Bækur og garðverkin - höfundakvöld í Norræna húsinu
Í dag vilja neytendur bæði vita meira um hvaðan maturinn kemur og einnig er aukinn áhugi staðbundinni matarframleiðslu. Mikil gróska hefur verið í ræktun matjurta síðustu ár og æ fleiri koma sér upp sínum eigin matjurtagarði. Í stórborgum eins og New York, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn er það æ algengara að fólk komi sér upp skika og eru hin ólíklegstu (og oft mjög lítil) svæði nýtt til þess. Námskeið sem fjalla um grundvallaratriði matjurtaræktunar eru vinsæl og sala á fræjum, forræktuðum plöntum og spíruðum kartöflum hefur náð nýjum hæðum að sögn stærstu verslana á þeim markaði. Þessi þróun hefur að sjálfsögðu sett mark sitt á bókaflóruna þar sem bæði nýjar bækur eru að koma út og eldri bækur koma út í nýjum upplögum.
Á þriðja höfundakvöldi Norræna hússins, fimmtudagskvöldið 5. maí kl. 20:00 munum við fanga þennan áhuga og höfum fengið til liðs við okkur höfunda sem allir tengjast nýútkomnum og endurútgefnum bókum sem fjalla um matjurtarækt.
Hildur Hákonardóttir höfundur bókarinnar, Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins, sem fyrst kom út 2005 og kemur nú út í nýju upplagi, mun fjalla um hugmyndina að baki bókarinnar og gleðina við að rækta og borða eigið grænmeti.
Auður I. Ottesen er ritstjóri tímaritsins „Sumarhúsið og garðurinn“ og bókaraðarinnar Við ræktum. Fimmta bók í þeirri röð, Árstíðirnar í garðinum er í prentun og Matjurtir,sem var sú fjórða kemur einmitt út í fjórðu endurprentun nú á dögunum. Auður mun fjalla um bækurnar í röðinni Við ræktum og gefa góð ráð til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í ræktun matjurta.
Björn Gunnlaugson hefur skrifað formála og staðfært bókina Ræktum sjálf- grænmeti, ávexti, kryddjurtir og ber eftir danina Gitte Kjeldsen Bjørn og Jørgen Vittrup. Björn mun fjalla um vinnuna með að staðfæra danska matjurtabók að íslenskum aðstæðum og auk þess ræða hvernig hægt er að nýta norrænar matjurta- og garðyrkjubækur við íslenskar aðstæður. Þess má geta að bókasafn Norræna hússins á fjölbreytt úrval garðyrkjubóka.
Á höfundakvöldi #3 mun gefast tækifæri til þess að skoða þennan safnkost auk þess sem hægt verður að spyrja gestina um allt það sem viðkemur matjurtarækt. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.
Ljósmynd: Ýmislegt grænt i garði Hildar Hákonardóttur, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Norræna húsið „Bækur og garðverkin - höfundakvöld í Norræna húsinu“, Náttúran.is: 3. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/03/baekur-og-gardverkin-hofundakvold-i-norraena-husin/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.