Fríkirkjan við Tjörnina er græn og grasrótarvæn og tekur auk þess þátt í Grænum apríl, sem sannkallaður „grænjaxl“.
Allt frá stofnun árið 1899 hefur Fríkirkjan við Tjörnina verið  íslensk grasrótarhreyfing.  Stofnun Fríkirkjunnar gegndi mikilvægu hlutverki í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.  Hún var miðlæg í þeirri lýðræðisvakningu sem átti sér stað hér á landi um aldarmótin 1900 og árin þar á eftir.

Fríkirkjusöfnuðurinn við Tjörnina hefur leitast við að vera trúr uppruna sínum með því að leggja áherslu á eftirfarandi gildi sem eru m.a:  frelsi, lýðræði og jafnræði í hinni samfélagslegu umgjörð.  Og hvað varðar trúarlega sýn þá hefur víðsýni, umburðarlyndi og frjálslyndi verið haft að leiðarljósi frá upphafi. Þúsundir Íslendinga hafa gerst meðlimir undanfarin ár og augljóst er að margfalt fleiri taka undir áherslur okkar.  Fríkirkjan metur mannréttindi ofar trúarlegum kreddum.
Markmið hennar er m.a. að stuðla að lýðræðislegu jafnræðisfyrirkomulagi lífsskoðana og  trúmála hér á landi.  Hennar tilgangur er m.a. að vera vettvangur fyrir einlæga trúarleit, tilbeiðslu og tjáningu, þar sem fólk sameinast um bjarta lífssýn, fagrar vonir og væntingar í anda Krists.  Þegar hugað er að vonum og væntingum þá er ljóst að náttúru- og umhverfisvernd er eitt brýnasta verkefni sem samfélag okkar stendur frami fyrir í dag. Þess vegna vill Fríkirkjan við Tjörnina taka virkan þátt í þeirri vitundarvakningu sem fellst í átakinu Grænn Apríl.

Jörðin er ekki einnota.  Við þurfum að vakna upp til vitundar um ráðsmennskuhlutverk okkar hér á jörðunni.  Við erum ekki kölluð til að drottna yfir lífríkinu heldur til að viðhalda því, hlúa að því og varðveita.  Við höfum valdið skaða í hafinu, á jörðu og í andrúmsloftinu og nú þurfum við að axla okkar ábyrgð. Það sem Guð gefur, er okkar að fara vel með.  Okkur ber að vernda lífríkið og náttúruna og fara vel með auðæfi jarðar.

Miðvikudagskvöldið þann 27. apríl kl. 20:00 verður efnt til samveru í Fríkirkjunni í Reykjavík undir yfirskriftinni UMHVERFISHUGLEIÐING.  Þar verður kastljósinu sérstaklega beint að umhverfismálum bæði í tali og tónum. Dagsráin verður auglýst síðar er víst er að hún verður fjölbreytt og áhugaverð.

Heimasíða Fríkirkjunnar.

Sjá alla þátttakendur í Grænum apríl hér á Græna Íslandskortinu.

Birt:
15. apríl 2011
Höfundur:
Guðrún Bergmann
Uppruni:
Grænn apríl
Tilvitnun:
Guðrún Bergmann „„Græn syndaaflausn“ í Fríkirkjunni“, Náttúran.is: 15. apríl 2011 URL: http://nature.is/d/2011/04/15/graen-syndaaflausn-i-frikirkjunni/ [Skoðað:3. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: