbúnaður til björgunar hvítabjarna er þó alls ekki trygging fyrir því að björgunaraðgerðir takist. Yfirleitt þarf að taka skjóta ákvörðun um hvort fella eigi dýr af öryggisástæðum og má nefna að hvítabjörn sem var felldur í Þistilfirði 2010 hafði sést nálægt barnaskóla. Ef menn missa sjónar á dýrinu getur skapast hættuástand á nærliggjandi svæðum, þar sem hvítabirnir geta ferðast tugi kílómetra á dag á landi eða sjó. Ef tekst að skapa fljótlega öruggar kringumstæður nálægt dýrinu þurfa aðstæður hverju sinni að vera góðar til að hægt sé að reyna björgun, t.d. er varðar veðurfar, dagsbirtu, landslag og ástand dýrsins. Svæfingarlyfi þarf að skjóta af stuttu færi og koma í veg fyrir að dýrið leggist til sunds eftir að það hefur fengið lyfið. Ef tekst að svæfa dýr þarf að rannsaka það m.t.t. hvort ástand þess leyfi flutning. Óvíst er t.d. hvort dýrin tvö sem gengu á land á Skaga 2008 hefðu þolað flutning eða lifað lengi eftir hann, þar sem þau voru bæði mjög illa á sig komin. Þá þarf að tryggja að dýrið sé flutt á stað þar sem fæðuöflun þess og öryggi er tryggt, fjarri mannabyggðum, vegna þess að heimilt er að veiða 50 hvítabirni á ári við A-Grænland. Þessi mikla óvissa um árangur og það hversu stopular landtökur hvítabjarna hafa verið á sl. áratugum, þýðir að erfitt var talið að réttlæta viðbúnað til björgunar hvítabjarna sem rata til Íslands. Umhverfisráðherra fór með minnisblað fyrir ríkisstjórn eftir komu bjarnarins í Þistilfirði á síðasta ári og var niðurstaðan á fundi ríkisstjórnar sú að ekki væru efni til þess að setja fé í slíkan viðbúnað í ljósi reynslunnar, óvissu með árangur björgunartilrauna og skýrrar niðurstöðu úttektar Umhverfisstofnunar.

Umhverfisráðuneytið hafði samband við grænlensk yfirvöld árið 2008 til að athuga hvort möguleiki væri á því að draga felld dýr á Íslandi frá veiðikvóta austur-grænlenska stofnsins gegn greiðslu. Grænlendingar töldu ekki vera rök fyrir því, þar sem rétt væri að telja til náttúrulegra affalla þegar dýr villtust til Íslands út fyrir náttúruleg heimkynni sín. Þessi beiðni verður nú ítrekuð með tilvísun til þess að tveir birnir hafi ratað til Íslands síðan og hugsanlega kunni tíðni landtöku bjarndýra að vera meiri nú en verið hefur um langa hríð.

Birt:
3. maí 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Orsakir tíðra heimsókna hvítabjarna skoðaðar“, Náttúran.is: 3. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/03/orsakir-tidra-heimsokna-hvitabjarna-skodadar/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: