Listamenn leikskólanna í Grænum apríl
Þau voru glöð og kát börnin á Njálsborg þegar þau tóku við fyrstu verðlaunum í listaverkasamkeppni leikskólanna í gær fyrir verk sitt SKÁK OG MÁT. Hugmyndin að verkinu tengist sjálfsagt því að þau hafa verið að læra mannganginn af skákmeistara, en þeirra sérstaka taflborð var þó þeirra eigin sköpun. Dómnefndin hafði við val sitt í huga frumleika og endurnýtingu á efni, en grunnurinn að taflborðinu er gerður úr mjólkurfernum. Ýmsir gamlir hlutir fengu nýtt hlutverk þegar kom að mannganginum, þar á meðal bæði gömul snuð og leikföng. Í verðlaun fengu börnin viðurkenningarskjal, skjólur eða „buff” merkt GRÆNUM APRÍL og eitt glas hvert af barnavítamíni frá Heilsu. Verkið sem vann til fyrstu verðlauna er hægt að sjá á http://graennapril.is/2011/04/skak-og-mat-a-njalsborg/ – en mynd af verðlaunahöfunum og leiðbeinanda þeirra fylgir greininni.
Dómnefndin átti erfitt með að veita bara ein verðlaun, því börnin höfðu gert svo margt skemmtilegt. Því var ákveðið að verðlauna tvö önnur verk. Önnur verðlaun fór til barna á 2ja-3ja ára deildinni á Kópasteini í Kópavogi fyrir verkið VORFUGLAR GLAÐIR. Börnin bjuggu til fuglahús úr mjólkurfernum, sem bæði eru skemmtilegur vorboði og frumleg notkun á efninu, en í leikskólanum er allt sorp sem hugsanlega er hægt að nota aftur til einhverra hluta geymt. Í verkinu felst líka virðing fyrir umhverfinu og smáfuglunum en fuglana sína gerður krakkarnir úr þæfðri ull. Verkið er hægt að skoða það áhttp://graennapril.is/2011/03/vorfuglar-gla%c3%b0ir/ Þau fengu viðurkenningarskjal og skjólur merktar GRÆNUM APRÍL í verðlaun.
Þriðju verðlaunin fóru til krakkanna á leikskólanum Bergi á Kjalarnesi, sem gerðu bæði RUSLAHJÓN OG BÓNDABÆ. Þar var að mati dómnefndar mjög vandað til verks og efniviður var endurnýttur á skemmtilegan og frumlegan máta. Bóndabærinn er líka tenging við íslenska byggingarhefð. Verkið er hægt að skoða á http://graennapril.is/2011/03/listaverk-leikskolans-a-bergi/ Þau fengu viðurkenningarskjal og skjólur merktar GRÆNUM APRÍL í verðlaun.
Það sem vakti athygli þeirra sem að GRÆNUM APRÍL standa var fyrst og fremst hversu mikil natni er lögð í að kenna leikskólabörnum endurnotkun, virðingu fyrir náttúrunni og að umgangast umhverfið okkar á uppbyggilegan hátt. Þetta einstaka starf, sem unnið er með yngstu borgurum þessa lands á leikskólunum á vonandi eftir að það skili sér í grænni framtíð.
Önnur verk sem send voru í keppnina má sjá á: http://graennapril.is/category/vidburdir/listaverkakeppnin/
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Bergmann „Listamenn leikskólanna í Grænum apríl“, Náttúran.is: 16. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/16/listamenn-leikskolanna-i-graenum-april/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.