Mikil umræða átti sér stað um velferð dýra á málþingi um aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði í Norræna húsinu á þriðjudagskvöldið 26. apríl sl. en um 200 manns sóttu málþingið.

Dagskráin hófst á því að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sagði frá sinni reynslu af því að alast upp í sveit og þeirri virðingu sem borin var þar fyrir dýrunum, sérstaklega síðustu klukkutímana í lífi þeirra. Í ráðuneytinu er nú unnið að nýrri reglugerð um velferð dýra og verður þar meðal annars tekið fram að skylt sé að fara vel með dýr en ekki að það sé bannað að fara ílla með þau.

Linda Pétursdóttir sagði viðstöddum frá áhuga sínum á dýravelferð og hvaða viðbrögð skrif hennar hafa vakið í félagsmiðlum og í öðrum fjölmiðlum.

Ólafur Dýrmundsson benti á að verð vörunnar endurspeglar ekki þann raunverulega kostnað sem til fellur vegna framleiðslunnar. Velferð búfjár er oft sniðgengin vegna kröfu um ódýr matvæli.

Sif Traustadóttir fjallaði um ævi búrhænanna frá því þær klekjast út og við hvaða skilyrði þær búa á ævinni. Hún fjallaði einnig um vistvæna ræktun á varphænum og benti á að þó svo að það sé skárri tilvera þá sé það ekki lífræn framleiðsla.

Oddný Björnsdóttir fjallaði um aðgengi neytenda að lífrænu hráefni. Hún benti á að lífræna innlenda ferskvöru sárvantar á markaðinn og að lítill þrýstingur hefði verið frá neytendum á síðustu árum. Með aukinni umfjöllun og vitundarvakningu mætti snúa þeirri þróun við og styðja við lífræna bændur og hvetja fleiri til slíkra framleiðsluhátta.

Í pallborði eftir erindin bættust Kristján Oddsson bóndi á Neðra Hálsi og Hörður Harðarson formaður Svínaræktarfélags Íslands í hóp þeirra sem svöruðu spurningum úr sal.

Umræðurnar snérust margar um þau efni sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarnar vikur, m.a. geldingu grísa og aðbúnað í svínarækt. Margir fundagesta vildu skýrari dýraverndarlöggjöf og að henni væri fylgt eftir með harðari viðurlögum. Einn fundargesta lagði það til að ákvæði um dýravernd væri sett í stjórnarskrá að fordæmi Þjóðverja. Dýralæknir sem starfar á kjúklingabúi talaði um að í lífrænum búskap væru margir vankantar og að ekki væri fullvíst að hænsfugl ætti betri lífdaga á stóru lífrænu búi en með núverandi framleiðsluháttum. Kristján Oddsson benti á að ýmsar áskoranir væru í lífrænum búskap en þær væru til að takast á við en ekki gefast upp. Ólafur benti á að ekki væri hægt að aðlaga verksmiðjubúskap að lífrænni framleiðslu heldur þyrfti að byrja frá grunni, fara aftur til gamalla framleiðsluhátta. Almennt voru fundargestir á því að þörf væri á aukinni fræðslu til almennings bæði hvað varðar aðbúnað dýra og lífræna ræktun.

Eins og Ólafur benti á í sínu erindi er ekki við bændur eina að sakast það erum við öll; þjóðfélagið, neytendur og stjórnmálamenn sem berum óbeina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir velferð búfjár í ýmsum greinum landbúnaðar. Með því að upplýsa neytendur betur ætti að vera hægt að snúa þessari þróun við og endurvekja tengsl milli sveita og þéttbýlis.

Ljósmynd: Verksmiðju-svínabúskapur, af locksparksfarm.wordpress.com

Birt:
28. apríl 2011
Höfundur:
Norræna húsið
Uppruni:
Norræna húsið
Tilvitnun:
Norræna húsið „Málþing um aðbúnað dýra í Norræna húsinu“, Náttúran.is: 28. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/28/malthing-um-adbunad-dyra-i-norraena-husinu/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 29. apríl 2011

Skilaboð: