Á vef IKEA á Íslandi er tengill á umhverfisstefnu fyrirtækisins á fostíðunni en stöðugt er verið að uppfæra hana og aðlaga kröfum um sjálfbærni í rekstri og vöruframleiðslu á heimsvísu. Ingvar Kamprad, eigandi IKEA, var t.a.m. valinn langgrænasti ofurmilljarðamæringur Norðurlandanna og þriðji grænasti í heiminum skv. árlegum lista Sunday Times árið 2009.

Umhverfisstefna IKEA á Íslandi hljómar þannig:

Við hjá IKEA höfum tamið okkur að hugsa um umhverfið í daglegum störfum okkar. Það sparar peninga auk þess sem það bætir umhverfið.
Þegar við hönnum vörur, þá notum við aldrei meira efni en nauðsynlegt er. Við leitumst alltaf við að lágmarka orkunotkun og draga þannig úr gróðurhúsaáhrifum.
Við vinnum einnig náið með birgjum okkar sem deila þeim metnaði með okkur að vernda umhverfið, bæta vinnuaðstöðu og þróa betri og umhverfisvænni framleiðsluaðferðir.

Við hugsum um komandi kynslóðir og viljum búa þeim öruggt og hreint umhverfi í framtíðinni. Þess vegna höfum við unnið hörðum höndum að bættri umhverfisvernd og lagt okkar að mörkum til að halda náttúru landsins óspilltri.
Við hjá IKEA á Íslandi ætlum nú enn að bæta okkur og bjóða upp á nýjungar í þjónustu um leið og við stuðlum enn frekar að hreinna umhverfi og betra andrúmslofti.

Ljósaperur
Sparperur eru umhverfisvænar í eðli sínu. Þær innihalda þó örlítið af kvikasilfri þannig að þeim þarf að eyða á réttan hátt.
Nú getur þú tekið sparperuna með þér í IKEA og sett hana í sérmerkt ílát hjá okkur.
En mundu! Við tökum einnig við öllum öðrum ljósaperum og endurvinnum þær. Leitaðu eftir merktum ílátum í versluninni.
Saman vinnum við að umhverfisvernd.

Rafhlöður
Rafhlöður eiga ekki að fara með venjulegu sorpi heldur þarf að eyða þeim til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll.
Nú getur þú komið með rafhlöðurnar og skilað þeim til okkar og við sjáum um að skila þeim til eyðingar. Leitaðu eftir merktum ílátum í versluninni.
Saman vinnum við að umhverfisvernd.

Hvað gerir IKEA
Við hjá IKEA höfum löngum stuðlað að bættri umhverfisvernd. Við viljum leggja okkar að mörkum til að vernda auðlindir landsins og því erum við sífellt að bæta okkur í að flokka allt rusl innanhúss. Hér eru aðeins örfá dæmi um hvernig við flokkum úrgang og stuðlum þannig að bættu umhverfi á hverjum degi:

Lífrænt sorp
Lífrænt sorp er hægt að endurvinna með góðum árangri. Úrganginn er hægt að nýta í moltugerð, en molta er til dæmis notuð í landgræðslu og skógrækt. Við hjá IKEA flokkum allan matarúrgang, bæði frá veitingastaðnum og starfsmannamötuneytinu. Úrganginn sendum við síðan til endurvinnslu.

Málmhlutir
Málmur er verðmætt efni og því er mikilvægt að endurvinna hann. Málmur, stór sem smár er settur í viðeigandi gám hjá okkur. Málmurinn er síðan fluttur frá IKEA til brotamálmsfyrirtækja sem flokka hann og pressa. Því næst er málmurinn fluttur úr landi til bræðslu og endurvinnslu.

Timbur
Við hjá IKEA flokkum timbur niður í hreint timbur og litað timbur. Hreint timbur þarf að vera laust við stóra málmhluti svo það nýtist sem best. Timbrið er kurlað og aðallega notað sem stoðefni við jarðgerð, lagningu göngustíga o.fl. Litað timbur þarf að fara í sér gám þar sem ekki er hægt að nýta það eins vel og hreina timbrið. Litað timbur getur innihaldið nokkuð af títanefni og því þarf að flokka efnið sér.

Pálmaolía í IKEA vörum
Þrátt fyrir að IKEA noti aðeins 0,1% af heimsframleiðslu á pálmaolíu viljum við samt hafa jákvæð áhrif á hvar og hvernig að ræktun, uppskeru og vinnslu er staðið, áður en olían endar í kertunum okkar (um 80% af pálmaolíunni sem við notum fer í kerti, restin er aðallega í matvörum).

IKEA hefur ákveðið að kaupa RSPO GreenPalm vottorð fyrir alla pálmaolíuna sem við notum í vörurnar okkar til að hvetja til sjálfbærrar framleiðslu á henni. Fyrstu kaupin verða í árslok 2010. Það er skoðun okkar, miðað við það sem við vitum núna, að besta mögulega lausnin sé að kaupa RSPO GreenPalm vottorð. Lestu meira á www.greenpalm.org.

Fyrir nokkrum árum ákvað IKEA að skipta paraffíni í kertum út fyrir pálmasterín með það að markmiði að minnka kolefnisfótspor okkar. Í ljósi þeirrar vitneskju sem við búum yfir núna teljum við að áhrifaríkasta leiðin að sjálfbærari vörum sé sjálfbærari pálmaolíuframleiðsla. Samt sem áður heldur leit okkar að sjálfbærari hráefnum stöðugt áfram og IKEA heldur áfram að rannsaka aðra kosti en pálmaolíu.

Árið 2006 ákvað IKEA að taka virkari þátt í Round Table on Sustainable Palm Oil (RSPO, Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu) og gegna virku hlutverki í starfshópi um verslun og rekjanleika (Trade and Traceability workgroup) frá árinu 2010. Markmið okkar er að stuðla að viðvarandi breytingum á starfsháttum iðnaðarins. Lestu meira á www.rspo.org.

Ítarlegri upplýsingar veitir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, s. 520-2500

Birt:
4. júlí 2011
Uppruni:
IKEA á Íslandi
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Umhverfisstefna IKEA“, Náttúran.is: 4. júlí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/02/umhverfisstefna-ikea/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. maí 2011
breytt: 14. desember 2011

Skilaboð: