Staða verkfræðinga í vistfræðilegum heimi
Háskóli Íslands stendur fyrir ráðstefnu um stöðu verkfræði í vistfræðilegum heimi en ráðstefnan er ein af mörgum uppákomum stofnunarinnar í tilefni 100 ára afmælisins. Ráðstefnan verður haldin miðvikudaginn 27. apríl kl. 14:00-17:00 í stofu 132 í Öskju.
Aðal fyrirlesari er Peter Head, sem er framkvæmdastjóri hjá Arup verkfræðistofunni í Bretlandi, en hann ræðir um aukið hlutverk verkfræðinga í hönnun umhverfisvænna nýjunga. Að erindi Peters loknu munu íslenskir fyrirlesarar leggja út af erindi hans og heimfæra á íslenskar aðstæður. Að þeim loknum verður pallborð þar sem erindi Peters og fyrirlesara verða rædd.
Dagskrá:
14.00 – 14.10 Opnun ráðstefnu - Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindsvið HÍ
14.10 – 15.10 Hlutverk verkfræðinga í vistfræðilegum heimi - Peter Head, framkvæmdastjóri hjá Arup verkfræðistofunni.
15.10 – 15.25 Kaffihlé
15.25 – 16.25 Stuttar kynningar úr íslenskum veruleika:
- Menntun framtíðarverkfræðinga á Íslandi - Hrund Andradóttir, dósent
- Byggt umhverfi; sjálfbærni í samgöngum og húsagerð - Björn Marteinsson, dósent
- Tækifæri í framleiðslu og nýtingu orku - Magni Þór Pálsson dósent
- Framtíð í úrgangsstjórnun - Guðmundur B. Friðriksson skrifststofustjóri hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar
16.25 – 17.00 Pallborð og umræður
Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Verkfræðingafélag Íslands.
Um Peter Head:
Breski verkfræðingurinn Peter Head frá hinu virta ráðgjafafyrirtæki Aarup í London hefur ferðast um heiminn undanfarið ár og flutt svokallaðan Brunel-fyrirlestur Verkfræðistofnunar Bretlands. Fyrirlestur Peters nefnist Byrjun vistaldar: Hlutverk verkfræðingsins (Head, 2008). Þar kemst Head að þeirri niðurstöðu að mannkynið eigi sér enga framtíð nema plánetan sé heilbrigð.
Head vísar til 10 meginreglna lífhermunar (biomimicry – Benyus 1997) sem geta leitt til lausna fyrir + sjálfbæra hönnun. Hann telur að við getum breytt lífsmáta okkar til sjálfbærni á næstu áratugum og á sama tíma leyft mannkyninu að þróast og fjölga sér á meðan við aðlögumst áhrifum loftslagsbreytinga. Ef við höldum vel á spöðunum mun vistöld árið 2050 hafa 80% af CO2 útblæstri ársins 1990, vistfótspor hvers jarðarbúa verður 1,44 gha/mann (er nú 5,4 gha/mann í Bretlandi en hefur ekki enn verið
reiknað út fyrir Íslendinga) og hækkun verður á mannlegum þróunarstuðli (human development index).
Head bendir einnig á breytingar sem eru nauðsynlegar fyrir fjögur kerfi: samgöngukerfi, vatns- og úrgangskerfi, orkukerfi auk matar- og tjáskiptakerfa. Þessi kerfi hafa ekki verið heimfærð á íslenskar aðstæður til að það komi fram hvar Head sjái að verkfræðingar geti tekið til hendinni í framtíðinni á alþjóðavettvangi.
Samgöngukerfi: Þróa þarf skilvirk og þægileg almenningssamgöngukerfi án útblásturs en með göngu- og hjólaleiðum, lestarkerfi sem tengir saman borgir og flugvelli og vistvæna vöruflæðistjórnun frá vörumiðstöðvum.
Vatns- og úrgangskerfi: Vinna þarf að föngun vatns, geymslu, endurvinnslu og aðskilnaði „grás“ vatns og drykkjarvatns. Úrgangssöfnun þarf að vera með endurvinnslu og metanframleiðslu. Klósett eiga að vera án vatns með lofttæmissöfnun á föstum úrgangi sem verður notaður sem áburður. Borgir verða námur framtíðarinnar þar sem allt er endurunnið.
Orkukerfi: Vinna þarf að stórtækri framleiðslu á endurnýjanlegri orku, þar með talinni sólarorku í eyðimörkum. Borgir hafi samtengda hita- og rafmagnsframleiðslu og staðbundnar hita- og rafveitur. Nauðsynlegt er að fanga koltvísýring frá orkuverum og að framleiða orku og afurðir úr lífúrgangi.
Fæðu og tjáskiptakerfi: Framleiða þarf matvæli í borgum. Þróa þarf breiðbandssamskipti og sérhannaðar upplýsingar.
Öll eru kerfin tengd og mynda hringrásir sem tengja saman umhverfi, hagfræðilega- og þjóðfélagslega afkomu mismunandi hluta byggða þannig að breytingar á hönnun eins geti lyft undir önnur. Þróun allra þessara kerfa er undir sköpunargáfu verkfræðinga komin. Því er þáttur verkfræðinga í að mannkyn geti lifað af 21. öldina mjög mikilvægur.
Birt:
Tilvitnun:
Háskóli Íslands „Staða verkfræðinga í vistfræðilegum heimi“, Náttúran.is: 26. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/26/stada-verkfraedinga-i-vistfraedilegum-heimi/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. apríl 2011