Á morgun fimmtudaginn 29. nóvember boða Náttúruverndarsamtök Íslands til fundar í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þar mun Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar kynna umhverfisstefnu fyrirtækisins og svara spurningum fundargesta um stefnu og áform fyrirtækisins.

Fundurinn hefst kl. 12 og lýkur eigi siðar en 13.30.

Á haustfundi Landsvirkjunar þann 21. nóv. s.l. sagði Hörður Arnarson:

„Og í allri okkar uppbyggingu á jarðvarmavirkjunum þá leggjum við áherslu á að fara mjög varlega, í smáum skrefum því að það er ákveðin óvissa sem fylgir bæði auðlindinni og umhverfisáhrifunum en svarið við því er hægfara uppbygging til þess að leysa það. Við skiljum mjög vel áhyggjuraddir umhverfissinna á okkar verkefnum.

Ummæli Harðar ber að skoða í ljósi deilna um Bjarnarflagsvirkjun. Þótt virkjunin sé í nýtingarflokki hafa þessi virkjunaráform verið harkalega gagnrýnd vegna mögulegra áhrifa virkjunarinnar á lífríki Mývatns.“


Á haustfundinum sagði, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri:

„Annað öflugt verkfæri í átt til sáttar er orðræðan. Ég tel að þar getum við öll gert miklu betur. Við verðum að virða ólík sjónarmið hvers annars og nálgast umræðu um þau af fagmennsku. Við verðum að hlusta á hvert annað og gera okkur grein fyrir því að hvert og eitt okkar hefur eitthvað til málanna að leggja. Ef maður sýnir virðingu nýtur maður virðingar.

Umhverfismál og virkjunarmál eru ekki sitt hvor póllinn á sitt hvorri plánetunni. Umhverfismál og virkjunarmál eru einmitt nátengd og að skipa fólki annað hvort í umhverfissinna eða virkjunarsinna finnst mér hrein tímaskekkja.

Ég vil nefna hér að rödd hinna frjálsu félagasamtaka sem starfa að umhverfisvernd er nauðsynleg og nauðsynlegt að hún sé sterk og hafi vægi. Að sama skapi hefur það mikla þýðingu að slík samtök hafi viðunandi starfsumhverfi til þess að þau geti verið sterkur aðili í umræðunni – sáttaumræðan verður ekki sannfærandi nema jafnræði sé með aðilum.“

Í ljósi þessara ummæla forustumanna Landsvirkjunar og margs fleira sem fram hefur komið af hálfu hennar undanfarin misseri vakna ýmsar spurningar um hvað hafi breyst í stefnu Landsvirkjunar og hvort þær breytingar hafi einhverja þýðingu fyrir náttúruverndarbaráttuna. Er það tímaskekkja „… að skipa fólki annað hvort í umhverfissinna eða virkjunarsinna finnst mér hrein tímaskekkja.” líkt og Ragna Árnadóttir heldur fram?

Ljósmynd: Seljalandsfoss, ©Árni Tryggvason.

Birt:
28. nóvember 2012
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Hádegisfundur með forstjóra Landsvirkjunar“, Náttúran.is: 28. nóvember 2012 URL: http://nature.is/d/2012/11/28/hadegisfundur-med-forstjora-landsvirkjunar/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: